Nýr múr er risinn í Berlín, ekki til að króa íbúa austurhlutans frá kapítalismanum heldur til að minnka mengun í miðborginni.

Frá ársbyrjun 2008 verða ökumenn sem keyra vilja um 88 km2 stórt svæði innan miðborgar Berlínarar sem afmarkast af neðanjarðarlestarhringnum sem umlykur miðju borgarinnnar, að sýna fram á að bílar þeirra uppfylli kröfur um að útblástur nítrógen díoxíðs (NO2) sé undir mörkum. Þeir sem eru teknir án tilskyldra límmiða um að þeir séu undir útblástursmörkum verða að greiða sekt sem er reyndar ekki há, aðeins 40 evrur, en auk þess bætast skussapunktar í ökuskírteinin þeirra. Lögreglan segir að hún muni ekki taka mjög hart á umhverfisspillunum fyrstu mánuðina. Köln, München, Hannover, Stuttgart, Frankfurt og 14 aðrar borgir í Þýskalandi munu taka upp sama kerfi seinna á þessu ári.

Allt í allt munu nýju sektirnar geta náð til eigenda um 1,7 milljón eldri dísel- og bensínbíla sem keyra nú um götur Þýskalands án fullnægjandi hreinsibúnaðar og hvarfakúta. Árið 2010 munu reglurnar herðast að mun en þá verður mengandi bílum hreinlega bannað að aka inn í miðborgirnar.

Þar sem að ég bjó í Berlín í eitt ár og hjólaði þar allar mínar leiðir eða því sem næst, einmitt í miðborginni get ég borið þess vitni að þar séu aðstæður fyrir hjólreiðamenn frábærar og allt rennislétt svo engum er vorkunn að nota hjólhestinn í þeirri borg. Eina vandamálið er að hjólunum er stöðugt stolið frá manni, sama hvaða lásar eru notaðir. Á þeim tíma (1987) var borgin klofin í tvennt með múr nokkrum ógurlegum og minnir því þessi teikning obbolítið á þá tíma. En það er önnur saga. Kannski virkar umverfispólitík stundum eins og fanatík eða fasismi en það er nú aðeins vegna þess að aðrar samlíkingar, eins og Berlínarmúrinn sálugi koma upp í hugann og trufla heilbrigða skynsemi frá því að fá að njóta sín. Þetta er annars flott hugmynd. Ég legg til að Reykjavíkurborg geri visthæfisviðmiðin sem hún notar einungis til eigin ákvarðana við bílakaup, og til að byðjast undan bílastæðagjöldum frá venjulegum borgurum á visthæfum bílum, sem viðmið fyrir þá bíla sem mega koma inn í miðbæinn.

Mynd: Kort af nýja fyrirkomulaginu í Berlin, af Treehugger.com.

Birt:
4. janúar 2008
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Græna beltið í Berlin“, Náttúran.is: 4. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/03/graena-beltio-i-berlin/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 3. janúar 2008
breytt: 10. maí 2011

Skilaboð: