Ræða forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar
við setningu Alþingis þ. 02. 10. 2006

Sagan er okkur ærið hugleikin á þessum stundum; upphaf þings jafnan tímamót, en þó sjaldan eins og nú; þáttaskilin tengd í senn þingheimi og landstjórninni en einnig deilumáli sem í hálfa öld hafði afgerandi áhrif á flokkaskipan, setti mark á átökin í stjórnmálunum, en líka menningu og sálarlíf þjóðarinnar.

Nýr forsætisráðherra kemur nú til þings með forystu og ábyrgð á sínum herðum og nýir ráðherrar hafa tekið við mikilvægum málaflokkum. Fjölmargir alþingismenn sem lengi hafa sett svip á löggjafarstarfið og málflutning í þessum sal hafa tilkynnt að þetta þing verði hið síðasta á ferli þeirra.

Algengt var á fyrri öld að forystumenn gegndu hér störfum í áratugi en nú setja tíð mannaskipti í ríkari mæli svip á Alþingi Íslendinga.

Slík þróun kann að vera svo samofin nýjum þjóðfélagsháttum að ekki verði aftur snúið en þá er líka mikilvægt að bregðast rétt við og nýta vel tímann sem hér gefst til starfa.

Þjóðin felur alþingismönnum mikinn trúnað; kjör þeirra er kjarninn í stjórnskipan landsins, sáttmálanum um samfélagshætti Íslendinga.

Ég óska nýjum ráðherrum farsældar í ábyrgðarstörfum og þingmönnum sem nú hefja sitt síðasta þing velferðar í framtíðinni.

Sérstaklega sendi ég á þessari stundu fráfarandi forsætisráðherra Halldóri Ásgrímssyni kærar kveðjur, þakkir fyrir framlag hans á liðnum árum og samstarf okkar, bæði meðan við gegndum báðir skyldustörfum í þessum sal og eftir að þjóðin fól okkur aukna ábyrgð.

Halldór Ásgrímsson kom víða við og var áhrifaríkur leiðtogi á umbrotatímum í sögu okkar Íslendinga. Vegferð hans úr austfirsku þorpi á alþjóðavettvang er á vissan hátt táknræn fyrir umskiptin sem orðið hafa.

Þegar við vorum báðir ungir, drengir að leik á sjávarkambi, hófust með þjóðinni deilur sem stóðu lengur en önnur átök, glíma sem markaði djúpa gjá í stjórnmál og þjóðlíf Íslendinga, skiptingin í andstæðar fylkingar skarpari en í öðrum málum, heitar og óbilgjarnar tilfinningar langlífar á báða bóga. Víglína var dregin um þjóðarvitund, margir góðir menn urðu féndur ævilangt, óvinagarður eitraði fjölskyldur í áratugi og fjölmargir, skáld og listamenn, nutu eigi sannmælis á opinberum vettvangi þrátt fyrir ágæt verk því matið tók mið af átökunum.

Það er erfitt fyrir þá sem nú vaxa úr grasi að skilja til hlítar hve hatrömm þessi glíma var, deilurnar um veru hersins, varnarliðið á Miðnesheiði, og kannski getur ekkert okkar skilið til fulls hve afgerandi þáttaskil hafa nú orðið.

Herinn er farinn. Gærdagurinn sá fyrsti í meira en hálfa öld án hermanna í landi okkar.
Nú hefjast nýir tímar – nýtt skeið í þjóðarsögu.

Lærdómarnir eru bþsna margir en mikilvægastur kannski sá að forðast ber í lengstu lög að Íslendingar verði á ný fórnarlömb svo djúpstæðis klofnings. Því er áríðandi að allir sem ábyrgð bera, bæði á Alþingi og í landstjórninni, bæði nú og um alla framtíð, kappkosti af fremsta megni að ná sem mestri sátt um málefnin sem verða munu á verkaskrá íslenskrar þjóðar.

Kalda stríðið, deilurnar um hersetuna, veru varnarliðsins, fjandskapurinn sem skipti þjóðinni í stríðandi sveitir dró á margan hátt úr getu okkar til að sækja fram; hjaðningavíg á heimavelli veiktu samtakamátt og kraftinn til nýsköpunar.

Aflinu sem hefði mátt verja til framfara á öllum sviðum var beitt í átökum við okkur sjálf.
Árangur Íslendinga að undanförnu, útrásin á okkar tímum, blómlegt atvinnulíf og vísindaiðkan, gróskan í menningu og skapandi listum – allt hefur það öðlast aukinn þrótt því þjóðin hefur losnað úr viðjum þessa gamla klofnings.

Það er sannarlega gleðiefni að svo friðsælt sé í okkar heimshluta að mesta herveldi sem veröldin hefur kynnst skuli komast að þeirri niðurstöðu að engum tilgangi þjóni að hafa hér sveitir, að engin þörf sé á vörnum sem áður voru taldar brýnar.

Það er gæfa okkar Íslendinga að eiga nú farsælt samstarf við allar þjóðir á norðurslóðum, að allir vilji vera vinir okkar, að engin hernaðarógn sé í augsýn.

Nú hefur skapast einstakt tækifæri fyrir þing og þjóð að halda til móts við nýja tíma með samstöðuna að leiðarljósi.

Áfram verður ágreiningur um ýmis mál, en deilurnar um veru hersins ættu að verða víti til varnaðar um alla framtíð; ávallt verði leiðarljós að samfélag Íslendinga lamist aldrei aftur vegna djúpstæðs þjóðarklofnings.

Við þurfum öll að standa saman, einkum nú þegar veröldin breytist ört og tækifærin bíða í öllum áttum.

Á þessum tímamótum ber ég fram þá einlægu ósk að víðtæk og eindregin samstaða skapist um stöðu Íslands í veröldinni og sambúð okkar við aðrar þjóðir.

Nú þurfum við að ná þjóðarsátt um grundvöllinn í utanríkisstefnu Íslendinga.
Alþingi hefur hér einstakt hlutverk. Aldrei fyrr frá lþðveldisstofnun hefur aðstaða skapast til að ná svo víðtækri sátt í þessum efnum.

Lítil þjóð þarf á því að halda að einhugur ríki um stöðu hennar í veröldinni, að samstaða sé um samskiptin við önnur lönd.

Þá getur hún beitt sér af öllu afli til að skapa íbúum hagsæld og velferð; þá getur hún virkjað kraftana til framfara á öllum sviðum; þá getur hún tryggt sér öruggt sæti í fremstu röð og orðið öðrum þjóðum fyrirmynd.

Þó að tímarnir kalli áfram á úrlausn flókinna viðfangsefna þurfum við að forðast í lengstu lög að ágreiningurinn fari úr böndum og leiði til álíka klofnings og í áratugi dró úr þjóðinni kraft. Við þurfum öll að vanda okkur og nýta lýðræðið til að efla og styrkja samstöðuna.

Við sjáum ýmis merki þess að afstaðan til náttúrunnar kunni að verða viðlíka hitamál og herinn var fyrrum. Þúsundir mótmæla á götum Reykjavíkur á sama tíma og íbúar Austurlands fagna nýjum áföngum í byggðaþróun.

Náttúra Íslands er okkur öllum kær, samofin sjálfstæðisvitund Íslendinga, uppspretta þjóðarauðs og framfara á flestum sviðum.

Þegar ágreiningurinn um veru hersins hefur nú verið til lykta leiddur með brottför varnarliðsins er afar brýnt að deilurnar um nýtingu náttúru Íslands skapi ekki nýja gjá.

Þjóðarsátt í erfiðum málum er verðmæt auðlind og með samstöðuna að leiðarljósi eru okkur allir vegir færir.

Í anda þeirrar sýnar bið ég alþingismenn að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.
Birt:
2. október 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Ræða forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar við setningu Alþingis þ. 02. 10. 2006“, Náttúran.is: 2. október 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/22/raeda_olafs_forseta/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. mars 2007
breytt: 2. maí 2007

Skilaboð: