Á aðalfundi Náttúruverndarsamtaka Suðurlands sem haldinn var á Laugarlandi í Holtum í gærkveldi, hélt Dr. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur langt og ítarlegt erindi um jarðsprungur á Suðurlandi. Sprungubelti Suðurlands er þéttriðið, svo mjög að fundarmenn gátu þar allflestir eignað sér sprungu/sprungur sem liggja um land þeirra enda af nægum af taka.

Staðreyndin er að Ísland gliðnar á Atlandshafshryggnum um 18-19 mm á ári.
Flekaskilin liggja um Suðurlandsundirlendið og fylgir þeim jarðskjálftavirkni og sprungur í jarðskorpunni. Þær liggja hlið við hlið þvert yfir flekaskilin og skera skorpuna í ræmur sem líkja má við bækur í bókahillu. Þegar spildan norðan fleskaskilanna, svokallaður "Hreppafleki", færist til vesturs snúast bækurnar og ganga á víxl sem leiðir til skjálfta.
Þetta er sérstakt fyrirbæri og merkilegt í jarðfræðilegu tilliti. Kallaði Páll þetta "bókahillu-effekt".

Páll Einarsson hefur um árbil unnið ítarlega rannsóknarvinnu um sprungurnar á Suðurlandi og þekkir þær því eins og handarbakið á sér. Páll hefur einnig verið Landsvirkjun til ráðgjafar varðandi jarðskjálfta og jarðskorpuhreyfingar og getur því vitnað um að Landsvirkjun sé vel kunnugt um að sprungusvæði liggi beint undir öllum þremur lónum sem mynda á fyrir virkjanir í neðri hluta Þjórsá. Hann hefur mælt með því að virkjanirnar verði hannaðar án uppistöðulóna og bent á að erfitt geti orðið að þétta berggrunninn á sprungusvæðinu nægilega til að halda vatni. Ekki sé nauðsynlegt að miðla vatnsrennsli í neðri hluta Þjórsár þar sem áin er þegar fullmiðluð með lónunum í efri hluta árinnar.

Áætlanir Landsvirkjun halda þó áfram að gera ráð fyrir miðlunarlónum og byggja lón ofan á svæði sem að heldur ekki vatni og getur ekki annað en verið eilífðarvandmál. Að byggja lón á þessum svæðum má líkja við það að byggja lón á trekt.

Hér er um að ræða efsta lónið á fyrirhuguðu virkjanasvæði þ.e. Hagalón sem vera á uppistöðulón fyrir Hvammsvirkjun, efstu virkjunina af þremur. Hitt lónið er miðlónið þ.e. Árneslón sem vera á inntakslón Holtavirkjunar.

Á neðri myndinni er kort frá Landsvirkjun lagt yfir sprungukort frá Páli Einarssyni til að sjá hvar sprungurnar liggja undir miðlóninu, hér Árneslón.

Birt:
4. maí 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Að byggja lón sín á trekt - Landsvirkjun“, Náttúran.is: 4. maí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/05/04/byggja-ln-sn-trekt-landsvirkjun/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 6. maí 2007

Skilaboð: