Sólarræsting hlaut Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfisráðuneytisins, við athöfn í Perlunni í dag, á Degi umhverfisins. Við sama tækifæri voru nemendur úr Lþsuhólsskóla og Fossvogsskóla útnefndir varðliðar umhverfisins.

Kuðungurinn
Sólarræsting hlaut Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfisráðuneytisins, við athöfn í Perlunni í dag. Kuðungurinn er viðurkenning á því framlagi sem viðkomandi fyrirtæki hefur veitt til umhverfismála og öðrum fyrirtækjum hvatning til að leggja enn meira að mörkum í umhverfismálum.
Dofri Hermannsson, formaður valnefndar, sagði við afhendinguna að það hefði verið samdóma álit allra nefndarmanna að úr hópi tilnefndra fyrirtækja væri Sólarræsting best að verðlaununum komið að þessu sinni segir í frétt frá ráðuneytinu. Sólarræsting hefði með markvissri áherslu á umhverfissjónarmið í starfi sínu og stefnumótun sett glæsilegt fordæmi sem væri öðrum fyrirtækjum til hvatningar og eftirbreytni. Sólarræsting er annað ræstingarfyrirtækið til að fá svansvottun en Enjo hefur einnig svansvottun og því er Sólarræsting annað ræstingafyrirtæki til að hjóta svansvottun ekki fyrsta eins og tilkynnt var við útnefninguna.
Sjá meira um Sólarræstingu í frétt hér á vefnum.

Valnefnd Kuðungsins, umhverfisverðlauna Umhverfisráðuneytisins, skipuðu að þessu sinni þau Dofri Hermannsson fyrir hönd ráðherra, Sigurður Hafliðason fyrir hönd Alþýðusambands Íslands og Sigríður Anna Guðjónsdóttir fyrir hönd Samtaka Atvinnulífsins.
Sjá hér á Grænum síðum þá aðila sem fengið hafa Kuðunginn til þessa.

Varðliðar umhverfisins
Nemendur úr Lþsuhólsskóla og Fossvogsskóla voru útnefndir varðliðar umhverfisins við athöfn í Perlunni í dag. Varðliðar umhverfisins er verkefnasamkeppni á vegum umhverfisráðuneytisins, Landverndar og Náttúruskóla Reykjavíkur. Tilgangur keppninnar er að hvetja ungt fólk til góðra verka í umhverfisvernd, vekja athygli á sýn ungs fólks á umhverfismál og kalla eftir leiðsögn yngri kynslóðarinnar á því sviði. Tvö verkefni fengu viðurkenningu:

Karen Hjartardóttir, nemandí í 10. bekk Lþsuhólsskóla á Snæfellsnesi, bjó til Grænfánaspilið. Spilið leiðir fólk í gegnum ýmis umhverfisverkefni á skemmtilegan hátt og markmiðið er að flagga Grænfánanum. Það hefur Lýsuhólsskóli gert síðan árið 2003 en markvisst hefur verið unnið að umhverfismálum í skólanum í anda Staðardagskrár síðan árið 2001.

Síðara verkefnið fjallar um veggjakrot og umgengni í skólahverfinu og var unnið af nemendum í 5., 6. og 7. bekk Fossvogsskóla. Fossvogsskóli hefur líkt og Lýsuhólsskóli verið í fararbroddi grunnskóla landsins í umhverfismennt. Í verkefninu er tekið á umgengismálum í hverfinu með aðstoð nemenda. Nemendur kortlögðu veggjakrot í hverfinu, skemmdarverk alls konar og slæma umgengni. Reiknaður var út kostnaður við að mála yfir veggjakrot í hverfinu og það tjón sem hverfið verður fyrir sökum þessa. Unnin voru póstkort úr endurunnu efni og á þau skrifuð ýmis konar slagorð tengdum góðri umgengni við náttúruna og nánasta umhverfi og þau borin út í til íbúa í hverfinu.

Efsta myndin er af Þórunni Sveinbjarnardóttur að afhenda Þórsteini Ágústssyni framkvæmdastjóra Sólarræstingar Kuðunginn. Myndin í miðið er af Þórunni og Karenu Hjartardóttur sem hlaut viðurkenningu fyrir Grænfánaspilið. Neðsta myndin er af nemendum úr Fossvogsskóla sem fengu viðurkenningu vegna verkefnis sem tekur á umhverfismálum s.s. veggjakroti í hverfinu.


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Birt:
25. apríl 2008
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Viðurkenningar á Degi umhverfisins“, Náttúran.is: 25. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/25/viourkenningar-degi-umhverfisins/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: