Jólasveinar
Hinir íslensku jólasveinar eru upphaflega af allt öðrum toga en heilagur Nikulás. Þeirra sést fyrst getið í Grýlukvæði eignuðu sr. Stefáni Ólafssyni í Vallanesi frá 17. Öld. Þar eru þeir taldir synir Grýlu og Leppalúða og mestu barnafælur einsog foreldrin: Af þeim eru jólasveinarjötnar á hæð. Öll er þessi illskuþjóðinungbörnum skæð. Sömu hugmynd er að finna í Tilskipun um húsagann á Íslandi frá 1746, þar sem segir, að nú skuli “sá heimskulegi vani, sem hér og þar skal hafa verið brúkanlegur í landinu, að hræða börn með jólasveinum eða vofum aldeilis vera afskaffaður”. Það er ekki fyrr en líða tekur á 19. öld sem jólasveinarnir taka eilítið að mildast. Þá taka menn að efast um, að þeir séu börn Grýlu, og þeir eru ekki lengur taldir mannætur, en þó bæði hrekkjóttur og þjófóttir einsog sum nöfn þeirra benda til. Eimdi sumstaðar eftir af þeim skilningi langt fram á þessa öld.
Hugmyndir um útlit jólasveinanna eru sömuleiðis breytilegar. Í fyrstu eru þeir taldir tröllum líkir, síðar að vísu í mannsmynd, en stórir, ljótir og luralegir. Má hugsa sér, að myndir Tryggva Magnússonar við jólsveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum endurspegli nokkuð hugmyndir manna um þá á þessu síðasta skeiði. Upp úr síðustu aldamótum taka þeir hinsvegar smám saman að fá æ meiri svip af hinum alþjóðelga jólasveini, heilögum Nikulási, bæði hvað snertir útlit, klæðaburð og innræti. Þeir verða vinir barnanna, færa þeim gjafir, syngja fyrir þau og segja sögur. Mun kaupmannastéttin beint eða óbeint hafa stuðlað mjög að þessu með því að nota þá í jólaauglýsingum að erlendri fyrirmynd. Þessi þróun hefst fyrst í bæjum, en miklu síðar í sveitum.
Jólasveinarnir eru ýmist taldir vera 9 að tölu, sbr. Þuluna “Jólasveinar einn og átta”, eða 13, en sú hugmynd sést fyrst bókfest í Þjóðsögum Jóns Árnasonar arið 1864. Hvort heldur sem er, gera menn ráð fyrir, a þeir komi til byggða einn á dag og hinn síðasti á aðfangadag. Síðan fer hinn fyrsti á jóladag og svo hver af öðrum. Í þetta munstur hentar talan 13 betur, því að þá fer hinn seinasti á þrettándanum, siðasta degi jólanna. Fyrstu nöfn þeirra, sem sjást á prenti, hafa eðlilega unnið sér fastastan þegnrétt, en þau eru þessi í Þjóðsögum Jóns Árnasonar: Stekkjastaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottasleikir, Askasleikir, Faldafeykir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur, Kertasníkir. Jafngömul nöfn önnur voru raunar alltaf til í handriti hjá Jóni, en komust ekki á prent fyrr en nær hundrað árum síðar. Þau eru þessi: Tífill eða Tífall, Tútur, Baggi, Lútur, Rauður, Redda, Steingrímur, Sleffa, Lækjaræsir, Bjálminn sjálfur, Bjálmans barnið, Litlipungur, Örvadrumbur, Hnútur, Bjálfinn, Bjálfans barniið, Bitahængir, Froðusleikir, Syrjusleikir. Auk þessara hafa eftirtalin nöfn smám saman komið fram í dagsljósið: Pönnuskuggi, Guttormur, Bandaleysir, Þvengjaleysir, Lampaskuggi, Klettaskora, Kertasleikir, Pönnusleikir, Pottaskefill, Hurðaskellir, Moðbingur, Hlöðustrangi, Móamangi, Flórsleikir, Reykjasvelgur.
Eru þó sjálfsagt ekki öll kurl komin til grafar.Vafalaust má þakka það jólasveinakvæðum ýmissa hagyrðinga síðustu hálfa öld og ekki síður Ríkisútvarpinu með barnatímum sínum á jólum, að jólasveinarnir okkar hafa haldið bæði fjölda sínum og sérnöfnum, en ekki veirð útrýmt alfarið af heilögum Nikulási.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Jólasveinar“, Náttúran.is: 11. desember 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/12/jlasveinar/ [Skoðað:23. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 12. apríl 2007
breytt: 1. janúar 2013