Stíflur rifnar niður í Bandaríkjunum
Að rífa niður stíflur, einkum minni stíflur, er að verða regla frekar en undantekning í Bandaríkjunum, Frakklandi og víða um heim.
Ástæður þess að stíflur eru rifnar niður eru þær að stíflurnar eldast, verða of dýrar fyrir viðgerðir auk þess sem mörg sveitarfélög ákveða að rífa stíflurnar til þess að fá vatn og fisk í árnar aftur. Stíflur eru semsagt oft rifnar niður af umhverfisástæðum.
En það að fjarlægja stíflu þýðir ekki að fornt vistkerfi sem hefur verið eyðilagt komi sjálfkrafa aftur til baka. Það er auðvelt að eyðileggja náttúruna en nánast ómögulegt að endurskapa hana.
Um 800.000 stíflur eru í veröldinni í dag, þar af 45.000 stórar stíflur hærri en 15 metrar. Flestar voru byggðar á síðustu öld, einkum á árunum eftir síðari heimstyrjöld. Kostir vatnsaflsvirkjana eru nokkrir, orkan er endurnýjanleg og losar ekki gróðurhúsalofttegundir nema að litlu leyti. Hins vegar hafa ókostir stíflna orðið vaxandi þyrnir í augum manna á undanförnum árum. Stíflur eyðileggja vistkerfi, koma í veg fyrir að silt berist til sjávar, eyðileggja fiskveiðar við strendur og í ám og eyðileggja vistkerfi ánna. Umhverfissinnar í Bandaríkjunum eins og John Muir, Edward Abbey hafa barist gegn stíflugerð og hér á Íslandi hefur baráttan gegn vatnsaflsvirkjunum verið hörð.
Undanfarinn áratug hafa fleiri stíflur verið rifnar niður í Bandaríkjunum en eru byggðar. 80 stíflur hafa verið rifnar á undanförnum 2 árum. Þessi þróun á sér ekki einungis stað í Bandaríkjunum. Í Frakklandi er verið að rífa stíflur, í Ástralíu, Kanada og Japan.
Reynslan af niðurrifi stíflna er víðast hvar góð. Lax og silungur kemur aftur í árnar og súrefnismagn í árvatninu eykst. Hins vegar geta skapast vandamál þegar stífla er rifin. Stundum er siltið sem hefur safnast á bakvið stífluvegginn fullt af PCB eða öðrum mengandi efnum. Þessu silti þarf því að moka upp og farga sérstaklega. Sömu bandarísku verkfræðingarnir og byggðu stíflurnar eru nú í óða önn að rífa þær, og vísindamenn reyna að finna út hvaða aðferðir eru bestar til þess að rífa stórar stíflur.
Það skyldi þó ekki vera að við fengjum Bandaríska verktaka til landsins til þess að rífa Kárahnjúka ?
Heimild: Scientific American mars 2007, í þýðingu Ingibjargar Elsu Björnsdóttur.
Myndin er af Kárahnjúkastíflu eins og hún leit út í lok ágúst 2006. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Scientific American „Stíflur rifnar niður í Bandaríkjunum“, Náttúran.is: 13. júlí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/07/13/stflur-rifnar-niur-bandarkjunum/ [Skoðað:30. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.