Laugardaginn 7. júní hefst Menningarveisla Sólheima og mun hún standa yfir í allt sumar. Dagskráin er fjölbreytt að vanda og má þar nefna tónleika alla laugardaga, listsýningar, leiðsögn um trjásafn, kaffihús og verslun/gallerí. Sesseljuhús tekur þátt í Menningarveislunni og býður upp á fjölbreyttan fróðleik sem tengist umhverfismálum á mismunandi hátt, sjá hér fyrir neðan.

Formleg opnun Menningarveislu hefst kl. 13 laugardaginn 7. júní og eru allir velkomnir. Dagskrá og opnunartíma Menningarveislu má nálgast á www.solheimar.is.

Sýningar í Sesseljuhúsi umhverfissetri á Menningarveislu Sólheima 2008:

Sitji Guðs englar
Skúlptúrar úr endurunnum kertaafgöngum frá Kertagerð Sólheima
Umsjón: Erla Thomsen, verkstjóri
Undir áhrifum frá síðastliðnum vetri, þar sem snjór náði upp að gluggum og grþlukerti héngu niður af þökum, hóf starfsfólk kertagerðar Sólheima að móta ýmis form sem dýft var í bráðið kertavax úr endurunnum kertaafgöngum.
Nokkrir englar urðu til og eru þeir misjafnir að gerð og lögun líkt og við manneskjurnar og enginn þeirra fullkominn frekar en við. Einnig urðu til ljósker, ólík að lögun, sem mótuð voru í langelda og ýmis önnur form.

Vistvernd í verki
Farandsýning Landverndar
Umsjón: Landvernd og Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir
Vistvernd í verki hófst á Sólheimum í janúar s.l. en það er alþjóðlegt verkefni í umsjón Landverndar. Markmið verkefnisins er að styðja og hvetja fólk til að taka upp vistvænni lífsstíl, skref fyrir skref. Sömu markmið gilda fyrir sýningu Landverndar sem er bæði fræðandi og skemmtileg.

Sólheimar í tímans rás
Ljósmyndasýning í bíósal laugardaga og sunnudaga frá 15-18 eða skv. samkomulagi.
Umsjón: Mariana Rudolph og Valgeir F. Bachman

Framhaldslíf hlutanna
Umsjón: Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir og Nicole Cadek
Sýning á nokkrum hlutum frá verkstæðum Sólheima þar sem fallegir nytjahlutir eru skapaðir úr efnivið sem annars hefði lent í ruslinu!

Háskólanám á Sólheimum
Umsjón: Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir og Nicole Cadek
Háskólanám í umhverfisfræðum hófst á Sólheimum haustið 2007 en það er samstarfsverkefni Sesseljuhúss umhverfisseturs og CELL, bandarískra menntasamtaka. Fjórtán bandarískir nemendur dvöldu á Sólheimum í 3 mánuði og tókst verkefnið mjög vel. Upplýsingar um námið er að finna í Sesseljuhúsi.
Birt:
6. júní 2008
Tilvitnun:
Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir „Menningarveisla Sólheima“, Náttúran.is: 6. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/06/menningarveisla-solheima/ [Skoðað:23. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: