Afhending styrkja úr Auðlind náttúrusjóðiAuðlind-Náttúrusjóður veitti sína fyrstu styrki til verndunar og endurheimtar votlendis í Þjóðminjasafni Íslands mánudaginn 17. maí. Frú Vigdís Finnbogadóttir, verndari sjóðsins afhenti styrkina, en Þröstur Ólafsson, formaður Auðlindar hélt erindi um stefnu og starfsemi sjóðsins.

Verkefni sem hljóta fyrstu styrki Auðlindar – náttúrusjóðs, 17. maí 2010:

1. Fuglavernd, fyrir verkefnið ,,Votlendisendurheimt – Friðlandið í Flóa“
.
Markmið verkefnisins er að fylla upp í 730 m langan skurð sem liggur um miðbik Friðlandsins í Flóa við bakka Ölfusár, sem Fuglavernd hefur haft umsjón með síðan 1997. Þannig vilja styrkþegar færa landið aftur í fyrra horf, endurheimta votlendi, binda kolefni og auka fjölbreytni lífríkis, þar á meðal fuglalífs

2. Sigurkarl Stefánsson, fyrir verkefnið ,,Endurheimt votlendis í landi Setbergs í Litla Langadal á Skógarströnd“.
Markmið verkefnisins er að endurheimta um 1 ferkílómeters votlendisflóa, sem ræstur var fram í dalbotninum fyrir um 35 árum síðan. Til þess þarf að fylla í skurði og tempra úrrennsli úr þeim og rof af völdum Setbergsár. Í framhaldi verður sett upp skilti þar sem árréttað verður að endurheimta votlendið sé griðland allra lífvera sem þar finnast.

3. Norræna húsið, fyrir verkefnið ,,Friðlandið í Vatnsmýrinni“
Verkefnið er samstarfsverkefni Norræna hússins, Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar og Fuglaverndar. Markmið verkefnisins er að endurbæta Friðlandið í Vatnsmýrinni með því að bæta vatnafar svæðisins, uppræta ágengar plöntur, endurhanna austasta hluta friðlandsins og setja upp fræðsluskilti um friðlandið og lífríki þess. Friðlandið í Vatnsmýrinni gegnir þýðingarmiklu hlutverki fyrir fuglafánu Tjarnarsvæðisins. Þar er varpland, uppeldisstöð og veturseturstaður fugla af fjölbreyttum tegundum. Til að fuglar sæki inn á friðlandið í meira mæli þá þurfa þar að vera búsvæði við þeirra hæfi en skki síst friður og öryggi fyrir fuglana. Gróðurfar svæðisins verður fært í sem næst upprunalegt horf og ágengar plöntur fjarlægðar. Fjarlægja á verulegt magn af uppfyllingu (jarðvegstipp) á austurhluta svæðisins og stækka þar með votlendið.

Mynd: Þröstur Ólafsson, formaður Auðlindar og Vigdís Finnbogadóttir, verndari Auðlindar ásamt styrkþegum, Sigurkarli Stefánssyni, Jóhanni Óla Hilmarssyni f.h. Fuglaverndar og Katrínu Ragnars f.h. Norræna hússins.
Ljósmynd Ragnhildur Sigurðardóttir

Birt:
19. maí 2010
Tilvitnun:
Ragnhildur Sigurðardóttir „Auðlind –Náttúrusjóður veitir styrki til endurheimtar votlendis“, Náttúran.is: 19. maí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/05/19/audlind-natturusjodur-veitir-styrki-til-endurheimt/ [Skoðað:22. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: