Töfrafoss óvart galdraður burt?
Völundur Jónsson í Grágæsadal heldur því fram í grein í Morgunblaðinu í gær að Töfrafoss sem átti ekki að hverfa heldur fara til hálfs á kaf í Hálslón sé nú horfinn og stæði hans liggi nú 7-8 metrum undir vatnsyfriborðinu.
Vöndur segir m.a. þetta í greininni: ...„Fyrir tæpum mánuði tók ég hins vegar ljósmynd sem sýnir glögglega að líklega er orðið 7 til 8 metra dýpi niður á fossinn og lónið nær núna um 800 metra frá fossinum og inn eftir. Þarna er sem sagt farinn enn einn fagur foss í kaf sem átti ekki að fara í kaf samkvæmt opinberum upplýsingum.”
Lónshæð er þá miklu hærri en ráð var fyrir gert og skerðing friðlandsins í Kringilsárrana langt umfram heimild en þar er gert ráð fyrir að fjórðungur Kringilsárrana, 13 km2, fari undir lónið, þar af 1 km2 gróinn.
Völundur heldur áfram: „Landsvirkjunarmenn sögðu alltaf, bæði á prenti og í orðastað, að fossinn í Kringilsá færi hálfur í kaf þegar mest yrði í lóninu,“ segir Völundur. „Í bók Páls Ásgeirs Ásgeirssonar, Hálendishandbókinni, segir Páll að lónið eigi bara að koma upp á miðjan foss. Stefán Halldórsson á Brú hafði það líka eftir Landsvirkjunarmönnum að lónið færi á miðjan fossinn. Fyrir tæpum mánuði tók ég hins vegar ljósmynd sem sýnir glögglega að líklega er orðið 7 til 8 metra dýpi niður á fossinn og lónið nær núna um 800 metra frá fossinum og inn eftir. Þarna er sem sagt farinn enn einn fagur foss í kaf sem átti ekki að fara í kaf samkvæmt opinberum upplýsingum. Ég sagði fólki að þetta myndi gerast en það trúði mér ekki. Ég var búinn að sjá þetta fyrir af hæðarmerkingum í lónstæðinu. Áróðurinn er þannig að Landsvirkjunarmenn skrökva bara með ýmislegt,“
Sé þetta á rökum reist gæti lónið verið allt upp í 10 metrum hærra en ráð var fyrir gert – þá er 570 milljón tonnum meira vatn í lóninu en gert var ráð fyrir (57km2 x 10 m).
Skv. upplýsingum á vef Landsvirkjunar á stíflan nú að vera 198 metra há og lónið 2100 gígalítra. Sjá. Spurningin er því hve mikið hefur lónið hækkað frá upprunalega samþykktu umhverfismati og um hve mörg prósent hefur lónið stækkað miðað við það að hvarf fossins eigi við rök að styðjast.
„Samkvæmt öllum heimildum sem kynntar voru í matsferli* virtist Hálslón í hæstu stöðu ná inn að Töfrafossi en alls ekki upp fyrir hann.
Samkvæmt nýjum upplýsingum er lónhæð allt að 10 metrum hærri? Því er rétt að spyrja hvort landmælingar sem lágu til grundvallar matsskýrslu hafi verið rangar, eða hvort lónið sé einfaldlega miklu stærra en var til heimild fyrir“, segir Ásta Þorleifsdóttir jarðeðlisvræðingur er Náttúran spurði hana álits.
Ásta spyr hve mikið meira af friðlandinu hafi verið spillt umfram það sem heimild var fyrir og hvað brot á Náttúruverndarlögum hefði í för með sér reynist þetta rétt?
Trúverðuleiki Landsvirkjunar endanlega fyrir bþ?
Hvernig ætlast Landsvirkjun til þess að íbúar við Þjórsá treysti því að áætlanir um lónshæðir í fyrirhuguðum lónum þar standist ef þetta reynist rétt?
Efri myndin er af lónshæðarflökti Hálslóns milli árstíða á korti frá Náttúrufræðistofnun Íslands í umhverfimati að Kárahnjúkavirkjun. Neðri myndin er af korti frá Landsvrikjun af umfangi lónsins eins og það myndi vera stærst. Töfrafoss hefur verið merktur inn á með rauðum krossi og sést greinilega að fossinn á ekki að vera undir lóninu skv. þessu.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Töfrafoss óvart galdraður burt?“, Náttúran.is: 27. nóvember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/11/26/tofrafoss-ovart-galdraour-burt/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 26. nóvember 2007
breytt: 28. nóvember 2007