16. A. Heyrt hefir eg hverninn eg eigi að velja bólstað. En segðu mér eitt: Hverninn á ég að velja sjálft hússtæðið?
      B. Hart og hátt, þurrt og þétt, einkanlega að þú sért viss um að ekki sé neðanganga (5) [og] hvar ei hallar mjög landinu, því það kostar erfiði að hlaðað grundvöll jafnan, sem gjöra verður af stóru grjóti ef duga skal og hús eigi snarast undan brekkunni. Best er að bærinn standi á breiðum hól, sem halli útaf allt um kring. Sé þykkur jarðvegur undir þá verður bygging þín ekki stöðug nema að þú grafir undirstöður svo langt sem jörð frþs á vetrum. Því þegar klakinn að utanverðu hefur sig upp og veggin með, þeim megin, en húsgólf er þítt að innanverðu og þar er veggurinn í sínum réttu skorðum, nema hvað hann er jafnan að síga á meðan hann er ný r, meira innan en utan því þar er hann þurrari á sumrum en stífur og frosin á vetrum, þá vill veggurinn snarast að húsinu eins og klakinn ytra steypir honum, einkum ef veggir hafa verið hlaðnir meir við sér utan en innan 1) hvað margir ófyrirsynju gjöra. Nokkuð hjálpar það ráð hér á móti að hafa meira grjót í veggnum innan til, þá verður hann stífari að standa af sér áganginn.

(1714-84) á akuryrkjuriti Juuls (hdr. þess er í Lbs. 737, 8 vo) Þessi Povel Juul var borgarasonur úr Þrándheimi, komst í Björgvin, til mannvirðinga, síðan 1711-18 amtmaður í Lista- og Mandalsamti en átti í slæmum brösum. Uppvís talinn að landráðum og tekin af lífi í Kbh. 1723. Ári fyrr var prentað þar rit hans: En god bonde, hans avl og biæring af jorden til ager og eng at oprydde...
1) Hlaðnir með meiri fláa utan en innan.
Það hús, sem hefur leir í grundvelli sínum, segja menn trautt verði slagalaust og enn síður loftiði hollt þar inni því leirinn í gólfinu haldi í sér öllum súr og námusöftum, sem þar voru áður. Gerjast þær þar niðri þegar mannylur og umtroðningur koma að ofan og gefa þá upp af sér gufu nokkra, helst við veðrabrigði. Er þetta meint um þau hús sem ei hafa kakalón 1), fjala- eður steingólf. Það bætist með ræsum undir húsum og enn betur með því að grafa burt leirinn, sem langtum þarfari er til annars, en fella aur og sand ofan í gólfið aftur.

1)Kakalón var ofn múraður innan, helst með flísum.

17. A. Það mun kalt hafa steingólf eða hellugólf í húsum þeim, sem menn sitja og standa oftast í á vetrum?
      B. Bæði er það kalt og líka óhollt barnkonum eða þeim, sem hætt er við að missa tíðir sínar, líka karlmönnum þeim, sem holdsveiki býr í (skorbut) 2). Þó skaðar það mest að standa lengi kyrr á steininum, einkum ef lítt eru klædddir til iljanna. Þar höfðu fornbændur gott ráð, sem enný á er tilitækilegt hvar hús ekki drjúpa. Þeir þöktu hvert haust vetrarhúsgólf með þurru, rétthverfu grastorfi. Hefur það verið hlýtt og mjúkt á að ganga. Norðmenn höfðu hálm á húsgólfum í þess stað, helst í drykkjustofum.

2) Skyrbjúgur er á lat. Scorbutus, sem þarna er átt við. En lepra er nafnið á holdsveiki, óskyldri sýkingu. Ranghugmynd þessi að skyrbjúgur sýni holdsveiki búi í manni kemur m.a. til umræðu í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna landlæknis (494.gr.), sem kennir að ætíð sé munur á þeim sjúkdómum.


Skrifar svo assessor Árni Magnússon yfir orðið í hvirfingsdrykkju að þeir hafi setið í hring réttum beinum í hálmi þegar þeir höfðu boð inni og vísar til Noregkónga sögu, um Harald kóng og Enar Þambarskelfi þegar hann vóg Grjótgarð. 1)

1)Aðdragandi að drápi Einars hófst að sumra sögn með þessu, sjá Fornmanna s. VI. s. 279 (63. kap). þó Heimskringla segi annað. Skiptir það litlu um sið og norska hálmnotkun. Hvirfingur á við setu í hring.

18. A. Segðu mér nokkuð um veggina, á þeim ríður meira en gólfinu?
      B. Grashnaus nýjum muntu kunna að hlaða og sniðtorfi innan í, eins og grjóti og torfi eða sniðtorfi saman, 2) ellegar hvar veggir eru í jörð grafnir þá einu saman grjóti að innanverðu. Þó slagar gjarnan það sem við grjótveggin liggur ef innibæjarhús er . Hér skal eg nú segja þér þann bæjarbyggingamáta, sem kenndur er í Ökonimiska magazini. (Tom. 6. pag 341), þar segir svo: Bóndabýli kunna vel að byggjast af almennilegu grjóti og leiri hvar eigi er kalk að fá. Steinveggurinn má vera í mesta lagi danskrar álnar þykkur. Stjaka setja menn niður utan og innan við grundvöllinn og negla þar á beinar rár, hverja upp undan annarri, ellegar og svo borð, hanga þaðan snúrur á lóði svo menn geta altíð séð ofanfrá hvort steinar setjast rétt. Fella skal smásteina í millum hinna stóru undirstöðusteina og jafna þá sem fyrst, til þess [að] álnar hæð er komin. Nær menn byrja þá annað grjótlag sjái þeir til að laggóður steinn komi ofan yfir allar samkomur hinna fyrra undirstöðusteina svo að hvert lag bindi annað og skal jafnan hinn besti flötur steinsins snúa niður.

2) grjóti... saman: grjótlög í milli laga af mýrtorfi eða sniddum, er felld voru saman. Orðið torfi er tilgáta, lesið í málið: þar stendur „Toom“ í útg. 1780. Stafsetning tilgetna orðsins hefði þá líklega átt að vera Torui: ef r þessa orðs var óskýrt (líkt o) hætti við mislestri.

Þegar menn eru komnir tveggja álna hátt yfir jarveginn með alla bygginguna þá eru gluggakisturnar inn settar. Dyragrindina setja menn af 5 eða 6 þumlunga þykku tré á hvern kant af fjórum. Þó betra kunni maður að fá góða steina í þess stað. Leir láta menn á loftin, tveggja þumlunga þykkan, en neðan strjúka menn þau með þunnu kalki. Gólfið jafnast ofan með leiri og sé [það] svefnhús, geymsluhús eða loft þá er betra að maður mylji gler og láti svo mikið af því sem menn hafa efni til saman við leirinn; það ver öllum ormum að hreiðra sig í gólfinu.
Þega búið er að byggja þá plokka menn að utanverðu leirinn úr öllum samkomum og fylla aftur með tilbúnu kalki og þá fyllast undir eins allar rifur 1), með smásteinum. Þessi veggur þolir bæði vind og regn. Sé berg sprengt í þessa byggingu þá er best að hver stienn liggi sem hann hefir áður legið og það snúi upp sem áður var. Þegar fyllt hefur verið upp með smásteina og leir í millum tveggja laga þarf að fá laggóðan, flatan stein innan í sem bindi yfir um þveran vegg út á miðja hleðslusteina, [svo] að aldrei geti klofnað. Ibidem 335: Það er fundið besta ráð að gjöra leirvegg varnalegan  [að] menn blanda hver 2 hlöss af leir með einum hjólbörum af hrossataði, láta menn það vel eltast og troðast saman við leirinn. Þegar þessi veggur er þakinn ofan svo vatninu út af halli er hann varanlegur. Sama segja menn sem um kúamykju. Eg segi þér frá þessu því slík bygging er eigi kostnaðar samri en svo að bæði þú og aðrir óríkir menn geta fylgt þessum reglum þar sem grjót og leir er hægt að fá. Og mættu þessi hús verða að mörgu betri en vor moldarveggjahús og standa lengur en flest af þeim. Það heyrir svo til bæjarstæði að setja hann þar sem veggja efni eru nóg við hendina og hentug.

1) leirinn.. rifur: þ.eþ leir er skafinn burt úr öllum samskeytaskorum milli hleðslusteina og fyllt aftur með kalkinu og samtímis (undir eins) sé fyllt upp í allar rifur...

19. A. Hver hús þarf eg fyrst? Kenndu mér líka húsaskipan.
       B. Svo er þér húsaskipan hagkvæmust að þú sjáir frá bæjardyrum þínum allar útihúsadyr og sem mest af öllu annvikri þínu sé þér strax fyrir augum er þú lítur út úr bænum. Betra er að bærinn sé tvídyraður nema gluggarnir séu svi stórir að menn megi vel út komast því það hefur stundum kostað líf manna þegar eldur kom framarlega í bæ að þeir komust hvorki fram um hann né annarstaðar út til að forða sér. Sjálfur kanntu að velja af annarra manna siðum þann hátt, sem þér geðjast best, að raða húsum niður, skammta bæjarhlað og annað þess háttar. Nú þarftu fyrst að byggja þér eitt bæjarhús, en það sem er allra stærst þú færð efni til og eigi minna en fjögur stafgólf, 6 álna breitt, þarftu þá ekki fleira en það eina bæjarhús fyrst um sinn og getur þú haft þar inni betri hentisemi en þótt þú fengir fleiri og smærri. Þar hefur þú búr og aðdrætti ykkar í öðrum enda, hinumegin pall fyrir ykkur að sitja og sofa um nætur en vefstað á gólfi, með eldstokkum um kring á fjóra vegu og má þér samt duga húsið. Kanntu þá sitja við máleld að kvöldum með óvandaða vinnu og hefur þú allt þurrt og slagalaust inni og er það mikil hþbýlabót. En ekki máttu þá hafa loft í húsinu nema þú geymir efst á skammbitum amboð og allt það, sem reykjast skal, hvort heldur ætt eða óætt. Viljir þú heldur hafa ónstofu út úr húsi þessu þá verður þú að búa vel um hana því oft hefur húsbruni komið af ónstofueldi. 1)

