Hættulegar loftslagsbreytingar - loftslagsstefna eftirlýst
Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtak Íslands lýsir eftir loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar:
Hættulegar loftslagsbreytingar - lýst eftir loftslagsstefnu ríkisstjórnar Íslands
Með lögum skal land byggja. Á tímum hnattvæðingar verður það einnig að gilda um Jörðina alla og alþjóðasamfélagið sem nú stendur frammi fyrir gríðarlegri ógn af völdum loftslagsbreytinga. Meðalhitnun andrúmslofts jarðar frá iðnbyltingu á 18. öld er nú talin vera 0,7°C og æ fleiri vísindamenn vara við að hitnun þess megi ekki aukast um meira en 2°C að meðaltali. Takist ekki að hindra það minnki líkurnar á að hægt verði að koma í veg fyrir hættlegar loftslagsbreytingar, þ.m.t. bráðunun Grænlandsjökuls og norðurskautsins.
Viðvörun Al Gores
Ekki er mikill tími til að snúa þróuninni við. Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna nefnir í mynd sinni „Óþægilegur sannleikur” (An Inconvenient Truth) að einungis séu 10 ár til stefnu því jafnvel þótt tækist að stöðva útstreymi gróðurhúsalofttegunda af manna völdum á morgun myndi andrúmsloftið halda áfram að hitna vegna þeirrar mengunar sem þegar hefur orðið. Til að hægt sé að stöðva og snúa þróuninni við verður að stíga á bremsurnar núna.
Skulbinding alþjóðasamfélagsins
Alþjóðasamfélagið brást við með Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar frá 1992. Í 2. grein segir:
“Lokamarkmið þessa samnings og hvers konar löggerninga honum tengdum sem þing aðila kann að samþykkja [t.d. Kyoto-bókunin] er, í samræmi við viðeigandi ákvæði samningsins, að halda styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu innan þeirra marka að komið verði í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af manna völdum. Þeim mörkum ætti að ná innan tímamarka sem nægðu til að vistkerfi geti sjálf aðlagað sig að loftslagsbreytingum til þess að tryggja að matvælaframleiðsla sé ekki í hættu og til að efnahagsýróun geti haldið áfram á sjálfbæran hátt.” [undirstrikun höf.]
195 aðildarríki Rammasamningsins hafa þannig skuldbungið sig til að koma í veg fyrir hættulegar loftslagsbreytingar. Stefna Íslands – heima og heiman – hlýtur því að miða að því að koma í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af manna völdum í samræmi við ofangreinda skuldbindingu.
Mótsagnakennd loftslagsstefna Íslands
Stefna íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum er bæði óskýr og mótsagnakennd. Ekki liggur fyrir nein stefna til framtíðar með tölusettum markmiðum um samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Ljóst er þó að Ísland styður Kyoto-bókunina og frekari samninga á grundvelli hennar. A.m.k. í orði kveðnu.
Lengi vel drógu forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar í efa vísindalegar niðurstöður um gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar. Þeir töluðu á svipuðum nótum og Bush Bandaríkjaforseti. Því var jafnvel haldið fram að loftslagsbreytingar fælu ekki síður í sér tækifæri en ógnir.
Jafnframt var það yfirlýst stefna stjórnvalda að afla sem mestra undaný ága frá Kyoto-bókuninni fyrir álfyrirtæki sem vilja fjárfesta á Íslandi. Vísindalegar rannsóknarniðurstöður benda þó til að virkjun jökulvatna dragi úr bindingu kolefnis í sjó og því hæpið að halda því fram að uppbygging áliðnaðar á Íslandi sé liður í átaki mannkyns gegn loftslagsbreytingum.
Á sama tíma og iðnaðarráðherra hampaði framlagi Íslands til að þróa vetni sem orkugjafa hældi hún sér (Valgerður Sverrisdóttir) af setningu laga sem heimila leit að olíu og gasi í íslenskri efnahagslögsögu í þeim tilgangi olíuleitarfyrirtæki fengjust til þess að fjármagna slíka leit.
Athygli vekur að ný rafskautaverksmiðja í Hvalfirði hlaut blessun í úrskurði umhverfisráðherra vegna kæru Landverndar. Það gerðist þrátt fyrir að verksmiðjan skuli knúin olíu og að starfssemi hennar muni auka útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 3,8% á ári miðað við 1990.
Loftslagsstefna til framtíðar
Eyða verður ríkjandi óvissu um hver sé loftslagsstefna ríkisstjórnar Íslands. Loftslagsstefna stjórnvalda verður að taka til uppbyggingar alls samfélagsins og móta verður skýra stefnu sem m.a. feli í sér eftirfarandi:
- Ríkisstjórn Íslands lýsi yfir stuðningi við markmið ESB frá mars 2005 um að meðalhitnun andrúmslofts Jarðar verði haldið innan við 2°C miðað við það sem var fyrir iðnbyltingu
- Stjórnvöld móti stefnu til næstu ára og áratuga um verulegan samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Slík stefnumótun feli í sér skýr töluleg markmið fyrir iðnað, samgöngur og sjávarútveg. Hinum auðugu þjóðum heims ber skylda til að ganga á undan með góðu fordæmi og jafnframt veita þróunarríkjum aðstoð við uppbyggingu sjálfbærs samfélags
- Gera verður öflugt fræðsluátak til að upplýsa almenning um þann mikla vanda sem við er að etja og leiðir til úrbóta. Einungis þannig er unnt að virkja almenning
- Íslensk stjórnvöld verða að styðja Kyoto-ferlið; að samningaviðræður um frekari samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu byggi á Kyoto-bókuninni.
Stjórnarflokkarnir og stjórnarandstaðan geta ekki mætt kjósendum sínum í kosningum á vori komanda án þess að hafa trúverðuga loftslagsstefnu.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hættulegar loftslagsbreytingar - loftslagsstefna eftirlýst“, Náttúran.is: 13. september 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/loftslagsstefna/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 7. maí 2009