Í viðtali í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær furðar Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands sig á því að fram sé komin skýrsla um mat á umhverfisáhrifum jarðvarmavirkjunar við Gráuhnúka, þegar ekki liggi fyrir rammaáætlun um svæðið. Rannsóknarboranir voru leyfðar við Gráuhnúka í lok nóvember 2007 (Sjá frétt)

Skipulagsstofnun birti á vef sínum seint í gærkvöldi tillögu að áætlun um mat á umhverfisáhrifum jarðvarmavirkjunar við Gráuhnúka við Þrengslin (Sjá tillöguna á vef Skipulagsstofnunar). Þar kemur fram að Orkuveita Reykjavíkur áformi að nýta jarðhita á nýju vinnslusvæði við Gráuhnúka. Svæðið eigi að nýtast fyrir Hellisheiðavirkjun og jafnvel Hverahlíðavirkjun.

Áform Orkuveitunnar um virkjun við Gráuhnúka var kynnt (sjá frétt) og á íbúakynningu um aðalskipulag Ölfuss sem haldin var í Ráðhúsi Ölfuss þ. 29. febrúar sl. á þeim forsendum að „þar hafi óvart fundist svo mikil orka“ að það væri nauðsynlegt að nýta hana. Jafnvel Bitra er þar einnig aftur inni í myndinni og enginn vildi kannast við að nokkurn tíma hafi veirð ætlunin að hætta við hana.

En áfram með það sem Árni Finnsson hafði fram að færa í útvarpsviðtali í dag:
Hann segir að reynist Gráuhnúkasvæðið gjöfult af jarðhita (sem Orkuveitarmenn staðhæfa), verður að auki komið upp 45 metavattavél. Verði það raunin fær Orkuveitan samanlagt 438 megavött með jarðhitanýting á vinnslusvæðum Hellisheiðarvirkjunar og Hverahlíðarvirkjunar auk fyrirhugaðs vinnslusvæðis við Gráuhnúka.

Þarna vil ég aftur bæta við að Bitra er ekki út af borðinu og kæmi því til viðbótar!

Árni furðar sig ennfremur á því að nú sé verið að kynna tillögur að umhverfismati fyrir nýtt svæði, Gráuhnúka, þegar ekki hafi verið lokið rammaáætlun um verndargildi svæðisins.

Farið sé í að meta þessa virkjanakosti, Gráhnúka og aðra staði á Reykjanesi, án þess að rammaáætlun liggi fyrir. Árni veltir því fyrir sér hversvegna almenningi sé þá talinn trú um að allir kostirnir verði metnir og flokkaðir og að hægt verði að fylgjast með því á Alþingi verði ákvarðanir teknar, þegar búið sé að ákveða að þarna verði að virkja vegna álvers í Helguvík. Árni segir að verið sé að blekkja almenning, það sé ljótt og standist ekki stefnu ríkisstjórnarinnar eða stefnu Samfylkingar og Vinstri Grænna.

Árni segir að iðnaðar-og umhverfisráðherra verði að koma hreint út og segja að gera eigi rammaáætlun. Verði það gert bíði svona matsáætlanir.

Birt:
2. apríl 2009
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Listin að skauta framhjá Rammaáætlun“, Náttúran.is: 2. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/02/listin-ao-skauta-framhja-rammaaaetlun/ [Skoðað:23. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. september 2009

Skilaboð: