Fjölmiðlaverðlaun á Degi íslenskrar náttúru
Ríkisstjórn Íslands ákvað síðastliðið haust, að tillögu Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra, að tileinka 16. september ár hvert íslenskri náttúru. Markmiðið með Degi íslenskrar náttúru er að beina sjónum landsmanna að hinni einstöku náttúru landsins, gögnum hennar og gæðum.
Umhverfisráðherra hefur ákveðið að stofna til fjölmiðlaverðlauna sem veitt verða á Degi íslenskrar náttúru. Verðlaununum er ætlað að hvetja til hverskyns umfjöllunar um íslenska náttúru, hvort heldur er í því skyni að vekja athygli á einstakri náttúru landsins eða benda á þær ógnir sem steðja að íslenskri náttúru og mikilvægi þess að varðveita hana og vernda í þágu komandi kynslóða.
Verðlaunin verða veitt fjölmiðli, ritstjórn, blaða- eða fréttamanni, dagskrárgerðarfólki eða ljósmyndara sem hafa skarað fram úr með umfjöllun sinni um íslenska náttúru. Til greina koma einstök verkefni eða heildarumfjöllun um íslenska náttúru.
Óskað er eftir tilnefningum til verðlaunanna fyrir 1. ágúst 2011. Tilnefningar með rökstuðningi sendist Umhverfisráðuneytinu, Skuggasundi 1, 150 Reykjavík.
Birt:
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Fjölmiðlaverðlaun á Degi íslenskrar náttúru“, Náttúran.is: July 29, 2011 URL: http://nature.is/d/2011/06/10/fjolmidlaverdlaun-degi-islenskrar-natturu/ [Skoðað:Oct. 4, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: June 10, 2011
breytt: July 29, 2011