Hamingjan er að vakna að morgni dags með strákunum mínum í miðri kreppunni og í stað þess að hugsa um Icesave þá dunda ég mér við að hita pela í potti á eldavélinni. Litli strákurinn minn er mjúkur maður enda ekki nema 8 vikna og ég hlæ þegar pabbi Valgeir syngur fyrir hann „Hraustir menn“ sem KK er að spila í útvarpinu.

Sonur minn hefur enn ekki uppgötvað karlmennskuímyndina og þær mótsagnakenndu kröfur sem gerðar eru til karlmanna í dag. Stundum eiga karlmennin að vera hörð eins og James Bond og Clint Eastwood, en á einu augabragði eiga mennirnir okkar líka að geta breytt sér í mjúka menn og þeir eiga alltaf að geta töfrað fram indæla steik af grillinu með litlum fyrirvara og fært hana upp á fat. En sem betur fer er menning okkar smám saman að viðurkenna að karlmenn hafa líka tilfinningar. Litli drengurinn minn er náttúrulega bara heill hafsjór tilfinninga enn sem komið er, og bæling og leikaraskapur er eitthvað sem hann á alveg eftir að læra. Svengdin hjá litla manninum er hreint og tært hungur, gleðin fölskvalaus og gráturinn djúpur og sannur.

Það er annars merkilegt hvað ungabörnin fæðast fullkomin í þennan heim og merkilegast að sonur minn skuli hafa verið innan í mér í tæpa níu mánuði. Ég sem alltaf stóð föl og gubbandi yfir vaskinum og var eitthvað svo sloj á meðgöngunni, en síðan fæðist þessi fullkomni og fagurskapaði drengur. Vi ð hjónin skiljum enný á ekki hvernig við fórum að þessu?  Hvílíkt dæmalaust kraftaverk!

Ungabörnin eru mjúk og mannbætandi. Hörðustu jaxlar mýkjast upp í návist þeirra og ungabörnin laða fram bestu hliðar í hverjum og einum. Allt í einu verður mjög vinsælt að koma í heimsókn, ekki til þess að tala við okkur „gamla settið“, heldur til þess að kynnast unga manninum. Ef hann er svona vinsæll núna, hvernig verður þetta þegar hann kemst á giftingaraldurinn? Og hann sem er strax byrjaður að sjarmera hitt kynið upp úr skónum?

Hamingjan er þannig þessi hversdagslega hamingja sem felst í því að rækta kærleikann og fjölskylduna í stað þess að sá sífelld fræjum í garð reiðinnar, græðginnar og illskunnar. Þar með er ég ekki að segja að ég hafi fyrirgefið útrásarvíkingunum. Sumt getur Guð bara fyrirgefið, segi ég nú bara. Græðgin er jú ein af dauðasyndunum sjö sem Hieornymus Bosch málaði svo hrollvekjandi myndir af og sem menn óttuðust sem mest á miðöldum.

En sonur minn er enný á svo nálægt himnanna ríki að hann hefur enný á ekki uppgötvað illsku heimsins. Ef við fullorðna fólkið værum meira eins og ungabörn, svona hrein, tær, einlæg og fölskvalaus þá væri heimurinn betri og vandamál Íslands sennilega að mestu leyti leyst. Því ef við ætlum að breyta heiminum þá verðum við að byrja fyrst á okkur sjálfum. Um leið og við breytum sjálfum okkur, breytist heimurinn vegna þess að hvert og eitt okkar er óendanlega dýrmætt og við erum öll þegar upp er staðið, heimurinn í hnotskurn.

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir.

Birt:
31. janúar 2010
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Hamingjan“, Náttúran.is: 31. janúar 2010 URL: http://nature.is/d/2010/01/10/hamingjan/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 10. janúar 2010
breytt: 31. janúar 2010

Skilaboð: