Loftslagsbreytingar örari en áður var talið
Loftslagsbreytingar á Norðurslóðum eru enn hraðari en talið hefur verið til þessa. Þetta er meðal þess sem kom fram á ráðstefnu sem haldin var í tengslum við ráðherrafund Norðurskautsráðsins í Tromsö í Noregi fyrir skömmu.
Ráðherrafundurinn í Tromsö var 7. ráðherrafundur Norðurskautsráðsins, en þeir eru haldnir á tveggja ára fresti. Átta ríki eiga sæti í Norðurskautsráðinu, auk fulltrúa samtaka frumbyggja.
Efnt var til ráðstefnunnar til að kynna og ræða nýjustu niðurstöður rannsókna um bráðnandi hafís og jökla á heimsvísu, með þátttöku ráðherra og vísindamanna, auk Al Gores, friðarverðlaunahafa Nóbels. Þar kom fram að niðurstöður nýjustu rannsókna sýni að loftslagsbreytingar á Norðurslóðum séu enn hraðari en talið var í skýrslu Norðurskautsráðsins frá 2004 (ACIA). Sú skýrsla var fyrsta heildstæða úttekt á áhrifum loftslagsbreytinga á Norðurslóðum og vakti mikla athygli, þar sem hún sýndi að breytingar á nyrstu svæðum jarðar væru tvöfalt hraðari en að meðaltali á jörðinni. Útbreiðsla hafíss á Norður-Íshafi minnkar um 12% á áratug og var árið 2007 sú minnsta í sögunni og miklu minni en nokkrar spár höfðu gefið til kynna. Að auki hefur hafísinn þynnst. Í ACIA-skýrslunni sagði að Norður-Íshafið kunni að verða að mestu íslaust á sumrum sum ár um miðja þessa öld, en nýjar athuganir benda til að slíkt kunni að geta gerst jafnvel innan áratugar.
Bráðnun Grænlandsjökuls hefur aukist mikið, en einnig framrás skriðjökla. Svipuð þróun er einnig í gangi á hluta Suðurskautslandsins. Hopun jökla er einnig ör í Himalaja- og Andes-fjöllum, sem hefur áhrif á vatnsmiðlun yfir 40% mannkyns. Líkleg afleiðing bráðnunar jökla á heimsvísu er að hækkun sjávarborðs verði nálægt einum metra á næstu 100 árum, sem er mun meira en talið var líklegt í nýjustu úttekt Vísindanefndar S.þ. um loftslagsbreytingar (IPCC).
Aukning á losun gróðurhúsalofttegunda á síðustu árum virðist vera jafnvel meiri en spáð var í svartsýnustu spám IPCC. Jafnvel þótt tillögur ríkja sem hingað til hafa verið settar fram í samningaviðræðum um loftslagsmál kæmust til framkvæmda dygði það aðeins til þess að takmarka hlýnun við 4,5°C frá því sem var fyrir iðnbyltingu, en ekki innan við 2°C eins og mörg ríki, þ.á m. Ísland, vilja. Ótti manna við að hlýnun lofthjúpsins geti farið yfir ákveðinn vendipunkt, sem þýði enn aukna og óviðráðanlega hröðun loftslagsbreytinga, hefur aukist. Þar vega þungt vísbendingar um aukna losun metans frá þiðnandi sífrera á Norðurslóðum, en slík losun gæti orðið álíka mikil og öll losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum.
Heimasíða Norðurskautsráðsins.
Mynd frá Grænlandi af vef umhverfisráðuneytisins.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Loftslagsbreytingar örari en áður var talið“, Náttúran.is: 13. maí 2009 URL: http://nature.is/d/2009/05/13/loftslagsbreytingar-orari-en-aour-var-talio/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.