Er tími kartöflunnar kominn?
Hildur Hákonardóttir hefur skrifað tvær bækur um nauðsyn þess að við ræktum garðinn okkar og verðum sjálfum okkur nóg um framleiðslu á mat
Ár kartöflunnar er að sönnu liðið í aldanna skaut en það var til þess ætlað að benda á mikilvægi kartöflunnar fyrir framtíðina.
Hildur Hákonardóttir gaf á síðasta ári út bók um sögu kartöflunnar – Blálandsdrottningin og fólkið sem ræktaði kartöflurnar – og hún er ekki frá því að kartaflan geti orðið bjargvættur okkar í þeim efnahagsýrengingum sem við eigum við að etja um þessar mundir. „Það sem er svo merkilegt í sögu kartöflunnar er að hún endurtekur sig hvað eftir annað. Kartaflan hefur oft verið bjargvættur og jafnvel örlagavaldur í sögunni þegar miklar sveiflur urðu. Nú erum við að taka stóra efnahagssveiflu svo þá er spurning hvort kartaflan taki ekki að sinna sínu hefðbundna hlutverki, að bjarga málunum,“ segir hún.
Hildur segir frá því í bókum sínum að hún sé alin upp á mörkum sveitar og þéttbýlis, nánar tiltekið austast í Bústaðahverfinu þar sem faðir hennar ræktaði skóg og móðirin sendi þær systur oft út í garð eftir „einhverju grænu“ í matinn. Svo varð hún myndlistarmaður og vefari og skólastjóri Myndlista- og handíðaskólans þangað til hún venti sínu kvæði í kross, flutti austur undir Ingólfsfjall og hellti sér út í ræktunina. Hún svarar því neitandi að tilgangurinn hafi bara verið að leita að litum í vefnaðinn, og þó. „Ég fór einu sinni á jurtalitunarnámskeið hjá Vigdísi Kristjánsdóttur og varð fyrir opinberun þegar litirnir kviknuðu í pottunum hjá henni. En ég þarf að hafa víðsýni, mynstur og gróður í kringum mig, þess vegn flutti ég hingað austur. Hér get ég fylgst með lægðunum þegar þær koma upp að ströndinni.“
Eigum afbragðsstofna
Fyrir austan fór hún að sinna safna málum og tók við forstöðu í Byggða- og listasafni Árnesinga. Það rímar ágætlega við áhuga hennar á sögu og það var í raun hann sem rak hana út í að skrifa Blálandsdrottninguna.
„Já, ég byrjaði á Blálandsdrottningunni þótt Ætigarðurinn kæmi fyrr út. Fyrir mörgum árum þegar Landsbókasafnið var enn í Safnahúsinu við Hverfisgötu fór ég að leita þar að bókum um ræktun sem voru skrifaðar áður en tilbúni áburðurinn kom til sögunnar. Þá komst ég að því að mjög mikið hafði verið skrifað, mest þó um kartöfluna. Ég gleymdi því fljótt upphaflegum tilgangi sem var að gera þetta fyrir sjálfan mig.
Ég komst meðal annars að því að kartaflan tengist sögu og þróun prentunar á Íslandi. Þegar losnaði um prenthöftin um miðja 18. öldina var þó ekki sjálfgefið að það mætti prenta hvað sem var. Á þessum tíma er komin upp nýræktarstefna í Danmörku. Stjórnvöld vildu rífa upp landbúnað eftir erfiðleika af völdum kulda, stríða og stöðnunar í Evrópu. Danmörk og fleiri lönd stóðu illa hvað ræktun varðaði svo farið var að veita styrki til útgáfu á upplýsingum um ræktun. Á þessum tíma er kartaflan að ryðja sér til rúms og því var mikið gefið út af ritum um hana. Það urðu meira að segja deilur um hvort sumt af þessari útgáfu ætti rétt á sér.
Upphaflega ætlaði ég að skrifa bók sem héti Ísland séð með augum kartöflunnar, en það gekk ekki upp af því það var stílfræðilega of flókið fyrir mig. En mér fannst þetta svo spennandi saga svo ég fór að kanna hlutverk kartöflunnar í menningarsögu Íslands og nágrannalanda okkar. Kartaflan er auðræktanlegri en margt, ótrúlega gagnleg og á mörkum þess að flokkast sem grænmeti og kornvara. Við eigum góð afbrigði vegna þess að til þessa höfum við ekki ætlað kartöfluna í iðnað eða dýrafóður heldur til matar. Margar þjóðir hafa farið illa með hana af því hún er svo auðnýtanleg. Það er hægt að nota hana í svo margar vörur, og þekktast er brennivín, og það er alls ekki útséð um notagildi hennar enný á, jafnvel talað um að hægt sé að gera úr henni pappír.
Við höfum hins vegar ekki sinnt um flókna matreiðslu á kartöflunni og margir viljað hana fyrst og fremst soðna. En markaðsmálum kartöflunnar var ekki alltaf sinnt nógu vel á árum áður og stundum urðu neytendur að búa við vondar kartöflur af þeim sökum. En stofnarnir eru bragðgóðir sem hafa verið ræktaðir upp hér á landi í aldanna rás.“
Rauðar, bláar og gular
Hvaða stofnar eru það sem hægt er að kalla íslenska?
„Norræni genabankinn telur upp þrjú íslensk afbrigði sem hafa öðlast ákveðin séreinkenni. Gullaugað sem er útbreitt hér á landi kom frá Norður-Noregi um 1930 og er því enn talið norskt afbrigði en til þeirra íslenskru teljast rauðar, bláar og gular. Af þeim er aðeins hægt að fá rauðar keyptar í verslunum sem útsæði, þær hafa öðlast þegnrétt hér á landi og hafa hugsanlega verið hér frá upphafi. Það sama á líklega einnig við um þær gulu en þær eru ekki í almennri ræktun eins og þær rauðu. Saga þeirra gulu er dálítið óljós, til dæmis er ekki vitað hvort til þeirra heyrðu Akraneskartöflurnar sem voru landsfrægar að gæðum en fengu svo í sig sjúkdóm. Bókin mín heitir eftir bláu kartöflunum sem komu síðar, með frönskum sjómönnum. Þær geymdust vel og voru þess vegna vinsælar á frönsku skútunum. Kannski hafa þær verið seinni til að spíra á vorin.“
Þú nefnir það einhvers staðar að hér á landi hafi verið svo erfitt að rækta vegna veðurfars og óblíðra aðstæðna. Hefur það eitthvað breyst?
„Já, við erum búin að læra að rækta á þessum breiddargráðum og okkur er ekkert að vanbúnaði. Við eigum menntað fólk sem kann til verka og getum haft köld gróðurhús í garðinum okkar og svo hefur akrýldúkurinn gjörbreytt ræktunaraðstöðunni. Þarna kemur plastið líka að góðum notum í stað þess að við séum að éta það í einhverjum umbúðum. Það hefur margt breyst þessi 250 ár síðan ómenntaðir danskir vinnumenn voru fluttir inn og áttu að koma upp kornrækt hér í kuldanum.
Við getum haft mikla fjölbreytni hér og þurfum fátt að flytja inn af grænmeti nema þá til gamans. Mér skilst að kornræktin gangi líka vel núna. Allt sem við getum ræktað hérna eigum við að rækta.“
Háskasamlegur tími, en skemmtilegur
Þinn boðskapur er þá þessi sígildi að við eigum að rækta garðinn okkar.
„Já, það er ekki spurning hvort við ætlum að rækta garðinn okkar, við verðum að gera það. Það dugir ekkert annað til að bjarga heiminum. Við þurfum að afla okkur matar og það á ekki að vera neitt flókið með allan okkar jarðhita. Íslenski maturinn er líka langbestur!“
Við gætum þá aukið framleiðsluna og jafnvel farið að flytja út grænmeti?
„Ekki spurning, við gætum tekið stórt stökk í því að auka fjölbreytnina. Síðustu áratugina hefur verið mikill innflutningur, td. á niðurskornu grænmeti eins og klettasalati sem er dásamleg jurt. Þetta hefur komið okkur á bragðið þannig að ég er að vona að innflutningurinn verði til þess að á endanum tökum við okkur tak. Það er svo miklu öruggara að rækta grænmetið hér á landi. Við getum varið það miklu betur án þess að úða það með eitri og það þarf ekki að geyma það jafnlengi og þetta innflutta sem er orðið dauflegt í fjöldaframleiðslu eða búið að missa mikið af krafti sínum þegar það kemst í verslanir hér á landi. Við viljum rækta þetta hér heima til þess að draga úr þessum endalausu flutningum á mat. Við vitum að í ræktuninni erlendis er komið svo mikið af aukaefnum og geymsluefnum. Við bætum heilsuna og spörum í heilbrigðiskerfinu. Við eigum að gera kröfu um að það sé hlúð að þeim sem rækta grænmeti.
Mér finnst skemmtilegt að það skuli vera að renna upp fyrir fólki hversu mikilvægur innlendi maturinn er, núna þegar tekur fyrir innflutning. Tími innflutta grænmetisins var skemmtilegur en líka háskasamlegur, þessi miklu flutningar voru og eru ekki góðir fyrir jörðina og ég vona að þessi stöðvun nýtist okkur þannig að við berum meiri virðingu fyrir okkar eigin matarmenningu.“
Þegar gullið er búið kemur kartaflan…
Á einum stað veltir þú fyrir þér þeirri spurningu hvort kartaflan hafi sál. Ertu komin að niðurstöðu um það?
„Það fer eftir því hvernig við skilgreinum sál. Ég vil eiginlega snúa þessu við og segja: Kartöflurnar hafa líf og eru meira meðvitandi um hópsál sína en maðurinn. Þessi tilhneiging hjá manninum að finnast hann alltaf vera einstaklingur í slag við aðra einstaklinga hefur alið hjá honum þessa græðgi. Við eigum að læra það af kartöflunni að við erum hópsál og við þurfum að rækta þessa hópsál.
Menn fóru á sínum tíma til Perú og sóttu þangað mikið gull. Við vitum ekki hvað varð um þetta gull, það er ekki víst að það hafi orðið Evrópumenningunni til góðs. En kartaflan fékk sér far með skipunum til Evrópu og hún hefur orðið okkur til góðs. Þegar gullið þrýtur verða menn að lifa af því sem jörðin gefur og þá kemur kartaflan til í allri sinni auðmýkt og bjargar því sem bjargað verður,“ segir Hildur Hákonardóttir myndlistarkona, safnamaður og rithöfundur.
Blálandsdrottningin fæst hér á Náttúrumarkaði. Ætigarðurinn fæst hér á Náttúrumarkaði.
Birt:
Tilvitnun:
Þröstur Helgason „Er tími kartöflunnar kominn?“, Náttúran.is: 17. febrúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/02/17/er-timi-kartoflunnar-kominn/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 19. febrúar 2009