Túnfífill og njóli í Stykkishólmi
Greinargerð um túnfífil og njóla í Stykkishólmi var nýlega unnin af Róberti Arnari Stefánssyni og Menju von Schmalensee hjá Náttúrustofu Vesturlands að beiðni Stykkishólmsbæjar. Hér að neðan birtist kafli um vishæfar aðgerðir til að losna við túnfífil þar sem hans er ekki óskað:
Mótvægisaðgerðir
Þegar túnfífill verður mjög aðgangsharður í görðum getur reynst æskilegt að grípa til aðgerða gegn honum. Verða hér nefndar nokkrar aðferðir sem hægt er að beita. Hversu vel þær gagnast veltur m.a. á þrautseigju ræktandans og aðstæðum:
Visthæfar aðferðir
Visthæfar aðferðir fela ekki í sér notkun efna sem skaðað geta annað lífríki. Þær helstu eru áburðargjöf, að stinga upp fífla, hella yfir þá sjóðandi vatni eða ediki, slá grasflatir áður en fíflar blómstra og nytja fíflana til matar.
Ræktunarskilyrði hafa mikil áhrif á gróðursamsetningu og þar með talið illgresi. Hafa má áhrif á gróðursamfélög t.d. með áburðargjöf. Þannig eykur nituráburður vöxt grasa en getur um leið hjálpað t.d. haugarfa, hundasúru og skriðsóley. Belgjurtir eiga hins vegar erfitt uppdráttar í niturríkum jarðvegi. Hár fosfórstyrkur örvar smáravöxt og vöxt ýmissa tvíkímblaða illgresistegunda. Hár kalístyrkur örvar vöxt smára og fífla en lágur kalístyrkur er gagnlegur fyrir sum grös og hundasúrur. Til að draga úr vexti fífla er gagnlegt að halda kalístyrk og sýrustigi (pH) lágu og tilraunir Trausta Tryggvasonar með áburð þurrkaðs hænsnaskiís á fífla virðast gefa góða raun.
Í garðyrkubúðum má fá svokölluð fíflajárn, sem notuð eru til að stinga upp fífla í grasflötum. Þessi aðferð getur virkað vel en er nokkuð líkamlega erfið og krefst mikillar seiglu. Einn helsti vandinn við hana er þó að aðeins þarf lítill hluti stólparótarinnar að verða eftir til að plantan geti vaxið upp að nýju.
Sumum hefur reynst ágætlega að hella sjóðandi vatni yfir fífla. Við það visna þeir upp og jafnvel drepast. Varast skal að hella sjóðheitu vatninu yfir aðrar plöntur.
Edikssýra sem hellt er yfiríífla drepur þá oftast. Því sterkari sem sýran er, því betra. Mataredik inniheldur oft um 5% edikssýru en gott getur verið að sjóða hana fyrir notkun til að auka styrkinn.
Mikilvægt er að slá grasflatir reglulega svo fíflar nái ekki að blómstra. Þetta fækkar ekki fíflum í grasflötinni en dregur úr fjölgun þeirra.
Fííflablöð henta vel í salat og mætti kynna þann möguleika fyrir íbúum, t.d. með því að veitingahús nýttu sér þá sem hráefni og boðið væri upp á fíflasalat á hverfagrillum og umhverfisdögum.
Síðasta visthæfa aðgerðin sem nefnd er hér felur í sér að plægja og/eða skipta um jarðveg og þekja svo svæðið með túnþökum.
Ljósmyndir: Portret af túnfíflum Taraxum spp. í lok maí, Guðrún A. Tryggvadóttir
Birt:
Tilvitnun:
Róbert Arnar Stefánsson, Menja Von Schmalensee „Túnfífill og njóli í Stykkishólmi“, Náttúran.is: 13. júní 2012 URL: http://nature.is/d/2012/06/13/tunfifill-og-njoli-i-stykkisholmi/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.