Eftirlit með erfðabreyttu byggi
Nýlega voru unnin skemmdarverk á tilraunaræktun ORF Líftækni sem Umhverfisstofnun veitti leyfi fyrir í lok júní sl.. Umhverfisstofnun setti ítarleg skilyrði fyrir ræktuninni og ákvað að flýta áformaðri eftirlitsferð vegna atburðarins og fóru starfsmenn Umhverfisstofnunar á staðinn í dag. Brýnt þykir að gengið verði vandlega frá svæðinu í samræmi við skilyrði leyfisins og hefur Umhverfisstofnun óskað eftir áætlun frá ORF um framkvæmd þess. Umhverfisstofnun vinnur nú að eftirlitsskýrslu sem kynnt verður ORF á næstunni.
Farið var í fylgd Reynis Þorsteinssonar frá Landgræðslu ríkisins sem er tengiliður ORF í Gunnarsholti. Fram kom að síðastliðinn föstudag hafi reiturinn verið heimsóttur og þá engin ummerki um skemmdarverk. Kannaðar voru aðstæður og gögnum safnað í samræmi við eftirlitsskyldu stofnunarinnar. Umhverfisstofnun hefur verið í sambandi við ORF vegna málsins frá því það kom upp.
Á meðfylgjandi mynd gefur að líta erfðabreytt bygg úr tilraunareitnum sem tekin var við eftirlit.
Skilyrði Umhverfisstofnunar fyrir ræktun á erfðabreyttu byggi
- Tilkynna skal Umhverfisstofnun þegar ræktun hefst og árlega skal skila ítarlegri skýrslu um framgang tilraunar og niðurstöður og skal það gert fyrir 1. febrúar ár hvert.
- Unnið skal eftir skriflegum verklagsreglum um hvernig skuli staðið að ræktun, flutningum, fræverkun og eyðingu hliðarafurða og skal Umhverfisstofnun samþykkja slíkar reglur fyrirfram og hugsanlegar breytingar sem á þeim verða gerðar.
- Einungis starfsfólk sem er upplýst um eðli starfsemi fyrirtækisins og þær reglur er gilda um afmörkun og rétt viðbrögð við frávikum o.þ.h. skulu starfa við tilraunina.
- Ræktunarsvæði skal afmarkað með rafgirðingu og varðbelti með höfrum. Yfir ræktunarsvæði skal strengja línur eða net til að fæla frá hugsanlegar fuglakomur og skal Umhverfisstofnun yfirfara og samþykkja afmörkun ræktunarreits að lokinni sáningu að vori.
- Fylgst skal reglulega og skv. skriflegri verklýsingu með næsta umhverfi ræktunarreits og verði vart við byggplöntur utan tilraunareits verði þær hirtar til greiningar og kannað hvort um sé að ræða græðis-yrki. Ef erfðabreytt byggyrki eru staðfest utan ræktunarreits skal Umhverfisstofnun án tafar gert viðvart.
- Ef við uppskeru, flutning eða verkun verða slys sem geta valdið dreifingu byggs eða annarra afurða skal Umhverfisstofnun án tafar tilkynnt um slíkt og skal í tilkynningu koma fram upplýsingar um tildrög slyss, upplýsingar um til hvaða ráðstafana hafi verið gripið ásamt öðrum upplýsingum svo að unnt sé að meta hugsanleg áhrif og viðeigandi viðbrögð.
- Telji leyfishafi nauðsynlegt að breyta áður heimilaðri tilhögun við sleppingu eða dreifingu erfðabreyttra lífvera ber honum að tilkynna Umhverfisstofnun það án tafar. Sama gildir komi fram nýjar upplýsingar um hættu sem fylgir sleppingu eða dreifingu erfðabreyttra lífvera. Hafi nýjar upplýsingar veruleg áhrif á mat á áhættu samfara sleppingu getur Umhverfisstofnun krafist þess að umsækjandi breyti aðstæðum, geri hlé á sleppingu eða afturkallað áður útgefið leyfi sbr. 12. gr. laga um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996.
- Umhverfisstofnun er heimill óhindraður aðgangur að rannsóknarstofum eða svæðum þar sem notaðar eru eða unnið er með erfðabreyttar lífverur.
- Svæði sem notað hefur verið við ræktun skal látið standa óhreyft í 2 sumur eftir að notkun lýkur.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Eftirlit með erfðabreyttu byggi“, Náttúran.is: 20. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/21/eftirlit-meo-erfoabreyttu-byggi/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. ágúst 2009