Þeir sem leið eiga um Austurland í sumar ættu að gera sér ferð á einn af fuglaskoðunarstöðum Djúpavogshrepps og skoða fuglalífið en hreppurinn hefur löngum þótt áhugaverður meðal áhugafólks um fugla og fuglaskoðun.
Einstaklega mikið fuglalíf er í hreppnum og eru fuglaskoðunarstaðir alls fjórir talsins í Álftafirði, Berufirði, Papey og á Búlandsnesi. Einn af kostum þessa landsvæðis er óspillt náttúra og gott aðgengi fyrir fuglaskoðara en þarna er hægt að sjá fuglategundir í sínu náttúrulega umhverfi án þess að þurfa að leggja á sig mikla göngu eða langt ferðalag.

Papey hefur verið á náttúruminjaskrá frá því að skráin kom fyrst út árið 1975. Hún er einnig á lista Birdlife International (Alþjóðlegu fugla-samtakanna) yfir mikilvæg fuglasvæði í Evrópu. Þar setja sjófuglar mestan svip á fuglalífið og er talið að um 30.000 lundapör verpi í eynni.

Álftafjörður er mjög mikilvægur fellistaður æðarfugls og einnig safnast þar saman stór hluti hrafnsandastofnsins. Álftafjörður og Hamarsfjörður eru hluti af stærra svæði sem hefur verið á náttúruminjaskrá síðan 1981 og er einnig á lista Birdlife International.Á Búlandsnesi er mjög mikilvægt varpland votlendisfugla. Þar er fjölbreytt andavarp, en um 10 tegundir verpa þar, m.a. brandönd og skeiðönd en einnig verpir þar flórgoði, lómur og aðrir athyglisverðir fuglar.
Í Berufirði eru einnig mjög athyglisverðir staðir, en við árósar Fossár má oft á tíðum sjá straumendur.
Á svæðinu öllu má einnig finna margar tegundir vetrar- og fargesturm t.d. tjaldi, tildru, fjöruspóa, sanderlu, margæs o.fl.
Síðan árið 2004 hefur verið starfrækt á Djúpavogi fugla og steinasafn. Á safninu eru um 130 tegundir uppstoppaðra fugla bæði staðfugla og flækinga. Þar má einnig sjá hreiður og egg auk þess sem fuglabækur og myndir eru til staðar. Safnið eru opið alla daga á sumrin frá 10.00-18.00

Allar upplýsingar eru fengnar af fuglavef Djúpavogs.

 

Myndin er líklegast af skúfönd, þó væri gott að fá það staðfest svo ekki sé rangt farið með.

Ljósmynd:Vala Smáradóttir

Birt:
18. júní 2007
Höfundur:
Vala Smáradóttir
Tilvitnun:
Vala Smáradóttir „Fuglalíf í Djúpavogshreppi“, Náttúran.is: 18. júní 2007 URL: http://nature.is/d/2007/06/18/fuglalf-djpavogshreppi/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 9. júlí 2007

Skilaboð: