Við Reykjafell 2007Við Reykjafell 2010Nú er að koma í ljós greinilegur árangur uppgræðslustarfs Orkuveitu Reykjavíkur í grennd Hellisheiðarvirkjunar síðustu ár. Ljósmyndir teknar við upphaf verkefnisins, árið 2007, og svo nú á dögunum leiða þetta í ljós. Sums staðar hefur hefðbundnum aðferðum verið beitt við uppgræðsluna en annarsstaðar hefur sérstaklega verið leitast við að endurheimta þann heiðargróður sem einkennir uppgræðslusvæðin. Það verkefni er afrakstur ýtarlegra vísindalegra rannsókna, sem OR hefur styrkt.
Frá árinu 2007 hafa sumarstarfsmenn hjá Orkuveitu Reykjavíkur unnið að ýmsum umhverfisverkum á Hellisheiði í tengslum við framkvæmdir á svæðinu. Unnið hefur verið að uppgræðslu, ruslatínslu og landslagsmótun. Uppgræðslan hefur heppnast vel og hefur tekist að græða upp áður örfoka land.

Markmið uppgræðslunnar er að loka rofabörðum og rofnum svæðum og nota til þess innlendar grastegundir og tegundir sem er lágvaxnar og lítt áberandi í landslaginu. Áburðarmagni er stillt í hóf þannig að með tímanum taki staðargróður sér bólfestu í svæðunum, en markmiðið er að þau falli vel að landslaginu í framtíðinni.
Umsjón með verkefninu hefur Herdís Friðriksdóttir, skógfræðingur hjá OR, og hluti þess hefur verið unninn í samstarfi við umhverfissamtökin Gróður fyrir fólk.

Á myndunum hér til hliðar má sjá árangurinn af uppgræðslu við Reykjafell. Efri myndin er frá  2007 og sú neðri frá 2010. Á heimasíðu OR er að finna samanburðarmyndir víðar af virkjanasvæðinu.

Myndasafn af uppgræðslunni á heimasíðu Orkuveitu Reykjavíkur.
Glærukynning um rannsókn á endurheimt staðargróðurs á Hellisheiði.

Birt:
2. júlí 2010
Tilvitnun:
Orkuveita Reykjavíkur „Augljós árangur uppgræðslu á Hellisheiði“, Náttúran.is: 2. júlí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/07/02/augljos-arangur-uppgraedslu-hellisheidi/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. september 2010

Skilaboð: