Nú þegar deilur standa sem hæst um Orkuveitu Reykjavíkur og aðgang að auðlindum Íslands hvarflar hugurinn óhjákvæmilega til Mosfellsbæjar en þar hvílir í iðrum jarðar eitt stærsta lághitasvæði landsins. Uppspretta 60% af heitu vatni sem Reykvíkingar nota er í Mosfellsbæ. Hitaveita Reykjavíkur keypti verðmætustu vatnsréttindi landeigenda um 1935 á verði sem borgarstjórn Reykjavíkur óx á sínum tíma í augum, þ.e. 150 þúsund kr. Fáir áttuðu sig þá á því verðmæti sem fólst í jarðhitanum. Í dag rennur auðlindin án viðkomu í bæjarsjóði Mosfellsbæjar um hitaveitulagnir Reykjavíkur. Hitaveitan á sennilega stærstan þátt í velmegun höfuðborgarbúa og því sanngirnismál að leiðrétta hlut Mosfellsbæjar.

Þetta óafturkræfa afsal á endurnýjanlegum auðlindum og sú staða sem Mosfellsbær er í núna, þ.e. að vera ekki einu sinni meðeigandi í Orkuveitu Reykjavíkur, ætti að vera þörf áminning þeim sem gæta eiga auðlindarinnar í umboði almennings. Það er kaldhæðnislegt að það sveitarfélag sem drþgstan skerf leggur til hitaveitu á Reykjavíkursvæðinu njóti þess í engu umfram önnur sveitarfélög. Þvert á móti situr það uppi með ókostina sem eru hitaveitaskúrar Orkuveitunnar með tilheyrandi ónæði fyrir íbúa, náttúrugersemar s.s. gróðursæll heitur jarðvegur og hverir eru horfnir af yfirborði jarðar, Varmáin sem hægt var að baða sig í er orðin jafn köld og rigningin og til að kóróna kaldhæðnina er skipulagsmálum stjórnað af bæjaryfirvöldum sem gleymt hafa jarðsögunni, atvinnusögunni og menningarsögunni sem öll á sér þó uppsprettu í heita vatninu.

Dómur sögunnar virðist blasa við. Í sumar sóttu Varmársamtökin um styrk til Orkuveitu Reykjavíkur til að hefja jarðhitasögu sveitarfélagsins til vegs og virðingar með sýnilegum hætti á yfirborði jarðar. Umsókninni var hafnað. En burtséð frá því.
Myndin er af Hellisheiðarvirkjun Orkuveitu Reykjavíkur.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir

Birt:
14. október 2007
Tilvitnun:
Sigrún Pálsdóttir „Hvaðan kemur auður Orkuveitunnar? “, Náttúran.is: 14. október 2007 URL: http://nature.is/d/2007/10/14/hva-kemur-auur-orkuveitunnar/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: