Af hverju að gera það einfalt ef hægt er að gera það flókið – segir þýskt máltæki. Þegar hráefnið er ferskt er engin ástæða til að elda flókna rétti. Þeir bæta engu við það sem fyrir er og oft er best að borða grænmetið hrátt. Nóg að gufusjóða það sem ekki á að vera hrátt og bæta við salti og góðri kaldpressaðri olíu.

Einstaklingsmáltíð með grænmeti

Fullkomin og þægileg einstaklingsmáltíð, en afar einföld og næringarrík, fæst með því að taka stóran disk, helst matarfat, og skera niður og raða á það öllu því grænmeti sem á að vera hrátt og fæst á viðkomandi árstíð. Á meðan skal sjóða í litlum potti grjón eða grænmeti, þarf ekki að vera nema ein tegund og einn pottur. Líka má steikja grænmeti á pönnu en þá fer vel á því að hafa fleiri en eina tegund. Svo má líka finna eitthvað gott til að hita úti í búð, ef maður er útivinnandi. Þetta er sett með hrámetinu á fatið eða stóra diskinn.

Síðan er rétturinn aukinn með kotasælu, hugsanlega steiktu eggi, sultu, frönsku sinnepi, niðursoðnum sólþurrkuðum tómötum, ólífum eða góðum osti eins og mozzarella ef hann er til. Bara ráðast á búrhilluna og ísskápinn. Slíkur sælgætisdiskur er nærandi, undirbúningurinn tekur sáralítinn tíma og skapar ekki teljandi uppvask. Og ég veit af eigin raun að því fylgir engin einmanaleikatilfinning, miklu frekar hátíðleiki, að „elda“ svona máltíð. Það sakar ekki að kveikja á kerti.

Eldamennska, sem flæðir fram og byggist á því hvað maður finnur, flokkast undir ævintýramennsku. Þegar best lætur er slík eldamennska síbreytileg, þótt svo virðist sem hráefnið sé það sama um lengri tíma. Það er eins og veðrið, loftþrýstingurinn og birtan taki þátt í að skapa máltíðina. Grunnreglan er – því einfaldara því betra – og það er ekki fyrr en maður hefur fengið að njóta þess sama lengi, að þörfin fyrir tilbreytingu fer að bæra á sér og leitin að uppskriftum og aðgangi að matarfjársjóðum annarra hefst. Sé maður svo lánsamur að eiga ferskan mat þarf engar uppskriftir. Þetta vitum við sem tínum og ræktum. En af og til getur eitthvað mistekist.

Gagnrýnin, sem felst í því að sjá matnum leift, er afar hörð en við fáum aftur tækifæri til að sanna okkur strax næsta dag. Gamalreyndur kennari sagði að það væri vonlaust að halda að hver einasta kennslustund gengi upp árið um kring, þá gerði maður allt of miklar kröfur til sjálfs sín. Einn yfirlesari minn benti mér góðfúslega á að óklókt væri að láta að því liggja að uppskriftir væru ónauðsynlegar, þar sem þetta væri þó matreiðslubók alla vega að hluta. En það eru líka til uppskriftir að einfaldleikanum og í dag þörfnumst við þeirra ekkert síður.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.

Mynd: Hildur Hákonardóttir við „Eldhúsgarðsgluggann“. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
17. febrúar 2013
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Um kosti einfaldleikans“, Náttúran.is: 17. febrúar 2013 URL: http://nature.is/d/2007/11/07/um-kosti-einfaldleikans/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 7. nóvember 2007
breytt: 14. mars 2014

Skilaboð: