Heimasíða um alaskalúpínu og skógarkerfil opnuð
Ný heimasíða, agengar.land.is var opnuð í dag þar sem dregnar eru saman upplýsingar er varða eiginleika og útbreiðslu ágengu plöntutegundanna skógarkerfils og lúpínu með leiðbeiningum um mögulegar aðgerðir til upprætingar þeirra.
Á undanförnum árum hefur verið nokkur umræða um áhrif ágengra framandi tegunda á lífríki Íslands. Alaskalúpína og skógarkerfill eru framandi plöntutegundir sem voru fluttar til landsins, m.a. til að græða land upp og sem garðaprýði, en teljast nú vera ágengar.
Aðgerðir samræmdar
Haustið 2009 fól umhverfisráðherra Landgræðslustjóra og forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands að gera áætlun um aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu alaskalúpínu og skógarkerfils. Sett var á stofn nefnd skipuð starfsmönnum beggja stofnana. Nefndin skilaði af sér skýrslu í apríl 2010: Alaskalúpína og skógarkerfill á Íslandi - Útbreiðsla, varnir og nýting. Þar eru settar fram upplýsingar um útbreiðslu og einkenni tegundanna og tillögur um hvernig draga mætti úr frekari dreifingu þeirra. Nefndin lagði meðal annars til að sett yrði á laggirnar aðgerðastjórn sem tæki að sér að samræma aðgerðir við kortlagningu á útbreiðslu og varnir og upprætingu á alaskalúpínu og skógarkerfli.
Að fengnum þessum tillögum skipaði umhverfisráðherra stýrihóp sumarið 2010. Meginhlutverk hópsins er að móta og samræma aðgerðir við kortlagningu á útbreiðslu alaskalúpínu og skógarkerfils, að taka saman upplýsingar um tegundirnar sem nýtast almenningi og öðrum vörslumönnum lands og að setja fram með tillögur um varnir og upprætingu. Ákveðið var að áhersla yrði fyrst um sinn á friðlýst svæði og miðhálendið.
Leitað til almennings
Á heimasíðunni agengar.land.is má finna frekari upplýsingar um starf hópsins, áhrif ágengra tegunda á náttúru landsins og um mögulegar aðgerðir til að upprætingar. Eins er þar að finna frásagnir af aðgerðum á svæðum þar sem hafin er vinna við að uppræta plönturnar. Það er ljóst að til þess að stemma stigu við útbreiðslu framangreindra tegunda, þar sem þær teljast vera vágestur, þarf átak margra aðila. Því er leitað til almennings og vörslumanna lands um samvinnu við að hefta frekari dreifingu. Á heimasíðunni eru gefnar leiðbeiningar um aðgerðir en einnig er kallað eftir upplýsingum, um þær aðgerðir sem beitt er, frá aðilum sem vinna að því að hefta dreifingu eða útrýma tegundunum. Ennfremur gefst almenningi tækifæri á að senda inn upplýsingar um vaxtarstaði alaskalúpínu og skógarkerfils. Með upplýsingum sem þessum má á markvissari hátt fá yfirlit yfir útbreiðslu tegundanna en einnig marka stefnu um mögulegar aðgerðir.
Alaskalúpína og skógarkerfill á Íslandi. Útbreiðsla, varnir og nýting.
Ljósmynd: Ung lúpína, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Heimasíða um alaskalúpínu og skógarkerfil opnuð“, Náttúran.is: 16. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/16/heimasida-um-alaskalupinu-og-skogarkerfil-opnud/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.