Norræna húsið vill gera Reykjavík grænni
Í höfuðborg sem vill kalla sig „græna“, í samstarfi við háskóla sem vill komast í hóp þeirra 100 bestu í heiminum í framtíðinni og í skjóli alþjóðlegrar menningarstofnunar sem hýst er í perlu byggingarlistar, erum við í Norræna húsinu að endurvekja og skapa friðland fyrir fugla í einhverju erilsamasta borgarumhverfi sem hugsast getur. Þetta er sannarlega mikil áskorun hérna upp við hraðbrautina og í nálægð við flugvöll, en það eru fuglarnir sem munu kveða upp dóminn um hvernig til tekst. Nú þegar hefur krían snúið hingað aftur eftir margra ára hnignun. Á þessu ári hafa 10-15 pör gert sér hreiður á svæðinu.
Við viljum gera Reykjavík að grænni borg og þess vegna leggjum við fram hugmyndir um nýtt borgarskipulag, nýjar leiðir strætisvagna, nýja göngu- og hjólreiðastíga, og við bjóðum börnum í borginni upp á gjaldfrjáls námskeið um náttúruna.
Við viljum að Háskóli Íslands verði einn af þeim bestu í heiminum og þess vegna leggjum við til að svæðið verði tengt beint við og verði náttúrulegur hluti af miðborg Reykjavíkur. Við viljum að umhverfi háskólasvæðisins verði sjálfbært, nýskapandi, fallegt og aðlaðandi. Við viljum að umhverfið sé hvetjandi og veiti innblástur. Við eigum samstarf við sérfræðinga, vísindamenn og námsmenn bæði frá Náttúruvísindastofnun, sem er í nágrenni við bæði Norræna húsið og fuglafriðlandið, og aðrar stofnanir innan og utan Íslands.
Norræna húsið lítur sem menningarstofnun á það sem takmark sitt að bera ábyrgð á verkefnasamskiptunum Við viljum virkja íbúa Reykjavíkur, miðla þekkingu og fá gesti okkar til að skemmta sér og gleðjast. Við viljum leggja áherslu á náttúrulegar og heilsusamlegar lífsvenjur. Við viljum að gestir okkar skilji hvernig hlutirnir eru hver öðrum háðir, hvernig vistkerfi eru uppbyggð o.s.frv. Við viljum nota endurheimt votlendisins til að breyta þjóðfélaginu. Við viljum meina að þetta flokkist undir stjórnmál. Við viljum breyta heiminum!
Til að fá fólk til að taka þátt í þessu með okkur höfum við sett upp vefmyndavél í miðju fuglafriðlandinu svo þú getir setið heima við og horft á hreiður í nærmynd eða fylgst með uppáhaldsfuglinum þínum í rauntíma.
Við erum með grænmeti- og kryddjurtagarð sem matreiðslumeistarar okkar sækja í. Við leigjum út nestiskörfur með heilsusamlegum mat, drykkjum og sjónaukum. Við förum í fuglaskoðunarferðir, leikum tónlist við bakkann og við ætlum að setja upp listaverk við fuglafriðlandið. Við virkjum erlenda listamenn til að vinna með ósnortna náttúruna hér í Vatnsmýrinni. Við búum til dásamlegan mat úr hvönn og kerfli.
Þetta snýst allt um samband manns og náttúru og það hvernig lífsgæði eru tengd heilsusamlegu og áhugaverðu náttúruumhverfi órjúfanlegum böndum. Þetta snýst um framtíðina!
Max Dager, forstjóri Norræna hússins.
Ljósmyndir, efri: Í gróðurhúsi Norræna hússins í dag, neðri: smurbrauð úr matarkörfuúrvalinu og stjúpa, Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Max Dager „Norræna húsið vill gera Reykjavík grænni“, Náttúran.is: 11. júní 2012 URL: http://nature.is/d/2012/06/11/norraena-husid-vill-gera-reykjavik-graenni/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.