 1) Eldi sem kvikna kann út frá ofni stofnunnar eða reykháfi hans. En máleldur var í hlóðum í gólfinu og bar nafn af því þegar matur var í þeim eldaður í kvöldmál og morgunmál.

20. A. Fleiri hús þarf eg þó en þetta eitt.
      B. Úti þarftu fjós fyrir sex naut. Þú munt taka tvær kþr á leigu fyrst þú átt enga sjálfur. Beggja þeirra kálfa elur þú nú á fyrsta ári því ekki muntu í annað sinn hafa færri menn fram að færa. Tvö geldneyti tekur þú til fóðurs því þess getur þú hægast aflað sem þau lifa á. Verður þá fjós þitt 8 álna langt og 4 á breidd og snúa þrjú nauthöfuð að hverjum gafli. Þá þarftu hús fyrir leiguærnar sex, til þess þarftu engan við; þú getur hlaðið það að sér upp sem annað byrgi og láta op eitt vera upp úr miðju en dyr þar sem hentugast er eftir afstöðu. Eins máttu eldhús byggja utan bæjar með rauf upp úr fyrir reykháf; lambhús er enn, sem þú þarft fyrir tuttugu lömb ef þú ætlar þér að borga kvígildaleigur í lambafóðrum.
Þess vegna verður þú að gæta um öll kvikfénaðarhús að veggir þeirra séu innan til af einu saman grjóti upp hlaðnir svo langt sem andi fjársins kann að ná til; annars morknar sá veggur strax í sundur og verður að fúamold.
Annað er þér aðgætandi um alla veggi hvar grjóti einu er hlaðið beggja megin en fyllt með mold innan í. Þar tútnar moldin út í veggnum þegar hún frþs svo allir steinar fara úr lagi. Eru hér til sömu rök sem sagt var um grundvöllinn.
21. A. Ekki fæ eg hrís á Konungsstöðum. Hvað á eg þá að hafa til tróðs?
      B. Fáir þú þunnar hellur og stórar máttu hafa þær bæði fyrir tróð og raft en langbönd séu þau þá sterk að því skapi. Surtarbrandur er og þar til góður. Hann fúnar ei heldur en hellur undir torfi og slík bygging hefur hér víða lengi staðið. Sé hvorugt þetta að fá máttu brúka þurran gamburmosa, rúmlega kvartil þykkan þar hann er lagstur, eða sinu eða melstöng og sé allt það vel þurrt. Það er reynt gott ráð að brenna utan bitahöfuð, sperrutær og alla þá viði, sem helst mæta vætu og fúna. Þannig brenndur utan viður hefur fundist 200 til 300 ára gamall ófúinn, bæði í formannagröfum og annarstaðar undir jörð. Gamlir bændur hafa líka borið nautamykju að húsastöfum neðan svo engin mold gæti að þeim komist og eru þeir þar beinharðir eftir mörg ár, eins og sýruker, sem með því móti geymast niðrí jörð svo barmar einir standa uppúr, og eru það óskemmd bæði að girði og öðrum viði, einn mannsaldur eftir annan. Þar má kringlutorf fá sem ekki fæst langtorf 1). En hvar hvorugt er þar máttu sem best tyrfa með sniðtorfi eða hnaus. Hann grætur fyrr því að í honum halda sér allar rætur, verður þar þak þétt við það að hnausinn sígur hvert á annan ofan eftir hliðinni. En bæta þarf í mæninn á hverju ári af þremur þeim fyrstu. Trauðlega þarf það hús oftar torfs með en um sinn þótt það verði gamalt.

1) Langtorf var sama torfugerð og tíðkaðist að risa á 20. öld. Ekki hafa öll býli grjótlausan jarðveg bjarglegrar torfristu en hér segir að þí meiri rista þar kringlutorf. Í Búalögum er verkmanni ætlað að rista 900 kringlutorfur á dag, svo óvandað mátti hafa þær.
Birt:
31. ágúst 2009
Tilvitnun:
Björn Halldórsson í Sauðlauksdal „Atli hýsir bæ á konungsstöðum - Atli IV“, Náttúran.is: 31. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/31/atli-hysir-bae-konungsstooum-atli-iv/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: