Losun verður að komast niður í 20 gígatonn fyrir 2050
Orð dagsins 9. maí 2008
Í síðustu viku kynnti Nicholas Stern, fyrrum hagfræðingur Alþjóðabankans, nýja skýrslu sína um nauðsynleg áhersluatriði í þeim alþjóðlegu samningum sem framundan eru um takmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda. Fyrri skýrsla Sterns, sem kom út í nóvember 2006, vakti mikla athygli, en þar voru loftslagsbreytingar af mannavöldum ræddar í hagfræðilegu samhengi. Í nýju skýrslunni, „Key Elements of a Global Deal on Climate Change“ segir Stern meðal annars, að iðnríkin verði að sameinast um að draga úr losun sinni um 20-40% fram til ársins 2020 (miðað við losunina 1990) og um a.m.k. 80% fram til ársins 2050. Þróunarríkin þurfi að búa sig undir að undirgangast bindandi markmið um losun frá og með árinu 2020 og í nokkrum tilfellum fyrr.
Brýnt sé að flýta yfirfærslu tækni og þekkingar til þróunarlandanna, og grípa til tafarlausra og markvissra aðgerða til að stöðva eyðingu skóga. Allt miðast þetta við að ná losun á heimsvísu niður í 20 gígatonn fyrir 2050, en það samsvarar um 2 tonnum á íbúa miðað við að jarðarbúar verði um 9 milljarðar um þetta leyti. Á næstu áratugum þar á eftir verði losunin af minnka niður í um 1 tonn á íbúa. Árið 1990 var heildarlosunin um 41 gígatonn, og árið 2005 var hún komin í um 45 gígatonn. Til samanburðar má nefna að losun Íslendinga er nú u.þ.b. 14 tonn á íbúa og stefnir í um 17 tonn árið 2012.
Lesið frétt á heimasíðu WBCSD 1. maí sl, frétt Miljörapporten 7. maí,
nálgist nýju Sternskýrsluna í heild hjá London School of Economics and Political Science
og kynnið ykkur stöðu Íslands á heimasíðu Umhverfisstofnunar
Birt:
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Losun verður að komast niður í 20 gígatonn fyrir 2050“, Náttúran.is: 9. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/09/losun-verour-ao-komast-niour-i-20-gigatonn-fyrir-2/ [Skoðað:23. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.