Áform eru uppi um að láta sólarorku sjá heilli borg á vesturströnd Florída fyrir rafmagni. Borgin, sem nefnist Babcock Ranch, verður byggð upp á næstu árum, og er ætlunin að hefjast handa árið 2011. Þarna eiga að rísa 19.500 íbúðir sem rúmað geta um 45.000 manns. Sett verður upp 75 MW sólarorkuver sem á að geta framleitt alla þá raforku sem borgarbúar þurfa, enda verður verið stærra en nokkurt þeirra sólarorkuvera sem nú eru starfandi.

Að vísu mun framleiðslan bara fara fram á daginn, en þá verður líka hægt að selja umframorku út á landsnetið. Á næturnar þarf borgin síðan að kaupa orku af landsnetinu, en þó minna en sem nemur umframframleiðslu dagsins. Borgin verður þannig sjálfri sér nóg þegar á heildina er litið. Áætlað er að sólarorkuverið kosti um 350 milljónir dollara, (tæpa 45 milljarða ísl. kr.). Rafmagnsreikningur íbúanna á þó ekki að verða mikið hærri en gengur og gerist í dag.
Lesið frétt New York Times 9. apríl sl.

Birt:
14. apríl 2009
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Sólorkuknúin borg á teikniborðinu“, Náttúran.is: 14. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/14/solorkaknuin-borg-teikniboroinu/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: