Franskir kúabændur ákváðu í gær, fimmtudag, að hefja mjólkurverkfall um óákveðinn tíma. Segjast þeir frekar vilja hella mjólkinni niður eða gefa hana en að selja hana á þeim smánarprís sem nú er í boði. Þetta er gert til þess að mótmæla lágu verði á mjólk og aðgerðarleysi Evrópusambandsins og evrópskra landbúnaðarráðherra. Búist er við að verkfallið muni breiðast út til margra Evrópuríkja og hafa Belgía, Þýskaland, Holland, Ítalía, Sviss, Austurríki, Lúxemborg og Danmörk verið nefnd til sögu.

Eftir mikla uppsveiflu á mjólkurverði á alþjóðamarkaði árið 2007 hefur verðið hrunið um tugi prósenta. Evrópskir bændur fengu yfirleitt 30-40 evrusent fyrir lítrann árið 2007 en nú er það komið niður undir 20 sent. Framkvæmdastjórn ESB gaf út skýrslu um ástandið í júlí í sumar án þess að þar væri lögð til nein umtalsverð stefnubreyting. Þessu undu mörg aðildarríki ekki og kröfðust þess að ESB gripi inn í.

Á fundi í Brussel í byrjun vikunnar settu 16 aðildarríki með Þýskaland og Frakkland í fararbroddi fram þrjár kröfur: Í fyrsta lagi að svonefnt íhlutunarverð verði hækkað tímabundið en það jafngildir gólfi á afurðaverði sem ESB miðar uppkaup á afurðum við. Í öðru lagi kröfðust ríkin sextán þess að einstök aðildarríki fengju aukið svigrúm til þess að styrkja kúabændur umfram það sem heimilt er samkvæmt landbúnaðarstefnu ESB. Í þriðja lagi gerðu ríkin kröfu um að möguleikar á að merkja afurðir upprunalandi sínu yrðu rýmkaðir.

Á fundinum hafnaði framkvæmdastjóri landbúnaðarmála, Mariann Fischer Boel, þessum kröfum ríkjanna og tók þar með afstöðu með hinum ellefu ríkjunum sem ekki vilja grípa fram fyrir hendurnar á markaðinum. Þar eru fremst í flokki Danmörk, England, Holland og Svíþjóð.

Samtök evrópskra mjólkurframleiðenda, European Milk Board, eiga von á því að verkfallið breiðist hratt út, en samtökin geta ekki tekið frumkvæði að verkfallsboðun. Það er því undir einstökum bændum komið til hvaða ráða þeir grípa. Danskir mjólkurframleiðendur segjast ekki geta tekið þátt í verkfalli, hins vegar ætli þeir að stöðva útflutning á mjólk til Þýskaland, nái verkfallið þangað. Eru menn reiðubúnir að setja upp hindranir á landamærum Danmerkur og Þýskalands til þess að koma í veg fyrir að dönsk mjólk fylli þau skörð sem verkfall þþskra bænda býr til á markaði.

Birt:
14. september 2009
Höfundur:
Bændablaðið
Tilvitnun:
Bændablaðið „Mjólkurverkfall hafið í Frakklandi “, Náttúran.is: 14. september 2009 URL: http://nature.is/d/2009/09/14/mjolkurverkfall-hafio-i-frakklandi/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: