Vegna sjónvarpsfrétta Ríkisútvarpsins 26. ágúst 2010 kl. 19:00 og 22:00 um tafir við orkuöflun fyrir álver í Helguvík vill umhverfisráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri:

Í fréttinni var látið að því liggja að skipulagsmál sveitarfélagsins Ölfuss hefðu ekki hlotið eðlilega meðferð í umhverfisráðuneytinu vegna persónulegra skoðana umhverfisráðherra. Sagði m.a. í fréttinni: ,,Aðalskipulag sem gerir ráð fyrir Hverahlíðavirkjun hefur verið til afgreiðslu hjá umhverfisráðuneytinu í nokkra mánuði. Skipulagið gerir líka ráð fyrir Bitruvirkjun en Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra hefur verið á móti því að hún rísi.”

Afgreiðsla aðalskipulags sveitarfélagsins Ölfuss er í eðlilegum farvegi hjá ráðuneytinu. Tillaga að breytingum á skipulaginu barst umhverfisráðuneytinu frá Skipulagsstofnun þann 9. apríl 2010 og lagði stofnunin til að þeim hluta skipulagsins sem snýr að Bitruvirkjun yrði frestað, þar til fyrir lægju upplýsingar um framleiðslugetu svæðisins. Hins vegar voru engar athugasemdir gerðar við Hverahlíðavirkjun. Vegna þessarar afstöðu Skipulagsstofnunar sendi sveitarfélagið Ölfus ráðuneytinu athugasemdir sem bárust ráðuneytinu 12. maí. Í kjölfarið óskaði ráðuneytið eftir nánari rökstuðningi Skipulagsstofnunar sem barst ráðuneytinu 10. júní. Sex dögum síðar óskaði ráðuneytið eftir umsögn sveitarfélagsins Ölfuss um rökstuðning Skipulagsstofnunar. Sú umsögn barst ráðuneytinu 2. júlí í sumar. Af þessu má ráða að ráðuneytið hefur viðhaft eðlilega stjórnsýsluhætti í málinu þar sem gætt hefur verið að andmælarétti sveitarfélagsins.

Meginregla stjórnsýsluréttar gerir ráð fyrir að eðlilegur málsmeðferðartími sé þrír mánuðir frá því að mál er tækt til afgreiðslu. Umrætt mál verður afgreitt í umhverfisráðuneytinu á næstu vikum.

Rétt er að taka fram að fréttastofa Ríkisútvarpsins leitaði ekki eftir upplýsingum hjá ráðuneytinu við vinnslu fréttarinnar.

Birt:
27. ágúst 2010
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „Vegna fréttar um skipulagsmál og orkuöflun fyrir álver í Helguvík“, Náttúran.is: 27. ágúst 2010 URL: http://nature.is/d/2010/08/27/vegna-frettar-um-skipulagsmal-og-orkuoflun-fyrir-a/ [Skoðað:18. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: