Er fyrirhugaður Gjábakkavegur í takt við UNESCO heimsminjaskráð Þingvallasvæðið?
Þeim fjölgar líka, sem eru komnir á þá skoðun, að fyrirhugaður vegur #365, frá þjóðgarðinum til Laugarvatns, eins og Vegagerðin og Alþingi hefur ákveðið, sé hið almesta kostnaðarsamt glapræði. Nær sé að endurgera í nútímaveg umrædda leið á núverandi vegstæði og hætta þar með við að gera hraðbraut, sem færi um ósnortið land m.a. um óskert víðerni Eldborgarhraunsins. Pétur hefur undanfarin 3 ár barist hart gegn lagningu þessa Miðfellsvegar um Eldborgarhraun og er nú eini aðilinn sem hefur kært úrskurð Skipulagsstofnunar um umhverfismat á umræddu verki.
Hann hefur m.a. bent á hversu mikilfenglegt útsýni er á núverandi Kóngsvegi og einstakt er t.d. fyrir ferðamenn að stoppa þar viða og virða fyrir sér landslag og náttúru við Þingvallavatn og öðlast skilning á landinu og kenningum um landrek, en hvergi í heiminum er hægt að sjá á landi hvernig Evrópu og Ameríku landflekarnir sigla í hvor í sína áttina, en þarna upp við Trinton sést vel hvernig hraunstraumar, sprungur og Þingvallavatn sameinast í eina heild; Atlandshafshrygginn. Gildi þessa útsýnisstaðar er mikill fyrir ferðaþjónustun og gæti verið nýttur á meðvitaðari hátt í framtíðinni. Eitt af því sem að Pétur hefur þó hvað mestar áhyggjur af varðandi lagningu Gjábakkavegar er að mengun frá háhraðaumferð muni hafa mikil áhrif á lífið í vatninu til lengri tíma litið og að það sé ekki í samræmi við mikilvægi svæðis á UNESCO heimsminjaskrá að fara svo nálægt vatninu með hraðbraut.
Landvernd lagði fram ítarlega skýrslu um málið þ. 03. 09. 2004, en þar metur stjórn Landverndar það svo „að erfitt eða jafnvel ómögulegt sé að byggja veg um þetta svæði sem uppfylli skilyrði um 70 til 90 km. hámarkshraða án þess að það hafi afar neikvæð áhrif á jarðmyndanir og landslag. Stjórnin telur að við hönnun og gerð vega á þessu svæði beri fyrst og fremst að taka tillit til verndarhagsmuna þó að það þýði að draga þurfi úr leyfilegum umferðarhraða. Því virðist æskilegt að byggja því sem næst alfarið á núverandi vegstæði og vegurinn yrði endurgerður með hóflegum hætti með það fyrir augum að mæta þörfum ferðamanna sem eru að skoða sig um á svæðinu og ættu því að geta miðað aksturshraða við talsvert lægri mörk en 70 til 90 km hraða. Ekki er ástæða til að haga byggingu vega með þeim hætti að gegnumakstur á svæðinu vaxi. (sjá skýrsluna á vef Landverndar)
Pétur M. Jónasson hefur helgað ævi sinni rannsóknum á vatna jarð- og líffræði og er einn virtasti fagmaður heims á þessu sviði. Hann hefur sérstaklega helgað sig rannsóknum á Þingvallavatni og Mývatni og gefið út bækur og vísindarit um efnið.
Í svari frá umhverfisráðuneytinu (frá 04. 09. 2006) við kæru Péturs segir að kæra hans falli undir gildissvið laga um mat á umhverfisáhrifum eins og þau voru fyrir breytingu sem gerð var á þeim með lögum nr. 74/2005. Beri ráðuneytinu því að úrskurða í kæru Péturs á grundvelli framangreindra laga. Hvað þetta þýðir í raun á eftir að koma í ljós en víst er að álit Péturs er byggt á ítarlegum rannsóknum og kunnáttu á málefninu og því mikilvægt að viðvaranir Péturs og Landverndar verði teknar til greina á æðstu stigum stjórnsýslunnar. Þó að hraðakstur um Þingvallasvæðið lúti í lægra haldið. Ekki er vitað til þess að NSS (Náttúruverndarsamtök Suðurlands) hafi gefið út yfirlýsingu um málið.
Myndin er tekin af hóp í kynnisferð með Pétri, þaðan sem hann leggur til að útsýnispallur verði reistur. Séð niður til Kóngsvegar. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Er fyrirhugaður Gjábakkavegur í takt við UNESCO heimsminjaskráð Þingvallasvæðið?“, Náttúran.is: 27. september 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/gjabakkaveg_tingvellir/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 30. mars 2008