Dagur hinna villtu blóma verður næst haldinn sunnudaginn 14. júní í ár. Þann dag gefst fólki víðs vegar um landið kostur á að fara í tveggja tíma gönguferð um nágrenni sitt án endurgjalds, og fá leiðsögn um algengustu plöntur sem þar vaxa. Neðst á þessari síðu er tengill inn á síður fyrri blómadaga, allt frá árinu 2004 þegar hann var fyrst haldinn hér á Íslandi.

Gönguferðir þessar eru ókeypis fyrir þátttakendur, og ekki þarf að tilkynna þátttöku fyrir fram, heldur aðeins mæta á auglýstum stað á réttum tíma. Hversu víða hægt er að bjóða upp á plöntuskoðun fer eftir því hversu margir sjálfboðaliðar fást til að veita leiðsögn.

Árið 2009 verða plöntuskoðunarferðir á eftirtöldum stöðum:

  1. Hrafnagjá í Vogum. Mæting við mislægu gatnamótin á Reykjanesbraut við Voga kl. 11:00. Þaðan er gengið í um það bil 20 mínútur að Hrafnagjá. Þar er skjól í norðanátt og sólríkt. Leiðbeinendur verða Þorvaldur Örn Árnason og Ragnheiður E. Jónsdóttir.
  2. Búrfellsgjá. Mæting og brottför frá Grasagarðinum í Laugardal kl. 9:30. Plöntuskoðun í Búrfellsgjá í samvinnu við Grasagarðinn í Laugardal og Ferðafélagið Útivist. Leiðsögn: Eva G. Þorvaldsdóttir, grasafræðingur. 
  3. Snæfellsnesþjóðgarður. Mæting við Rauðhól kl. 14:00. Leiðbeinandi Hákon Ásgeirsson.
  4. Ísafjörður. Mæting við tjaldstæðið í Tunguskógi kl. 14:00. Leiðsögn: Kristjana Einarsdóttir.
  5. Hólmavík. Mæting við Upplýsingamiðstöðina kl. 10:30. Leiðsögn: Hafdís Sturlaugsdóttir og Matthías Lýðsson.
  6. Krossanesborgir, Akureyri.  Mæting við nýja bílastæðið norðan við BYKO  kl. 10:00. Gott að hafa stígvél meðferðis fyrir þá sem vilja skoða mýragróðurinn. Leiðsögn: Elín Gunnlaugsdóttir, grasafræðingur.
  7. Eyjafjarðarsveit, Stóragil við Eyrarland. Mæting norðan við afleggjarann að Eyrarlandi af gamla Vaðlaheiðarveginum kl. 10:00. Verður eggtvíblaðkan farin að blómstra?  Leiðsögn: Hörður Kristinsson, grasafræðingur.
  8. Húsavík. Mæting við fjallsrætur vestan Botnsvatns kl. 14:00. Gengið verður umhverfis vatnið. Leiðsögn: Óskar Jóhannsson.
  9. Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum. Mæting við Gljúfrastofu kl. 14:00. Leiðsögn: Jóna Óladóttir, landvörður og Helga Árnadóttir, líffræðingur.
  10. Egilsstaðir. Mæting á gatnamótum Seyðisfjarðarvegar og Fagradalsbrautar kl. 9:30. Gengið verður um Egilsstaðaskóg innan vegar og blæöspin skoðuð. Síðan gengið að Löngutjörn, inn fyrir hana, út Hamra og endað við útsýnisskífu undir hádegi. Leiðsögn: Skarphéðinn Þórisson.
  11. Neskaupstaður. Mæting á bílastæðinu úti í fólkvangi hjá vitanum kl. 10:00. Í fólkvanginum er mikil fjölbreytni tegunda og gróðurlendi víða gróskumikil. Einkennisjurtir Austfjarða, sjöstjarna, gullsteinbrjótur, maríuvöttur og bláklukka vaxa þar allar. Í ferðinni verður einnig litið eftir sjaldséðum tegundum eins og þúsundblaðrós, hagastör, skógfjólu og lyngbúa. Leiðsögn: Erlín Emma Jóhannsdóttir og Gerður Guðmundsdóttir.
  12. Fáskrúðsfjörður. Mæting við Hólagerði kl. 19:00. Leiðsögn: Líneik Anna Sævarsdóttir.
  13. Hornafjörður. Mæting í landi Skógræktarfélagsins í Haukafelli kl. 13:00. Leiðsögn: Rannveig Einarsdóttir.
  14. Þjóðgarðurinn í Skaftafelli. Mæting við Þjónustumiðstöðina í Skaftafelli kl. 13:00. Leiðsögn: Hálfdán Björnsson frá Kvískerjum.
  15. Kirkjubæjarklaustur. Mæting hjá Kirkjubæjarstofu við Systrafoss kl. 20:30. Gengið verður að Systrastapa og áfram í Tóluhvamm vestan Systrastapa. Leiðsögn: Valgerður Erlingsdóttir.
Flóruvinir standa fyrir degi hinna villtu blóma, og veita leiðsögn sem sjálfboðaliðar. Ýmsar stofnanir hafa stutt og staðið með flóruvinum að þesum degi á  hverjum stað fyrir sig, meðal annars Grasagarðurinn í Laugardal, Ferðafélag Íslands, Hólaskóli, Landbúnaðarháskóli Íslands, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrufræðistofur landshlutanna og Umhverfisstofnun.

Dagur hinna villtu blóma hefur síðan 2004, þegar Íslendingar bættust í hópinn,  verið haldinn á öllum Norðurlöndunum ásamt Færeyjum og Grænlandi.

Blómadagarnir 2004-2007

Birt:
12. júní 2009
Tilvitnun:
Hörður Kristinsson „Dagur hinna villtu blóma er 14. júní“, Náttúran.is: 12. júní 2009 URL: http://nature.is/d/2009/06/12/dagur-hinna-villtu-bloma-er-14-juni/ [Skoðað:3. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: