Klifurplöntur eru ekki algengar í íslenskri náttúru. Reyndar er það eiginlega bara umfeðmingur (Vicia cracca) sem getur gert tilkkall til þess að kallast klifurplanta. Hann er reyndar fremur aumkunarverður sem slíkur.
En hér eru ýmsar innfluttar plöntur sem virðast hafa aðlagast og þrífast vel. Fyrst skal telja bergfléttuna (Hedera helix) sem ýmsar skordýrategundir hafa tekið fagnandi og hreiðrar um sig í. Þegar þú kaupir þér bergfléttu þá skaltu planta henni svona fet frá veggnum sem hún á að klifra upp eftir. Ástæðan fyrir því er sú að alveg í kverkinni við vegginn er oft súgur og stundum fremur þurrt. Þessi regla á reyndar við um flestar klifurplöntur sem þú færð þér. Þegar þú kemur með bergfléttuna heim í pottinn frá gróðrarstöðinni þar sem þú keyptir hana er hún sennilega fremur rengluleg. Henni er haldið uppi með mjóu priki. Þegar þú ert nú búinn að koma henni á réttan stað í jörðina skaltu gleyma hvað þú borgaðir fyrir hana, taka þig saman í andlitinu og klippa hana niður í svona tíu sentimetra hæð. Þetta örvar bæði rótarmyndun og nýjan hliðarvöxt, þ.e. fleiri greinar, sem festa sig samstundis eða næstum því. Afklippunum stingur þú niður og ef þeim er haldið nógu rökum ræta þær sig. Ef þú plantar bergfléttunni á sólríkum stað skaltu hlífa henni fyrir sólinni fyrstu vikurnar. Bergfléttunni þarf ekki að búa klifurgrind þar sem hún er með loft- eða heftirætur sem festa sig við næstum hvað sem er. Sumir hafa af því áhyggjur að hún skemmi en ég held að það sé ástæðulaus ótti vegna þess bergfléttan er sígræn veitir hún skordýrum hæli allan veturinn. Ef þú getur skaltu skoða vandlega bergfléttu að vetrarlagi. Það kemur þér áreiðanlega á óvart hversu mörg skordýr þú finnur í dvala í skjólinu undir laufinu. Þótt bergfléttan sé vinsæl meðal skordýra er hún furðulítið étin. Meira að segja sniglarnir, sem ekki eru beint matvandir, láta hana í friði. Það er samt nóg af þeim við bergfléttuna. Það geturðu gengið úr skugga um með því að fara út með vasaljós að bergfléttunni eftir að dimmt er orðið, til dæmis á hlýju ágústkvöldi.
Næst skal telja humalinn (Humulus lupulus). Þetta er dugleg jurt sem vex upp frá rót á hverju vori og allt upp í sex til sjö metra hæð við besta skilyrði. Humallinn ilmar seinni hluta sumars og þú getur notað hann til þess að krydda öl. Hann á að hafa róandi áhrif, samanber humalkoddann. Hann þarf snúrur eða annað til þess að klifra eftir. Ég tók eftir því að humallinn var sérstaklega vinsæll hjá köngulóm sem bendir til þess að eitthvað hafi þær haft að éta í honum.
Plantaðu humlinum í frjóa jörð og útbúðu vírinn, eða það sem hann klifrar eftir, þannig að það sé um það bil tíu sentimetra bil milli plöntu og þess sem hún grær upp við. Ef skilyrðin eru rétt fyrir humalinn stækkar hann ört með nýjum hliðargreinum. Honum þarf því að halda í skefjum með því að stinga í kringum hann. Þar færðu nýjar plöntur sem þú getur annaðhvort gróðursett annars staðar eða gefið kunningjunum. Humallinn visnar að rót við fyrstu frost. Að lokum má nefna að hann er tvíkynja og kvenplantan er öllu gróskumeiri og vinsælli til ræktunar.
Ýmsir toppar (Lonicera) eru klifurplöntur. Þeir þurfa stuðning, til dæmis net, til að klifra eftir. Skógartoppur og vaftoppur, sem reyndar eru nokkuð líkir, eru þær tvær tegundir sem hafa reynst hvað best hér á landi. Þeir eru blómviljugir og blómin ilma kröftuglega enda eru toppar vinsælir af hunangssflugum. Þeir þurfa nokkurt skjól, sól og frjóan jarðveg ef þeir eiga að blómstra vel. Laufið er líka vinsælt af fiðrildalirfum sem gjarnan fá sér að smakka. Bergsóleyjar (Clematis) eru hálfrunnar sem eru duglegir að klifra. Við góð skilyrði eru þær blómviljugar og fallegar og þær tvær tegundir sem ég hef prófað, C. Alpina og C. Tangutica, voru mikið sóttar af bústnum býflugum sem sveimuðu blóm af blómi og bættu á byrðarnar á lærunum.
Hjónarós (Rosa sweginzowii) er klifurrós sem er bæði falleg og blómviljug ef maður er nógu duglegur að gera henni til góða því hún er frek til fjörsins.
Ýmsar matarertutegundir geta verið gagnlegar sem klifurplöntur og sem bónus fær maður eigin baunir við góð skilyrði. Þær eru þó frekar viðkvæmar en plumuðu sig þokkalega norður í Skagafirði þegar ég var stráklingur í sveit upp úr 1960.
Klukkur (Ipomoea) eru geysi hraðvaxta og blómviljugar en þær verða að fá þann besta aðbúnað sem völ er á og vafasamt að þær nái einhverjum þroska úti við. Gróðurhús eða gróðurskáli eru kannski besti staðurinn fyrir þær en einnig má rækta þær sem inniblóm. Gallinn er bara sá að þótt býflugurnar séu skolli ágætar úti, vill maður síður fá þær inn.
Runnar, eða “herðar garðsins” eins og einhver sagði, er sá gróður sem einna fjölbreyttastur fyrir utan blómplöntur og grös. Það úrval runna sem nú er hægt að fá hefur aukist ótrúlega á síðustu árum, bæði tegundir og kvæmi. Sumar tegundir eru betri en aðrar upp á dýrlífið að gera og það virkar í báðar áttir. Ef þú hefyr sterka löngun til að fóðra fiðrildalirfur þá er alveg upplagt að fá sér brekkuvíði ( Salix sp.) sem er alveg sérstaklega vinsæll. Ef þú hins vegar tímir ekki bita þá er gljávíðirinn (S. pendantra) góður kostur. Hann er næstum ekkert étinn. Ég er með níu tegundir víðis í hekki meðfram götunni norðanmegin við húsið og þetta eru plöntur sem eru misjafnar og þær eru margar. Sumar ná varla upp úr jörð eins og grasvíðirinn (S. herbacea) og grænlenski grávíðirinn (S. groenlandicum) en aðrar verða stærri.  Reyndar eru þær nokkuð álíka að stærð margar hverjar  þegar þetta er skrifað vegna þess að ég var að endurnýja í beðinu en þær eiga eftir að vaxa. Þessum víðitegundum blanda ég saman sitt á hvað og set svo aðrar tegundir eins og toppa og rifstegundir inn á milli. Með því móti fæ ég fjölbreytni bæði í lit og formi. Ofan á beðinu er svo perlusteinn og í hann ætla ég að setja bæði haust-lauka, sem koma upp og eru búnir áður en víðirinn laufgast því hann laufgast fremur seint, og svo ýmsar íslenskar plöntur eins og fjólur, melasól og blóberg. Það eykur fjölbreytni bæði fyrir skríðandi og fljúgandi gesti. Misplar (Cotonaester) eru fallegir og skuppþolnir runnar og flestir alveg lausir við óværu svo ekki eru þeir beint til þess fallnir að auðga dýralífið nema þá helst æðri dýr eins og fugla sem sækja í ber mispilsins á haustin. En þeir eru góðir með vegna þess að þeir eru fjölbreyttir og vinnusparandi því lítið þarf að hafa fyrir þeim og það er hreint ekki lítill kostur. Reyndar virðast sniglar kunna vel við sig undir skriðmispli.
Rifs (Ribes) og aðrar berjarunnar eru vinsælir hjá stórum hópi dýra, allt frá hryggleysingjum til spendýra. Rifs og sólber þekkja flestir og sá hópur fólks fer stækkansi sem þekkir stikilsber (R. Uvacrispa) sem er stórskemmtilegur berjarunni. Hann þrífst vel víðast hvar og er gjöfull. Það er sameiginlegt með flestum rifstegundum að auðvelt er að fjölga þeim með stiklingum eins og víðinum. En það er til fleiri tgundir en bara garðarifs. Það er til magdalenurifs, fjallarifs, hélurifs, blárifs, væturifs og klettastikill svo eitthvað sé nefnt. Það væri alls ekki vitlaust að prófa fleiri tegundir hér á landi því ég hef lúmskan grun um að verulega mætti bæta við flóruna úr þessum runna-flokki. Svipuð rifsinu eru bróm og hindber, klungur, (Rubus) en þau eru eiginlega tvö afbrigði sömu tegundar. Þau þrífast hér en það er ekki nema við albestu skil-yrði sem þau ná að bera ávöxt því sumrin eru bara of köld og of stutt. Þau gætu þó plumað sig vel í köldum skálum. Hugsanlega væri hægt að finna kvæmi af þessum tegundum sem gætu gengið hér ef vel væri leitað. Laxaber (R. Specta-bilis), ilmklungur (R. Odoratus) og hrútaber eru af sömu ætt og hindber og brómber. Laxaberin og ilmklungrið eru mjög skriðul og sumir vilja halda því fram að verra illgresi sé varla til. Ilmklungrinu er þó auðveldara að halda í skefjum. Hrútaber (Rubus saxatillis) er íslensk planta sem vex í skóg- og kjarrlendi og breiðist út með jarðlægum renglum eins og jarðarber. Hrútaber er vel þess virði að flytja í garða, vandinn er að halda í því lífinu. Sennilega er best að sá fyrir því. Sortulyngið (Arctostaphylos uvaöursi) er aftur á móti auðveldara og er nokkuð góð þekjuplanta við rétt skilyrði. Rósir eru svo stór flokkur að það væri að bera í bakkafullan lækinn að reyna að gera þeim einhver tæmandi skil. Við Íslendingar eigum tvær innfæddar, þyrnirós (Rosa pimpinellifolia) og glitrós (Rosa dumalis). Þessar tvær eru að vísu ekki eins blómviljugar og margar aðrar tegundir en vel þess virði að hafa á góðum stað. Þær eru friðaðar en hægt að fá þær í gróðrarstöðvum. Ef rósum er gert til góða í næringu og aðbúnaði, en þær eru áburðarfrekar, launa þær vel með ríkulegu blómskrúði sem er mjög vinsælt af býflugum og fiðrildum.
Aðrir runnar sem gaman er að hafa í villigarði þótt innfluttir séu eru yllir (Sambucus), kvistir (Spirea, mjög góðar bþplöntur), toppar (Lonicera), sópar (Cytisus), skollaber (Cornus), mítur (Berberis), snækóróna (Symphoricarpos) og harðgerðustu tegundir lyngrósa (Rhododendron/Azalea). Þessar tegundir eru vinsælar af hunangs- og frjóduftssöfnurum og þær sem ná að mynda aldin geta gefið fuglum ókeypis máltíð.
Reynandi er að sá fyrir þeim tveimur íslensku berjarunnum sem við eigum en það eru bláber (Vaccinium uliginosum) og aðalbláber (V. Myrtillus). Þessir runnar blómgast tiltölulega snemma og geta því skipt sköpum fyrir býflugur í fæðuleit. Það sem skiptir þó mestu máli fyrir blessaðar býflugurnar eru haustlaukarnir sem stinga upp kollinum og gá til veðurs snemma vors. Ef trén mynda höfuðið og runnarnir herðarnar verðum við að athuga hálsmálið eða “skógarjaðarinn” þar sem runnar og grasflöt eða stígur mætast. Það er geysilegur fjöldi plantna sem lifir í skógarjaðrinum. Þær njóta birtunnar og nokkurs skjóls frá trjánum. Þessi staður garðsins er því upplagður til þess að planta blómstrandi plöntum sem tengja jaðarinn flötinni. Það er að sjálfsögðu komið undir smekk hvers og eins hvað hann setur hvar, aðalmálið er að hafa í huga jafnvægi og vinnusparnað. Það þýðir að maður er ekki að pota niður einæringum og þeim einæringum sem ná að þroska fræ og sá sér áður en frostið svæfir þá. Mundu að þú vilt njóta garðsins en ekki eyða hverri frístund með arfaklóru eða gaffal í hönd. Þú vilt sitja með kaldan drykk í hönd á góðviðrisdögum og fylgjast með lífinu í kringum þig. Eða bara liggja og slappa af og láta sólina baka þig meðan þú hlustar á söng fuglanna og suð skordýranna. Til þess að gera jaðarinn sem umhverfisvænastan verður plöntuvalið að vera sem fjölbreyttast. Það þýðir að við þurfum ætíð að hafa einhverjar plöntur í blóma frá því snemma á vorin og fram á haust.
Það eru til innlendar plöntur sem fullnægja þessum skilyrðum, allt frá vetrarblómi (Saxifraga oppositifolia), sem blómgast í apríl-maí og stundum í marslok, til beitilyngs (Calluna vulgaris) sem blómgast fram í september. Reyndar hefur mér virst að fjólur sem fluttar eru í garða séu blómstrandi meira og minna allt sumarið. Og svo er náttúrulega gráupplagt að setja in á milli aðrar plöntur jafnvel þótt innfluttar séu sem lengja blómgunartímann í báðar áttir. Þar koma krókusar og ýmsir aðrir haustlaukar til sögunnar vegna vorblómgunar og vorlaukarnir lengja haustið. Reyndar eru til bækur sem geta leiðbeint þér um þetta og að mínu viti er Íslenska garðblómabókin, hin vandaða bók Hólmfríðar A. Sigurðardóttur, sú besta sem þú getur fengið til að aðstoða þig við ákvarðanatökuna.
Eins og áður sagði er það smekksatriði hvernig plöntunum er raðað en persónulega finnst mér fallegast að láta hverja tegund fyrir sig mynda ný lendu eða breiðu. Tíu til fimmtán melasólir, svo dæmi sé tekið, eru ekki mjög tilkomumiklar dreifðar yfir fleiri fermetra. En ef plantað er í þyrpingu breytast áhrifin.

Verbascum-kyndiljurtir:

Kyndiljurtir (kóngaljós) af ættkvíslinni Verbascum, sem reyndar eru ekki mjög algengar hér, innihalda eitrið rotenone sem verkar á lífverur með kalt blóð. Fræ þessara plantn hafa verið notuð til fiskveiða því eitrið leysist upp í vatni og lamar fiskana. Þetta er ein þeirra plantna sem sagt er að fæli frá skordýr og sé því upplagt að planta innan um aðrar viðkvæmari plöntur. Þessar plöntur eru ekki hættulegar mönnum.

Landnám plantna:
Plöntur berast milli landa með ýmsum hætti. Oft með dýrum, t.d. farfuglum, annaðhvort í fiðri, í jarðvegi á fótum eða í iðrum. En plöntur geta einnig borist með öðrum hætti. Oft koma fræ með ýmsum varningi sem fluttur er til landsins en mörg dæmi má einnig finna erlendis um að þau hafi komið með ballest skipa. Bretar og Frakkar dreifðu óvart mörgum tegundum á austurströnd Bandaríkjanna á sínum tíma. Þeir notuðu jarðveg sem ballest svo skipin lægju lægra í sjónum og væru þ.a.l. stöðugri þegar þeir sigldu frá Evrópu. Svo losuðu þeir hann áður en þeir lestuðu fyrir heimsiglinguna.

Birt:
10. apríl 2007
Tilvitnun:
Þorsteinn Úlfar Björnsson „8. kafli - Klifur- og þekjuplöntur“, Náttúran.is: 10. apríl 2007 URL: http://nature.is/d/2007/04/10/8-kafli-klifur-og-ekjuplntur/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 14. mars 2014

Skilaboð: