Þriðjudaginn 27. mars mun Hildur Hákonardóttir halda fyrirlestur um Röggvarfeldinn í hádegiserindi í Þjóðminjasafni Íslands. Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröðinni „Fræðslufyrirlestrar Þjóðminjasafns Íslands“. Hildur mun í fyrirlestri sínum fjalla um röggvarfeldinn sem var í senn flík og ábreiða. Hún rekur upphaf feldarins, blómatíð og afdrif, en hann er ein af grunngerðum fatnaðar og því lífseigur og má enn finna  afleiddar gerðir hans í nokkrum löndum. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Hildur Hákonardóttir lærði myndvefnað við Myndlista- og handíðaskólann  og í Listaskóla Edinborgar. Hún stundaði listvefnað og kennslu á árunum 1969 til 1980 við  Handíðaskólann og var skólastjóri hans á árunum 1975-1978 og stofnaði þá hina umdeildu Nýlistadeild og einnig málaradeild.

Árið 1980 flutti hún austur í Ölfus og var forstöðumaður Byggða- og listasafns Árnesinga um áratuga skeið. Bifreiðaslys olli því að hún sneri sér að ritstörfum og hefur hún gefið út bækur um sjálfsþurft og garðyrkju  - Ætigarðinn og Blálandsdrottninguna - og einnig bók um kvennafrídaginn árið 1975 með eigin myndskreytingum.

Hildur hefur á síðustu árum  látið gamlan draum rætast, að kynna sér  kljásteinavefstaðinn forna og vefa röggvarfeld með hjálp innlendra og erlendra vefara.  Áhugi á  kljásteinavefstaðnum hefur  aukist í mörgum löndum undanfarið samfara því að konur hafa snúið sér í auknum mæli að rannsóknum á fornum vefnaði.

Fjöldi greina eftir Hildi birtast reglulega hér á vefnum. Smelltu hér til að sjá 177 greinar eftir HIldi hér á vefnum.

Ljósmynd: Hildur Hákonardóttir með röggvarfeld um sig.

Birt:
26. mars 2012
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Röggvarfeldurinn, flík og ábreiða, í fortíð og nútíð.“, Náttúran.is: 26. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2012/03/26/roggvarfeldurinn-flik-og-abreida-i-fortid-og-nutid/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: