Vala Smáradódtir spurði Ernu Kaaber einn eiganda veitingastaðarins Icelandic Fish and chips á dögunum um stefnumörkun og þjónustuframboð þessa vinsæla veitingastaðar við Tryggvagötu 8 í Reykjavík.

„Við verslum talsvert við Himneska hollustu, Banana, Heilsu og Yggdrasil. Líklega í þessari röð. Allt grænmetið okkar fáum við frá þeim tveimur fyrrnefndu ásamt tómötum og tómatpasti, kókos, agave og kókosolíu frá Himneskri. Frá Heilsu og Yggdrasil fáum við svo allt annað eins og Maldon saltið og piparinn, djúsana í kælunum, súpukraft án aukaefna, capers, maltextract ect.

Við erum í vinnu þessa dagana við að víkka aðeins matseðilinn og erum gríðarlega spennt fyrir því að nota íslenskar jurtir og lífrænu uppskeru sumarsins frá Íslenskum bændum svo það væri frábært að heyra frá einhverjum sem er að leita að kaupanda fyrir afurðirnar sínar.

Hugmyndin að baki Icelandic Fish & Chips var að bjóða upp á skyndibita sem fólk þekkti sem óhollustu og klassa hann upp. Nota lífrænt hráefni og láta allt hvítt hveiti og sykur eiga sig ásamt þeim varningi þar sem bætt er í efnum sem framleidd eru á tilraunastofum efnaiðnaðarins og hafa aldrei verið til í náttúrunni.

Við vildum geta boðið upp á lausnir fyrir fólk sem hefur lítinn tím en vill engu að síður treysta því að það sé að borða góðan mat sem hefur gildi fyrir næringu líkamans. Við teljum að sífellt fleiri hugi að því hvað þeir borða og að sú vitundarvakning muni draga úr gengdarlausum vexti heilbrigðiskerfisins.

Það hefur verið sýnt fram á það að framboð hefur mest áhrif á mataræði fólks.
Eftir því sem fleiri veitingahús velja lífrænu leiðina því fyrr breytastmatarvenjur fólks til hins betra. Sama á við um landbúnaðinn. Draumurinn er auðvitað sá að íslensk landbúnaðarframleiðsla verði í nánustu framtíð algerlega lífræn. Að íslenski stimpillinn á matvöru þýði að hún sé lífræn. Það er auðvitað framtíðin!“.

Birt:
July 17, 2007
Höfundur:
Vala Smáradóttir
Tilvitnun:
Vala Smáradóttir „Icelandic fish & chips“, Náttúran.is: July 17, 2007 URL: http://nature.is/d/2007/07/17/icelandic-fish-chips/ [Skoðað:Sept. 14, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Oct. 14, 2008

Messages: