Það sem algengast er að fólk geri til þess að hæna að sér villt dýr í garða er að gefa fuglunum. En fleira er matur en feitt kjöt og það er ýmislegt sem þú getur gert til þess að laða að þér fánuna. Aukna fjölbreytni plantna, meira frjóduft, meiri blómasafa og fleiri ber og fræ hefur þegar verið fjallað um. Er þá ekki kominn tími til þess að huga að öðrum leiðum?

Fuglaborð er góð hugmynd. Þar færðu tækifæri til þess að laða að þér fjölda fugla á vissan stað þar sem þú getur notið þess að fylgjast með þeim á þægilegan máta. Borðið sjálft þarf ekki að vera merkilegt. Aðalatriðin eru staðsetningin og notkunin. Notkunin fyrst. Ábyrgð er nauðsynleg eftir að þú byrjar. Það má ekki henda að gefa nokkra daga, venja fuglana og gefast svo upp og gefa bara þegar þú manst eftir því. Komdu þér upp reglu og haltu fast við hana. Fuglarnir eru fljótir að læra að þarna er matur sem lítið þarf að hafa fyrir og þeir eiga eftir að flykkjast að af stóru svæði. Þeir treysta á þig og þeir gætu orðið illa úti ef þessar ókeypis máltíðir hætta allt í einu. Sérstaklega á veturna. Reyndu því að gefa alltaf á sama tíma á hverjum degi, t.d. eftir morgunverð. Á veturna bíður þá maturinn eftir greyjunum þegar birtir og þeir koma eftir kalda nótt í örvæntingarfullri leit að mat sem getur skilið á milli lífs og dauða fyrir þá.

Staðsetningin þarf að vera nákvæm. Þú ættir á raun og veru að hugsa um “matstöð”  fremur en fuglaborð. Nokkrir fuglar eru fremur feimnir við að næra sig tvo metra frá jörðu og vilja frekar krafsa og gogga af jörðinni svo að opið svæði kringum borðið er nauðsynlegt. Það hefur líka þann kost að það er erfiðara fyrir kettina að læðast að fuglunum. Þetta opna svæði þarf helst að vera um fjórir metrar í þvermáli ef borðið er á húsvegg. En aðalástæðan fyrir því að setja upp svona matstöð er náttúrulega sú að þú getir fylgst með fuglunum og stúderað þá. Þess vegna þarftu að staðsetja matstöðina þannig að það sé þægilegt fyrir þig að fylgjast með henni út um glugga. Þá þarf að vera auðveld og greið leið frá húsinu að matstöðinni. Það getur verið allt í lagi á góðum dögum að skjótast út með fóður en þegar þú þarft að kafa snjó lítur dæmið öðruvísi út. Greinar sem fuglarnir geta flogið upp á við minnstu hættumerki auka vinsældir þínar. Það er ekki vitlaus hugmynd að festa góða grein ofan á borðið sem fuglarnir geta fyrst sest á meðan þeir eru að ákveða sig. Hæðin á matstöðinni þarf að vera um tveir metrar. Þú átt eftir að verða undrandi á hve hátt kettir geta stokkið þegar fuglahópur hefur tekið ástfóstri við matstöðina þína. Ef þú átt í erfiðleikum með staðsetningu vegna hættu frá köttunum gætirðu reynt að hengja borðið (eða kettina!) í trjágrein. Það heldur köttunum örugglega frá.

Önnur hætta sem gæti steðjað að fuglunum er sýking. Þegar svo margir fuglar koma saman er sjúkdómahætta meiri því að sjálfsögðu drita þeir þar sem þeir eru staddir þá og þá stundina og virðast ekki hafa miklar áhyggjur þótt dritið lendi í matnum. Ef þú hefur tök á skaltu færa borðið á nýjan stað árlega. Varastu einnig að gefa of mikið af því rotnandi leifar geta verið hættulegar heilsu fuglanna. Leifarnar geta líka vakið athygli annarra sem eru ekki æskilegir gestir í garðinum þínum. Þar á ég við rottur en ég á allt eins von á að það sé ekki sú villta fána sem þú hefur áhuga á að fylgjast með. Fjölbreytni í fæði hefur bæði áhrif á tegundirnar sem heimsækja þig svo og líðan þeirra. Þeir fuglar sem eru með svera og sterka gogga eru oftast fræ og/eða aldinætur. Þeir hafa sem sé áhöldin til þess að opna hnetur eða stór fræ eins og sólblómafræ. Hinir, þessir með mjóu og beittu gogganna, eru fyrst og fremst skordýraætur þótt þeir fúlsi ekki við aldinum og fræjum þegar skordýr eru ekki í boði. Tólg eða fita hentar þessum fuglum vel og kjötsag getur bjargað lífi þeirra á köldum dögum. Beinmergur er einnig ofarlega á vinsældalistanum.

Fyrir tveimur árum bjó ég til pylsu úr tólg, kjötsagi og muldum hnetum og setti í plastgrisjupoka sem ég hengdi upp í tré. Pylsan sú var ákaflega vinsæl þegar fuglarnir uppgötvuðu hvað þetta var og það var oft fjör þegar þeir voru að rífast um hver fengi besta plássið. Því miður gerði ég þau mistök að hafa ekki nógu sterkan vír í upphenginu svo hún datt á jörðina. Það síðasta sem sást til pylsunnar góðu var að goldenretrieverhundur, sem átti leið hjá, tók hana í kjaftinn og forðaði sér með hana sem fætur toguðu. Ég vona bara að hann hafi ekki fengið stíflur af grisjunni, greyið.

Ávextir, ber, poki með hnetum, ostur, kjötsagm tólg og mergur eru meðal þess sem hægt er að gefa fuglunum. Mjólk, rjómi og hunang til brennslu er einnig vinsælt. Brauð sem bakað er úr hveiti og korni sem hefur verið úðað skordýraeitri er ekki mjög heppileg fæða. Eiturefnin í korninu safnast saman í búkum fuglanna og geta valdið lasleika. Fyrstu merki þess koma í ljós á afkvæmunum. Þunnt eggjaskurn og vanskapaðir ungar.

Hreiðurkössum hefur fjölgað undanfarin ár. En það þarf að ýmsu að hyggja þegar svoleiðis nokkru er komið upp. Hönnun kassans hefur bein áhrif á hvaða fuglategund ný tir sér hann og staðsetningin þarf líka að vera mjög nákvæm. Einföldust er lítil sylla fyrir fuglinn að verpa á. Viðarplata sem er tíu sinnum fimmtán sm. Með þriggja sm. Háum brúnum, tvo metra frá jörðu er allt sem þarf. Ef þér tekst að hæna að par þá er líklegt að afkomendur haldi ástfóstri við staðinn í það óendanlega. Í kringum þennan bakka þurfa að vaxa klifurjurtir eins og vaftoppur, bergflétta, humall eða klifurrósir. Ef klifurjurtirnar eru á neti u.þ.b. tíu sm. Frá veggnum geta eftirtaldar tegundir nýtt sér þetta: Maríuerla, skógarþröstur, stari, músarrindill, auðnutittlingur og ef heppnin er með , steindepill.

Flestir þessara fugla vilja líka verpa í opnum kössum, þ.e. framhliðarlausum kössum. Þessir kassar þurfa ekki eins mikla leynd og sillurnar en það er samt betra að hafa þá á vegg en í tré.Sá hreiðurkassi sem flestir sjá fyrir sér er þessi úr teiknimyndunum. Ferkantaður með gati á einni hlið og smá priki fyrir neðan gatið. Af þessum kassa eru til alls konar útfærslur. Jafnvel kassar úr plasti með stráþaki í Túdorstíl. Mér er sem ég sjái fugl hreiðra um sig í svoleiðis kassa. Það sem fuglar stefna að við varp er leynd, ekki ljósaskilti sem auglýsir ókeypis máltíð fyrir rándýr eða ræningja. Því betur sem kassinn fellur inn í umhverfið, þeim mun betra.Stærð gatsins hefur áhrif á það hver flytur inn. Almennt má segja að því stærra sem gatið er þeim mun fleiri tegundir geta nýtt sér kassann. Þetta er þó ekki alveg svona einfalt. Margar tegundir gera sér nefnilega hreiður á mjög sérhæfðum stöðum, t.d. í urð eða þúfum, undir bökkum o.s.frv. Þá eru körfurnar eins mismunandi og tegundirnar eru margar. Efniviðurinn er mismunandi líka. Notaðu því hugmyndaflugið eða náðu þér í góðar fuglabækur eins og Fuglahandbókina eða Fuglar Íslands og Evrópu og lestu þér til. Það er eitt enn sem þú skalt hafa í huga við kassasmíði og staðsetningu hans. Það er dren eða afrennsli í botninn og loftræsting við þakskeggið. Þau göt þurfa ekki að vera stór þar sem inngangurinn ætti í flestum tilfellum að vera nægur, en ef inngangurinn er neðarlega gæti orðið heitt of fúlt í eftri hluta kassans. Þá verðurðu að hafa í huga að setja ekki kassann þar sem sólin getur skinið óhindrað á hann meirihluta dagsins. Þú hefur ekki áhuga á að grilla innihaldið. Ef kassinn er settur inn á milli trjágreina er ekki úr vegi að mála hann svipaðan stofninum eða klæða hann með berki. Þá er rétt að hindra að það geti rignt beint inn um gatið þar sem þú setur kassann.

