Öskudagur
Hann var áður fyrsti dagur langaföstu og dregur nafn sitt af rómversk-katólskum helgisið. Leifarnar af pálmunum, sem vígðir voru á pálmasunnudag síðasta árs, voru brenndar, askan látin í ker á altarinu og vígð fyrir hámessu. Presturinn býður síðan söfnuðinum að ganga nær, dífir fingri sínum í öskuna og gerir krossmark á enni þeirra eða krúnu, ef um klerka var að ræða. Um leið mælir hann þessi orð: „Mundu að þú ert dugt og að dufti skaltu aftur verða.“ Þessa siðar er fyrst getið seint á 10. öld, og er hann táknrænn fyrir iðrun og yfirbót. Í kringum siðbreytinguna á 16. öld kemur andstaða gegn katólskum venjum fram á ýmsan hátt í Evrópu, og á það m.a. við um öskudaginn. Í fyrstu tóku menn að draga kjötkveðjuhátíðina sem lengst fram á öskudaginn, en eftir siðbreytingu varð hann smám saman að sérstökum degi gleði og ærsla í stað iðrunar. Sú hefur einnig orðið raunin á hjá okkur. Einsog áður sagði í sambandi við sprengidaginn, hefur fljótlega tekist að útrýma gleðilátum í kringum föstuinnganginn eins og öðrum skemmtunum á 18. öld, hafi þau á annað borð einhver verið.
En sakleysislegur leikur að tákni iðrunarinnar, öskunni, hefur þó lifað af. Það er sá skemmtisiður að hengja í laumi smápoka með ösku á menn og láta þá bera hana tiltekna vegalengd, t.d. þrjú spor eða yfir þrjá þröskulda. Þetta reyndu einkum stúlkur við pilta, en í staðinn leituðu strákar við að láta stelpur bera smástein í poka sömu vegalengd. Steinninn er líklega valinn vegna þeirrar gömlu refsingar að drekkja konum með stein bundinn við háls sér. Í Reykjavík og öðrum bæjum varð það hinsvegar mikil skemmtun barna að hengja öskupoka aftan á virðulega borgara, sem sumir brugðust furðuilla við. Enn yngra afbrigði þessa siðar er að hafa pokann tóman, en sauma á hann eitthvert tákn ástarjátningar. Gat þá verið úr vöndu að ráða, hver væri sendandinn. Öskudagurinn hefur líka heitið öskuóðinsdagur líkt og í nálægum tungumálum, og er það heiti sjálfsagt eldra, en hefur horfið smám saman, eftir að Óðinsdagur var numinn úr málinu á 12. öld í stað miðvikudags. „Öskudagur á átján bræður” segir alkunn veðurspá. Hinsvegar eru menn ekki á eitt sáttir um túlkun þessara orða. Sumir halda því fram, að 18 næstu dagar eigi að líkjast honum að veðurfari, aðrir að það séu einhverjir 18 dagar á föstunni og enn aðrir, að það séu 18 næstu miðvikudagar.
Kattarslagur:
Hér mundi einna helst eiga heima að geta um þann sið að „slá köttinn úr tunnunni“. Hann hefur einkum verið bundinn við Akureyri, og var upphaflega ekki endilega á öskudaginn, heldur var valinn sérstakur kattarslagsdagur eða tunnuslagsdagur um svipað leyti vetrar. Siðurinn mun hafa borist með dönsku fólki á 19. öld, en í Danmörku var hann alkunnur og talinn hafa borist þangað með Hollendingum á Amákri. Þessi leikur hefur sjálfsagt verið framinn með ýmsum hætti í áranna rás, en hér skal látin nægja lýsing gamals Akureyrings frá því laust eftir síðustu aldamót: Á Akureyri var reynt að ná í flækingskött og hann þá skotinn, en ef það reyndist erfitt, þá var drepinn hrafn, sem nóg var af. En okkur drengjunum þótti minna varið í að nota krumma, og hefur þar ráðið að líkindum nafnið á þessum skemmtilega og spenanndi leik. Kom fyrir, að okkur var boðinn heimilisköttur, sem átti að drepa, og var það þá þegið með þökkum. Annað, sem útvega þurfti til undirbúnings þessa leiks, var tóm tunna. Kaðall var dreginn í gegnum hana og kötturinn eða hrafninn festur í þennan kaðal.
Tunnan var skreytt með mislitum pappír. Við drengirnir vorum í skrautlegum búningum með mislita pappírshatta á höfði, búnir kylfum, sem voru sverari í annan endann, og sverðum, sem voru allmisjöfn að gæðum og gerð, allt frá venjulegu gjarðajárni í stálsverð. Fór það mikið eftir efnum og ástæðum, hversu sverðin voru úr garði gerð. Drengirnir gengu svo í skipulegðri röð og sungu ýmis fjörug lög og döngluðu í tunnuna af misjafnlega miklum krafti og eldmóði. Var þá oft mikill spenningur í drengjunum og ekki síður hjá áhorfendum, sem oft voru margir, þegar ein lítil fjöl vr eftir og erfitt að hafa hana af kaðlinum því mótstaðan var lítil. Hver verður nú svo heppinn að eiga síðasta höggið og verða tunnukóngur og fá kórónu á höfuðið í staðinn fyrir ómerkilegan hátt? Þá var litið upp til manns af öðrum drengjum og smástelpurnar gáfu kónginum hýrt auga og fullorðna fólkið óskaði til hamingju með mestu virktum. Það þótti þó enný á meiri virðing að verða kattarkóngur en tunnukóngur. Held ég að sverðin hafi átt sinn mikla þátt í því, hvað allir ungir sem gamlir litu meira upp til þess, sem var svo lánsamur að höggva síðasta þráðinn í kaðlinum svo kötturinn eða hrafninn féll til jarðar. Sá sem átti því láni að fagna að fá kattarkóngskórónuna á höfuðið, þurfti hann daginn ekki að kvarta yfir því, að honum væri ekki sýnd aðdáun og virðing á ýmsan hátt. Þegar búið var að eignast tvo mikla og volduga konunga, var farið í fylkingu um kaupstaðinn, farið inn í allar verslanir, sem til voru, sungið þar fyrir verslunarfólkið og viðskiptavini, og launin voru venjulega stór poki af sælgæti og oft einnig peningar.
Fullorðnir slógu einnig köttinn úr tunnunni og voru þá ríðandi í skrautlegum búningum og höfuð hestanna einnig fjöðrum skreytt. Það sýnir best, hvernig á kattarslagsdaginn var litið yfirleitt á Akureyri af öllum kaupstaðarbúum, að okkar gamla góða þjóðskáld. Matthías Jochumsson, orti „Hergöngukvæði“ fyrir okkur drengina, þegar við báðum hann um að yrkja kvæði, sem við gætum sungið sem aðallag dagsins á göngu okkar um kaupstaðinn. Matthías sendi okkur hergönguvísuna nokkrum dögum eftir að við heimsóttum hann: Fjöruþjóð á Akureyri og afreksmenn sem byggja Gil fylkjum liði girtir geiri göngum snúðugt víga til. Hvar er tröllið? Hvað er þetta? Hangir í tunnu bundin ketta sem í búri björn bundinn húkir örn. bíður Bakkus hér og bregðumst sverðum vér og dýrið látum detta og dýrið látum detta. Þótt það fylgi ekki sögunni, er því líkast sem hergöngukvæði þetta sé ort undir sama lagi og franski þjóðsöngurinn La Marseillaise. Heimild er til um samskonar framferði í Reykjavík milli 1880-90, en á Akureyri er hann á síðari árum bundinn við öskudaginn, enda er þá frídagur í skólum.
Mynd: Daníel Tryggvi 5 ára málaður sem kóngulóarmaðurinn. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Öskudagur“, Náttúran.is: 10. febrúar 2016 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/skudagur/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 10. febrúar 2016