Tillögur að breytingum á náttúruverndarlögum til umsagnar
Drög að frumvarpi til laga um breytingar á náttúruverndarlögum er nú opið til umsagnar. Drögin voru unnin af nefnd sem Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra skipaði í nóvember 2009 til að vinna að endurskoðun náttúruverndarlaga. Öllum er frjálst að senda umhverfisráðuneytinu athugasemdir við drögin með tölvupósti á postur@umhverfisraduneyti.is til og með 7. janúar næstkomandi.
Nefndin skilaði ráðherra áfangaskýrslu í mars 2010 og lagði þar til að verkinu yrði skipt í tvo áfanga. Fyrst yrði unnið að tillögum að breytingum á nokkrum þáttum laganna sem brýnast væri að bæta úr og síðan tæki við vinna við heildarendurskoðun laganna. Frumvarpið sem nú er kynnt er afrakstur fyrri áfanga verksins og felur í sér breytingar á þremur efnisatriðum náttúruverndarlaganna, það er ákvæðum um akstur utan vega, ákvæðum um sérstaka vernd tiltekinna jarðmyndana og vistkerfa og loks um framandi lífverur. Auk þess er lagt til að Umhverfisstofnun fái heimild til að taka gjald fyrir útgáfu leyfa samkvæmt náttúruverndarlögum.
Akstur utan vega
Í 17. grein núgildandi náttúruverndarlaga er almenn regla um bann við akstri utan vega. Hugtakið vegur er ekki skilgreint sérstaklega í lögunum en í athugasemdum er vísað til umferðarlaga. Umferðarlög byggja á víðri skilgreiningu hugtaksins vegur, en að mati nefndarinnar hentar slík skilgreining illa þegar fjallað er um náttúruvernd og heimildir til að aka utan hins almenna vegakerfis landsins. Þetta hefur leitt til þess að í málum þar sem ákært hefur verið vegna utanvegaaksturs hefur ákæran sjaldnast leitt til sakfellingar. Í drögum að frumvarpi sem nú eru til umsagnar er því lagt til að hugtakið vegur verði skilgreint sérstaklega fyrir náttúruverndarlög og að ekki verði lengur byggt á skilgreiningu umferðarlaga. Er þetta í samræmi við það sem tíðkast víða í löggjöf annarra ríkja, til dæmis í norskum lögum.
Í drögum að frumvarpi er gert ráð fyrir að meginregla 17. greinar náttúruverndarlaga um bann við akstri utan vega haldist óbreytt en nokkrar eru gerðar á undanþáguheimildum. Einnig er fjallað um gerð kortagrunns yfir vegi og vegslóða þar sem heimilt er að aka vélknúnum ökutækjum. Gert er ráð fyrir að kortagrunnurinn verði gefinn út og birtur með formlegum hætti og að hann feli því í sér réttarheimild um það hvar leyfilegt er að aka vélknúnum ökutækjum. Með útgáfu slíks kortagrunns yrði eytt óvissu um akstursleiðir sem heimilt er að aka.
Vernd tiltekinna náttúrufyrirbæra
Í 37. grein náttúruverndarlaga er kveðið á um sérstaka vernd tiltekinna jarðmyndana og vistkerfa. Greinin felur í sér almenna reglu um að forðast skuli eins og kostur er röskun þeirra jarðmynda og vistkerfa sem þar er fjallað um. Var reglunni ætlað að hvetja til sérstakrar varkárni í umgengni við þessi náttúrufyrirbæri en að mati nefndarinnar hefur reynslan sýnt að ekki hefur náðst sá árangur sem að var stefnt. Svo virðist sem greinin hafi ekki haft mikla þýðingu við útgáfu framkvæmdaleyfa og áhrif hennar á gerð skipulagsáætlana, ákvarðanir um matsskyldu framkvæmda og framkvæmd umhverfismats hafa einnig verið takmörkuð. Að mati nefndarinnar kann ómarkvisst orðalag og skortur á leiðbeiningum um beitingu greinarinnar að hafa áhrif á það hversu veik sú vernd hefur reynst sem 37. greininni var ætlað að veita.
Tillögur í 3. grein frumvarpsins miða að því að bæta úr þessu og stuðla að því að betur verði vandað til málsmeðferðar stjórnvalda þegar teknar eru ákvarðanir sem snerta náttúrufyrirbæri sem falla undir greinina. Auk breytinga á greininni sjálfri eru lagðar til breytingar á skipulagslögum og lögum um mat á umhverfisáhrifum í þeim tilgangi að auka áhrif greinarinnar og styrkja þá vernd sem hún kveður á um.
Gert er ráð fyrir tveimur veigamiklum breytingum á verndarflokkum sem taldir eru upp í 1. málsgrein 37. greinar. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á stærðarmörkum verndaðra votlendissvæða og er miðað við svæði sem eru einn hektari að flatarmáli eða stærri í stað þriggja hektara eins og nú er. Ástæða þess er einkum sú að vernd sem miðast við þriggja hektara svæði nær einungis til um 60% óraskaðs votlendis en ef mörkin eru færð niður að einum hektara hækkar hlutfallið í um 95%. Í öðru lagi er lagt til að nýr verndarflokkur bætist við greinina, það er birkiskógar og leifar þeirra. Þrátt fyrir lagasetningu og stefnu stjórnvalda síðustu 100 ára hefur ekki tekist að stöðva eyðingu birkiskóganna. Því telur nefndin brýnt að styrkja vernd birkiskóga á Íslandi í lögum um náttúruvernd.
Við heildarendurskoðun á náttúruverndarlögunum verður fjallað um möguleikann á því að fella fleiri flokka náttúrufyrirbæra undir 37. grein náttúruverndarlaga, til dæmis straumvötn og víðerni.
Lifandi framandi lífverur
Með bættum samgöngum og stórauknum flutningi fólks og varnings heimshorna á milli hefur það aukist að ýmsar tegundir plantna og dýra séu fluttar, ýmist viljandi eða óviljandi, út fyrir sín náttúrulegu heimkynni og til svæða sem áður voru þeim lokuð af líffræðilegum eða landfræðilegum orsökum. Margar þessara lífvera eru nytsamlegar og hafa ekki teljandi áhrif á lífríki svæðisins sem þær eru fluttar til. Sumar hafa hins vegar orðið ágengar í nýjum heimkynnum og geta því ógnað líffræðilegri fjölbreytni og einnig valdið verulegu fjárhagslegu tjóni. Ágengar framandi tegundir eru nú taldar vera önnur helsta ástæða hnignunar líffræðilegrar fjölbreytni í heiminum.
Ákvæði 41. greinar núgildandi náttúruverndarlaga fjalla um innflutning, ræktun og dreifingu lifandi lífvera. Greinin hefur ekki reynst vel í framkvæmd að mati nefndarinnar og er þar einkum um að kenna óskýrri afmörkun gildissviðs hennar gagnvart öðrum lögum. Í 4. grein frumvarpsins er því lagt til að fimm nýjar greinar komi í stað 41. greinarinnar. Þær fela í sér skýrari reglur um innflutning lifandi framandi lífvera og um dreifingu lifandi lífvera og miða að því að draga úr hættu á tjóni á lífríki Íslands af völdum framandi lífvera.
Ljósmynd: Frá Skaftafelli, Árni Tryggvason.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Tillögur að breytingum á náttúruverndarlögum til umsagnar“, Náttúran.is: 14. desember 2010 URL: http://nature.is/d/2010/12/14/tillogur-ad-breytingum-natturuverndarlogum-til-ums/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 25. desember 2010