Þegar kemur að skordýrunum verður leikurinn auðveldari. Hlaðinn steinveggur með fullt af glufum fyllist af kvikindum í augabragði. Köngulær og járnsmiðir ásamt flugum flytja inn um leið og framkvæmdum er lokið. Sum þessara dýra flytja með sér fræ og þú getur búist við að sjá, eftir tvö til þrjú ár, að plöntur eru farnar að vaxa út um glufurnar. Ef þú setur hreiðurefni úr músa eða hamstrabúri í eina eða tvær holur ertu að setja ómóstæðilega freistingu fyrir býflugnadrottningu sem leið á fram hjá í húsnæðisleit. Þú getur reyndar búið slíkt til á annan hátt ef þú hefur ekki tök á að hlaða vegg. Þá færðu þér leirpotta sem þú grefur runnum eða í fláa þannig að aðeins sjáist botngatið. Inn í pottinn seturðu músahreiðurefni.Ef þú ert með kaldan skála og kaupir þér litlar ránvespur til þess að halda skálanum “hreinum” geturðu búið til húsnæði fyrir þær litlu með því að binda saman slatta af drykkjarstráum, loka öðrum endanum og hengja knippið upp þar sem lítið ber á því með opna endann niður. Hugsanlega væri hægt að reyna þetta úti fyrir smáflugur. Nýir veggir eru oft rosalega tómlegir og stinga í stúf við umhverfið. Ef ekki á að mála þá er upplagt að rækta á þeim skófir og/eða mosa. Þú getur hjálpað til við að koma slíku í gang með “töframálningu”. Hún er búin til úr fínu hveiti og mjólkurdufti sem hrært er út með vatni sem staðið hefur á kúamykju. Ef þér líst ekki á mykjuvatn má notast við fljótandi áburð sem hrærður er út í vatni, mjög þunnt, t.d. maxicrop. Út í þetta geturðu sett þurrkaðan mosa sem þú hefur fínmulið. Eftir einn til tvo mánuði ferður að sjá breytingar á veggnum. Þetta geturðu líka gert við steinhleðslur og grjót. Notaðu hugmyndaflugið, það eru óþrjótandi möguleikar til að laða að lífverur, stórar og smáar. Ímyndaðu þér hvernig þú vildir hafa hlutina ef þú værir fluga eða fugl. Með öðrum orðum settu þig í þeirra spor. Eitt er ónefnt sem laðar flestar lífverur til þín. Það er safnhaugurinn.

Við safnhauginn hefurðu lífkeðjuna frá gerlum og sveppum og upp úr. Aukinheldur færðu þennan fína áburð þegar þeir ósýnilegu hafa breytt jurtaleifunum í frjóan, næringarríkan jarðveg. Ekki búast við flokkum lífvera í garðinn þinn um leið og þú hefur lokið framkvæmdum. Það tekur tuttugu til fjörutíu ár fyrir garð að þroskast. Allan þann tíma fjölgar þeim lífverum sem taka sér þar bólfestu. En ef þú gerir það sem unnt er til að laða að þér dýralíf gerist tvennt: Lífverurnar koma fyrr og garðurinn þroskast fyrr og verður heilbrigðari því aðalmálið er að rjúfa ekki lífkeðjuna.

Það er einfaldur lærdómur sem maður dregur af því að reyna að verða blómakóngur eða beðajarl. Því meira sem maður reynir að stjórna garðinum samkvæmt einhverjum hrokafullum hugmyndum sjálfs sín, þeim mun sértækari aðgerðir gera íbúarnir. Maður líkist frekar hrjáðum ríkisstarfsmanni, alltaf á eftir í vinnunni við að halda uppi reglu, en keisara. Því segi ég enn og aftur, láttu vera. Notaðu tímann til þess að horfa á lífið í kringum þig. Það er nefnilega, þegar allt kemur til alls, skemmtilegra að horfa á býflugu safna frjódufti en salat að vaxa. Þess vegna er þér, lesandi góður, nauðsyn að vera ekki allt of snyrtilegur. Ekki raka saman laufið á haustin og setja það í safnhauginn. Breiddu það frekar ofan á viðkvæmar plöntur, það hlífir þeim. Mundu að það er enginn garðyrkjumaður úti í náttúrunni enda ekki þörf á honum, hún sér um sig sjálf. Þannig að mátuleg óreiða, eða eins og Stuðmenn orðuðu það “skipulagt kaos”, er það sem þú sækist eftir. Þá mun þér farnast vel.

Birt:
16. apríl 2014
Tilvitnun:
Þorsteinn Úlfar Björnsson „Umhverfishvatar, fuglaborð og skipulagt kaos“, Náttúran.is: 16. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2007/04/10/11-kafli-umhverfishvatar/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 10. apríl 2007
breytt: 16. apríl 2014

Skilaboð: