Náttúruvaktinni hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu:

-Náttúruvaktin mótmælir harðlega þeim áætlunum Landsnets að leggja háspennulínur frá Hellisheiðarvirkjun.
Það sætir furðu að enn skuli áformað að leggja háspennulínur á möstrum með þeirri gríðarlegu sjónmengun sem þær valda þegar kostur er á að leggja þær í jörðu. Náttúruvaktin sendir jafnframt íbúum á Fljótsdalshéraði og Fjarðabyggð samúðarkveðjur vegna hinna ósmekklegu línulagna sem nú valda ásýnd landsins og líðan óbætanlegu tjóni.
Þá vill Náttúruvaktin koma á framfæri mótmælum sínum gegn fyrirhuguðum jarðvarmavirkjunum við Hverahlíð og Ölkelduháls til þess eins að knýja stækkanir álbræðslna á höfuðborgarsvæðinu. Það er komið meira en nóg af mengandi stóriðju og tími til komin a huga að framtíð þessa lands.

Náttúruvaktin beinir þeim tilmælum til stjórnvalda að hefja þegar undirbúning að uppbyggingu Eldfjallagarðs á Reykjanesskaga sem muni skapa mikil sóknarfæri í ferða- og afþreyingariðnaði. Eldfjallagarðurinn myndi skapa nýjan vettvang fyrir vísindi og fræðslu, sérstaklega á sviði jarðvísinda og heilsufræða og þannig gefa Íslandi tækifæri til að móta sér sérstöðu, efla háskólamenntun og laða að fólk frá öðrum þjóðum. Þá myndi Eldfjallasafn vafalítið verða með fjölsóttustu söfnum landsins
Náttúruvaktin telur að því að Eldfjallagarður muni skapa mun fleiri og fjölbreyttari störf en stóriðja og hvetur stjórnvöld til að láta ekki vanhugsuð skammtímasjónarmið hefta möguleika til arðsköpunar með skynsamlegri náttúrunýtingu í sátt við íbúa.

Stjórn Náttúruvaktarinnar

Birt:
19. september 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Fréttatilkynning frá Náttúruvaktinni“, Náttúran.is: 19. september 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/frettatilk_natturuvaktin/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 21. júlí 2009

Skilaboð: