Öll strandlengja Höfuðborgarsvæðisins með í Ferðafagnaði

Umhverfisvænn ferðamáti er framtíðareinkenni Höfuðborgarinnar og því býður Íslenski fjallahjólaklúbburinn öllum í ratleik á Ferðafagnaði sem best er að leysa á reiðhjóli. Ferðafagnaður fer fram laugardaginn 18. apríl nk. Frá kl. 12:00 – 18:00 verða 34 póstar staðsettir við strandlengjuna frá Korpúlfsstaðagolfvelli í norðri að Ástorgi í Hafnarfirði í suðri. Bilið á milli póstanna er frá 0,6 – 2,0 km. Á hverjum pósti er að finna ágæta lýsingu að því hvar sá næsti er væntanlegur. Auk þess koma nöfn allra póstanna fram á þátttökuseðlinum sem keppendur prenta út sjálfir af vefnum ferdafagnadur.is.

Félagar í Íslenska fjallahjólaklúbbnum verða á vaktinni og hjóla á milli pósta og leiðbeina þátttakendum. Einnig verður Dr. Bæk í klúbbhúsi ÍFHK að Brekkustíg 2 og gefur út ástandsvottorð á heilbrigði hjólhesta og leiðbeinir um það sem betur má fara á hverju hjóli. Þetta er eini pósturinn í leiknum þar sem bæði er í boði stimpill og lykilnúmer.
Stimpill og lykilnúmer eru einmitt það sem þátttakendur eiga að safna á þátttökuseðilinn sinn. 5 af hvoru;  þ.e. 5 lykilnúmer sem er að finna á póstunum við göngu- og hjólastígana við strönd Höfuðborgarsvæðisins og ná sér í 5 stimpla hjá þeim fyrirtækjum sem kynna starfsemi sína á Höfuðborgarsvæðinu á Ferðafagnaði. Á strandpóstunum er einnig leiðbeining um fyrirtæki í nágrenninu sem stimpla á þátttökuseðilinn.

Allir póstarnir eru merktir með GPS-hnitum svo þeir sem eiga slíkar græjur geta farið með þær út að hjóla. Glæsilegir vinningar eru í boði sem gefnir eru af fyrirtækjunum sem taka þátt í Ferðafagnaði. Rétt útfylltum þátttökuseðlum má skila inn á alla þá staði sem stimpla í leiknum fyrir kl. 18 laugardaginn 18. apríl. Eftir það er hægt að skila seðlunum inn hjá Höfuðborgarstofu, Aðalstræti 2 til og með síðasta vetrardags, miðvikudaginn 22. apríl nk.
Líklega er Hjólaratleikurinn á Ferðafagnaði stærsti ratleikur sinnar tegundar sem nokkurn tíma hefur verið boðið í á Íslandi. Hann spannar  tæplega 50 km leið þó meðalþátttakandinn finni sér 5 pósta á innan við 10 km leið. Hver keppandi velur sjálfur þá 5 pósta sem hann notar til þess að skrá lykilnúmer á þátttökuseðilinn og velur einnig sjálfur þau 5 fyrirtæki sem hann heimsækir til þess að ná sér í stimpil á Ferðafagnaðinum.
Leikurinn ætti að henta öllum sem gaman hafa af leikjum á aldrinum 9 – 99 ára.
Allar nánari upplýsingar veitir Sesselja Traustadóttir varaformaður ÍFHK, höfundur og framkvæmdastýra ratleiksins, í síma 864 2776.

Birt:
14. apríl 2009
Tilvitnun:
Sesselja Traustadóttir „Stærsti ratleikur vorsins“, Náttúran.is: 14. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/14/staersti-ratleikur-vorsins/ [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: