Mótmælin loks farin að bera árangur
Nú þegar að fyrstu embættismennirnir eru að drattast til að taka ábyrgð á efnahagshruninu ógurlega er við hæfi að byrja að líta örlítið yfir farinn veg og skoða atburðarrásina sem leiddi til þess að yfirgnæfandi meirihluti íslendinga hafa ekki þolinmæði til að taka þátt í hinu ólýðræðilega Íslandi stundinni lengur og krefjast algerrar uppstokkunar á kerfinu.
Undanfarna daga hefur mér sérstaklega verið hugsað til allra baráttufundanna og mótmælagangnanna sem áttu sér stað gegn Kárahnjúkavirkjun á árunum 2002 til 2006. Andstaðan var sterk frá byrjun, skynsemin sagði almenningi og fjölda fræðimanna að eitthvað væri bogið við slíkar stórframkvæmdir þar sem náttúrunni væri fórnað og fólkið í landinu sæti uppi með ábyrgð á lánum til verksins. Andstaðan stigmagnaðist og fólk var ákveðið í því að láta ekki bjóða sér slíkan afglapahátt sem þessi virkjun var og er. Daginn fyrir fyllingu Hálslóns var fólk ekki búið að gefa upp vonina um að hætt yrði við fyllingu Hálslóns, en þá fylgdu um 7 þúsund manns Ómari Ragnarssyni með kyndla niður Laugaveginn og fuglateljarar töldu um 15 þúsund manns troða sér á Austurvöll og nágrenni til að hlusta á Ómar Ragnarsson (sjá frétt*).
Í raun var gangan líkfylgd og fundurinn sálumessa Kárahnjúka og sorgin var djúp og fólk grét og fóstraði í hjarta sínu gremju gegn ríkjandi stjórnvöldum sem komið höfðu þessari áhættufjárfestingu á okkar herðar. Sú stemning sem þar ríkti hafði gríðarleg áhrif á alla sem þar voru staddir því fólk gerði sér grein fyrir að stjórnvöld skutu skollaeyrum við þeirri kröfu að fara varlega um gleðinnar dyr og sökkva Íslandi ekki undir lón og skuldafen. Innsæi fólks í Kárahnjúkabaráttunni skyldi ekki vera vanmetið því fólkið hafði rétt fyrir sér.
Mótmælin „gegn ástandinu“ sem staðið hafa yfir í 16 vikur hefur stigmagnast og tók kipp síðastliðnum þriðjudag og varð að borgarstyrjöld. Þeir sem furða sig á því að mómælin hafi farið yfir í skemmdarverk og ólæti skulu minntir á að mótmælin gegn Kárahnjúkavirkjun fóru öll mjög friðsamlega fram, því við vorum þæg og héldum að á raddir fjöldans yrði hlustað, en það varð ekki raunin og þess vegna hefur lærdómurinn verið að það þarf að tala hærra.
Nú loksins, sunnudaginn 25. janúar eða næstum fjórum mánuðum eftir að Ísland varð að athlægi og fyrirtæki og fjölskyldur lagðar í rúst vegna vanhæfrar stjórnar landsins, koma fyrstu afsagnirnar. Ráðist hefur verið að Alþingishúsinu sem tákni valdsins sem auðvitað er sárt að horfa upp á en skiljanlegt í ljósi þess að stjórnvöld hafa gersamlega skotið skollaeyrum við kröfum fólksins, eins og venjulega. Eftir að til átaka kom á milli okkar litla lögregluliðs og bæði lögreglumenn og almenningur slasaðist í átökunum tóku mótmælendur upp á því að gefa lögreglumönnum blóm og kakó og friðarsinnar merktu sig með appelsínugulum borðum.
Daginn eftir að ráðist hafði verið að bifreið Geirs Hilmars Haarde, m.a. af einum virtasta rithöfundi þjóðarinnar, kaus hann að nota greiningu um illkynja æxli í vélinda sem ástæðuna fyrir því að hann myndi ekki gefa kost á sér á ný sem formann Sjálfstæðisflokksins, frestar flokksþingi um tvo mánuði og samþykkti síðan kosningar en þó ekki fyrr en í maí. Hann ítrekaði að hefði nú samt fulla starfsorku fram að kosningum og batahorfur séu góðar þó aldrei væri að vita. Hann minntist ekkert á afsögn eða það að þúsundir hafi gert atlögu að Alþingishúsinu til að losna við hann og hans ríkisstjórn, að í raun standi yfir borgarastyrkjöld á Íslandi og allur umheimur bíði eftir að hann skilji að hann verði að segja af sér til að hægt verð að taka til. Auðvitað fær Geir meðaumkun vegna sjúkdóms síns eins og allir sem veikjast en sem stjórnmálamaður sem komið hefur landinu á heljarþröm fær hann ekki meðaumkun heldur verður hann að taka ábyrgð. Að setja almenning í þá stöðu að þyrma honum pólitískt vegna illvígs sjúkdóms er í mínum augum óheiðarlegt frá hans hálfu en kannski eina leiðin sem hann sér í stöðunni.
Ég sagði eitthvað álíka í viðtali við AP á fimmtudaginn (sjá þann hluta** en nafn mitt og meint ummæli hafa verið tekin út og greininni breytt í sjá greinina eins og hún er nú á vef AP), sem var tekið gersamlega úr samhengi langrar greinar og slegið upp illa þýtt yfir á íslensku á vef mbl.is. Með nafngreiningu minni var þannig gerð tilraun til að sverta mannorð mitt fyrir að nefna það augljósa, þ.e. að Geir H. Haarde notaði sjúkdómsgreiningu sína sem skálkaskjól í pattstöðu og vonar að það komi honum undan því að taka ábyrgð sem forstætisráðherra. Þannig reyna valdhafar stöðugt að beina reiði kristins og velmeinandi almúgans eitthvert annað eins og annað snilldarlegt bragð Geirs sannar; Með því að beina reiði íslendinga að bretum í stað sjálfs síns og sinnar efnahagsstjórnar. Það tókst honum vel, en svo var ekki nokkur fótur fyrir því að fara í mál við breta eða fylgja því eftir á nokkurn hátt að við hefðum verið beitt svo miklum órétti með setningu hryðjuverkalaga á okkur. Auðvitað ætti þetta að sanna sjórnunarhæfileika Geirs sem sjórnmálamanns, það er bara spurning hvort að hæfileikarnir standist siðgæðispróf þegar upp er staðið.
En nú þegar mótar fyrir því að kosningar séu í nánd og hausar farnir að rúlla er kominn tími til að byggja upp og fjöldi hópa er þegar byrjaðir störf. Fólkið í landinu er dugmikið og gríðarlega öflugt. Nú gefst tími til að gefa á ný og hugsið ykkur hvað við gætum búið til frábært þjóðfélag ef allt það besta kemur saman.
*sjá fjölda annarra frétta um Kárahnjúkabaráttuna hér á vefnum. Sláið inn leitarorð í leitarvélina og skoðið hvað átti sér stað.
**"He should have apologized and resigned," said Guorun Tryggvadottir, a Web site editor. "I haven't started feeling sorry for him yet. I think he's lucky to be sick now, so that he won't be attacked by people. I want a new constitution, and then a competition for what new Iceland should be like."
Myndir frá mótmælunum síðustu daga.1, 3,4,5. Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir.
Mynd 2, Ómar faðmar eftir ræðu sína eftir Jökulsárgönguna. Ljósmynd: Birgir Þórðarsons
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Mótmælin loks farin að bera árangur“, Náttúran.is: 25. janúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/01/25/motmaelin-loks-ao-bera-arangur/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 4. nóvember 2014