Kartaflan, frá skrautjurt til matjurtar
Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, ákváðu að árið 2008 yrði alþjóðlegt ár kartöflunnar. Þannig yrði árið notað til að vekja athygli á þessu hnýði, sem hefur verið ræktað hátt uppi í Andesfjöllum í Suður-Ameríku í 8.000 ár. Þar er erfðauppspretta kartöflunnar, það er að segja að þar er erfðafjölbreytni hennar mest.
Kartaflan á sér 235 villta ættingja sem vaxa frá sjávarmáli og allt upp í 4.500 metra hæð yfir sjó. Náttúran sjálf og þjóðflokkar indíána hafa æxlað saman villtum tegundum og sáð fræinu sem þær gáfu. Um þúsalda skeið hafa bændur valið úr þau hnýði, sem hafa bragðast best og gefið mesta uppskeru og veitt sjúkdómum og skordýrum mesta mótstöðu. Kartaflan var fyrst „tamin“ á svæðinu kringum Titicavatnið og varð undirstöðufæða íbúa Andesfjallanna, þar sem fáar aðrar matjurtir gátu vaxið jafn hátt yfir sjó. Það eru til yfir þúsund mismunandi nöfn á kartöfluhnýðunum og hver bóndi á þessum slóðum ræktar að jafnaði 10-40 afbrigði. Fjölbreytni í útliti og innihaldi er varðveitt og með sérhverjum rétti er borið fram eigið kartöfluafbrigði, sem eykur fjölbreytni fæðunnar. En fyrst og síðast eykur fjöldi afbrigðanna mataröryggið. Það er alltaf einhver uppskera, sem lifir af, þegar á dynja þurrkar, frost, sjúkdómar og sníkjudýr.
Þegar Spánverjar komu til Suður-Ameríku á 16. öld uppgötvuðu þeir „rætur sem voru á stærð við egg, sum kringlótt, önnur aflöng, hvít, fjólublá eða gul á litinn“. Þau líktust sveppum og bæði lyktuðu vel og voru góð á bragðið. Spánverjarnir sneru heim eftir að hafa lagt undir sig ríki Inkaindiánanna og, auk þess sem þeir stálu öllu gulli og silfri sem þeir fundu, þá tóku þeir með sér það sem átti eftir að verða enn verðmætara – kartöfluna.
Kartaflan dreifðist um Evrópu eftir ótrúlegustu leiðum. Á Spáni var hún fyrst ræktuð sem lækningajurt, en menn höfðu tekið eftir því að skyrbjúgur lét ekki á sér kræla ef menn borðuðu kartöflur þegar þeir sigldu heim til Spánar. Munkar, sem störfuðu á klaustursjúkrahúsum, reyndu því að lækna skyrbjúg með þessu mataræði.
Páfinn var þó mjög tortrygginn gagnvart þessum neðanjarðarávexti. Hann bannfærði því kartöfluna sem fæðu djöfulsins og hélt því fram að hún læknaði ekki heldur ylli hræðilegum sjúkdómum. Þá gerðist það að áhugafólk um garðyrkju fór að dreifa kartöflunum sem skrautblómi. Fögur blóm kartöflunnar fóru að prýða hallargarða og aðra skrautgarða vítt og breitt um Evrópu. Í upphafi myndaði jurtin einungis sjaldan hnýði áður en hún varð frostinu að bráð á haustin. Hún hafði enn ekki aðlagast meiri daglengd í Evrópu og fór ekki að mynda hnýði fyrr en á haustin þegar daginn fór að stytta. Einungis þar sem vaxtarskilyrði voru best, svo sem mildir vetur, gaf hún uppskeru.
Það var hins vegar erfitt að fá fólk til að borða kartöflur, þrátt fyrir það að hungursneyð ríkti. Um miðja 18. öld skipaði konungurinn í Prússlandi bændum að rækta kartöflur og lét dreifa útsæði. Þá hótaði hann því að láta skera eyru og nef af fólki, sem hlýddi ekki, og þar með var mótþróinn gegn kartöflurækt brotinn á bak aftur.
Linnulítill stríðsrekstur stuðlaði einnig að útbreiðslu kartöflunnar – hermennirnir lærðu að borða þennan saðsama mat og höfðu síðan með sér útsæði heim handa
konu og börnum.
Franskur bragðarefur
Það var með brögðum sem kartöflurækt hófst í Frakklandi. Franskur apótekari, Permentier að nafni, var handtekinn í Þýskalandi í Sjöárastríðinu, 1756-1763. Það að hann lifði af gat hann þakkað því að hann fékk kartöflur að borða. Eftir heimkonuna sótti hann um áheyrn hjá konunginum, Lúðvík XIV., og reyndi að sannfæra hann um ágæti kartöflunnar til matar. Hann sýndi einnig drottningunni, Maríu Antoinette, hin fögru blóm kartöflunnar sem hún bar síðan sem hárskraut. Konungurinn fór að stunda kartöflurækt kringum höllina í Versölum og, fyrir hvatningu Parmenieters, lét hann vopnaða hermenn gæta kartöflugrasanna. Það vakti að sjálfsögðu forvitni bændanna og þeir spurðu hermennina hvernig ætti að fara að því að rækta þessa jurt. Hermönnunum var síðan skipað að fara burt á nóttinni og þá komu bændurnir og stálu kartöflum – eins og apótekarinn vildi að þeir gerðu.
Kartaflan hóf innreið sína á Norðurlöndum sem skrautjurt. Henni er lýst sem „perúskri næturdrottningu“ í grasagarði í Uppsölum árið 1658. Í Danmörku var hún borin fram í veislu í Ráðhúsinu í Köge árið 1687 en almenn ræktun hennar hófst ekki í Danmörku fyrr en snemma á 18. öld þegar danskir málaliðar höfðu tekið hana með sér heim frá Englandi eða Írlandi.
Í Svíþjóð kom maður að nafni Alströmer með kartöflur frá útlöndum árið 1724 og hóf að rækta þær í garði sínum. Hann hvatti einnig til kartöfluræktar í stórum stíl. Hins vegar voru það sænskir hermenn sem sneru heim frá þrjátíuárastríðinu sem líklega voru fyrstir til að koma með kartöflur frá meginlandinu. Alströmer kom upplýsingum á framfæri í
Finnlandi um að þar væru einnig góð skilyrði til kartöfluræktar.
Fyrsta staðfesta kartöfluræktin í Noregi fór fram á áratugnum 1750-60, en vera má að sjómenn og kaupmenn hafi verið þar fyrr á ferð og þá einungis ræktað þær til eigin nota.
Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal skrifaði um kartöflurækt í fræðslubókum sínum um búskap og pantaði útsæði frá Kaupmannahöfn. Hann setti niður kartöflur þegar árið 1760. Oft voru það prestar og embættismenn sem höfðu forgöngu um útbreiðslu kartöfluræktar. Þannig hvöttu prestar í Noregi til kartöfluræktar í stólræðum sínum.
Almanök, sem um þetta leyti var farið að gefa út á Norðurlöndum, voru einnig notuð til að hvetja til kartöfluræktar, en dugðu þó takmarkað þar sem lestrarkunnáttu almennings á Norðurlöndum var ábótavant. Hægt gekk að sannfæra almenning þar um ágæti kartöflunnar og það var ekki fyrr en harðæri dundu yfir sem hún var metin að verðleikum. Gömul afbrigði af kartöflum, sem enginn veit lengur um uppruna á, eru nú varðveitt á vegum Fræbankans NordGen og þeir sem stunda kynbætur á kartöflum eiga þar aðgang að erfðaefni.
Útbreiðsla kartöfluræktarinnar
Kartaflan er nú fjórða mikilvægasta nytjajurt í heiminum, og er árlega ræktuð á ökrum sem eru 195 þúsund ferkílómetrar að stærð, tæplega tvöföld stærð Íslands. Meira en helmingur af uppskerunni árið 2007, alls 320 milljón tonn, var ræktaður í þróunarlöndunum. Möguleikar á aukinni kartöflurækt eru enn miklir, en ræktunin fer nú fram allt frá Grænlandi í norðri um hásléttur Ekvador og til Ástralíu í suðri. Mest er ræktunin í Kína. Kartaflan seður bæði ríka og fátæka um alla jörð og mikilvægi hennar á enn eftir að aukast. Í þróunarlöndunum er neyslan á mann enn sem komið er aðeins fjórðungur af neyslunni í Evrópu en allt bendir til þess að þar sé hún á hraðri uppleið. Hátt hlutfall kolvetna í jurtinni er mikill orkugjafi og jurtin er einnig góður próteingjafi. Þá fullnægir hún einnig C-vítamín- og kalíþörfum fólks.
Ræktun kartaflna býður upp á sín vandamál eins og ræktun annarra jurta. Skæðust er kartöflumyglan. Stórfelld hungursneyð á Írlandi um miðja 19. öld varð til þess að íbúum landsins fækkaði um 2,5 milljónir manna, bæði vegna hungurdauða og brottflutnings fólks til Ameríku. Írar höfðu þá ræktað nokkra kartöflustofna sem voru mjög móttækilegir fyrir kartöflumyglu (Phytophthora infestans). Frá því á árum síðari heimstyrjaldarinnar hafa kartöfluakrar í Evrópu og Norður-Ameríku verið úðaðir með eitri gegn sjúkdómnum til að bjarga uppskerunni. Kartöflur eru meðal þeirra nytjajurta sem eru hvað mest meðhöndlaðar með varnarefnum. Það er dýrt fyrir bóndann, auk þess sem það skaðar umhverfið þar sem efnið getur borist út í grunnvatnið. Efnið er heldur ekki hollt fyrir þá sem dreifa því, en á hinn bóginn á það ekki að finnast í söluvörunni sjálfri, en nú er unnið hörðum höndum að því að rækta þolna stofna gegn myglunni. Villtir ættingjar kartöflunnar í Suður- Ameríku og Mexikó hafa mótstöðu gegn sveppnum og þeir eru notaðir til kynbótanna. Þá er uppi áhugi á að rækta erfðabreyttar kartöflur sem þyrftu minna á jurtavarnarefnum að halda.
Birt:
Tilvitnun:
Nordiske GENressurser/KerstinOlsson, SLU, Alnarp „Kartaflan, frá skrautjurt til matjurtar“, Náttúran.is: 28. desember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/12/31/kartaflan-fra-skrautjurt-til-matjurtar/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 31. desember 2008
breytt: 16. maí 2009