Bíldekk - Svanurinn
Svansmerkt bíldekk
Með bíldekkjum er átt við bæði ný og sóluð dekk fyrir fólksbíla, fólks- og vöruflutningabíla,
hvort heldur sem um sumar- eða vetrardekk að ræða. Nagladekk eru hins vegar undanskilin og fást ekki svansmerkt.
Umhverfismerking
Norræna umhverfismerkið Svanurinn var stofnað í þeim tilgangi að að auðvelda þér og öðrum neytendum að finna vörur er hafa sem minnst skaðleg áhrif umhverfið. Kröfur Svansins miðast við allan lífsferil vörunnar/þjónustu, frá vöggu til grafar. Það þýðir að áhrif vörunnar eru metin allt frá hráefni til úrgangs, og miðast kröfur Svansins við að lágmarka umhverfisálag vegna vörunnar. Það getur verið flókið mál að meta umhverfisáhrif vara og finna þá umhverfisvænstu. Svanurinn einfaldar málið og auðveldar þér að skapa betri framtíð!
Svansmerkt bíldekk
- Eru laus við eitraðar úrgangsolíublöndur á slitflötum
- Uppfylla kröfur um lágt viðnám
- Valda minni hávaða
- Eru framleidd í verksmiðjum sem uppfylla ákveðnar kröfur hvað umhverfismál snertir
- Uppfylla ákveðnar gæðakröfur
- Eru prófuð af óháðum aðila, sem hefur hvorki faglegra né fjárhagslegra hagsmuna að gæta
Ný eða sóluð dekk?
Hægt er að fá ný dekk með Svansmerkingu, en einnig sóluð. Sóluð dekk eru gömul, slitin dekk, sem eru endurnýtt með því að sjá þeim fyrir nýjum slitfleti. Þetta sparar bæði peninga, orku og hráefni í samanburði við ný dekk.
Til að tryggja að gæði svansmerktra, sólaðra dekkja standist samanburð við það sem gengur og gerist með ný dekk, eru gerðar strangar kröfur til framleiðenda.
Orku- og hráefnis-sparnaðurinn sem vinnst með framleiðslu sólaðra dekkja eru mikilvægir þættir þegar hugað er að umhverfisáhrifum bíldekkja, en fleiri þættir spila þar inn í
líka. Það er hægt að framleiða ný dekk á afar mismunandi hátt, sem hefur mismikið
álag á umhverfið í för með sér. Þannig að ef þú vilt frekar ný dekk en sóluð, passaðu þá að þau séu svansmerkt, því þannig geturðu verið viss um að dekkin þín valdi umhverfinu
minni skaða en önnur, sambærileg dekk.
Engin úrgangsolía
Svokallaðar HA-olíur eru gjarnan notaðar til að drþgja og mýkja gúmmíið í slitfleti bíldekkja, enda þykja þær þægilegar til þess arna. Hér er hins vegar um eitraða úrgangsolíu að ræða, sem fellur til sem aukaafurð olíuhreinsunarstöðva.
Fjöldi krabba-meinsvaldandi efna hefur fundist í þessari olíublöndu, sem einnig er mjög skaðleg umhverfinu til lengri tíma litið, enda brotnar hún bæði hægt og illa niður í náttúrunni og getur safnast upp í lífverum. Olían berst út í umhverfið, bæði andrúmsloft, jarðveg og vatn, með örsmáum gúmmítætlum sem myndast þegar dekk slitna.
Í dag er hægt að nota önnur efni í sama tilgangi, efni, sem hafa alveg sömu eiginleika og þessi úrgangsolía hvað dekkin snertir, en eru óskaðleg umhverfinu. Þau eru vissulega eitthvað dýrari en á móti kemur að ávinningurinn fyrir umhverfið er mikill.
Norræna umhverfismerkið Svanurinn leyfir ekki notkun á þessari eitruðu úrgangsolíu í Svansmerkt dekk. Þú getur lagt þitt af mörkum til að draga úr notkun þessa óþarfa og miður geðslega hráefnis með því að velja Svansmerkt dekk.
Lítið viðnám
Þegar þú velur Svansmerkt dekk ertu jafnframt að velja dekk með lítið viðnám. Óháður aðili hefur gengið úr skugga um það, enda er það skilyrði fyrir Svansmerkingu. Dekk sem snúast án teljandi viðnáms draga úr eldsneytisneyslu og þannig sparar eigandinn fé um leið og hann verndar umhverfið.
Drögum úr hávaðanum!
Umferðarniður og hávaði af völdum umferðar er fyrst og fremst rakinn til núnings dekkjanna við akbrautina, þótt vélarhljóðið hafi einnig sitt að segja. Þessi hávaði er truflandi jafnt fyrir þá sem eru í umferðinni og þá sem búa og starfa í næsta nágrenni við akbrautir hvers konar. Það er hægt að hljóðeinangra bílana og setja upp hljóðmanir meðfram stærstu umferðargötunum, en best er auðvitað að losna einfaldlega við hávaðann. Það verður
sjálfsagt aldrei hægt, en Svansmerkt dekk uppfylla ákveðnar kröfur, sem miða að því að draga úr hávaðanum svo sem kostur er.
Svanurinn á Netinu
Kröfur Norræna umhverfismerkisins Svansins um bíldekk eru yfirgripsmiklar og margþættar. Þær eru endurskoðaðar og hertar á fjögurra ára fresti í takt við vísindalegar framfarir og tækniþróun á þessu sviði. Því getur aldrei nema hluti þeirrar framleiðslu sem í boði er á
dekkjamarkaðnum uppfyllt kröfurnar og fengið umhverfismerkið - og það er alltaf sá hluti, sem lengst er kominn í umhverfismálum hverju sinni.
Bíldekk og umhverfið
Loftfyllt dekk úr gúmmíi eru líklega á meðal mikilvægustu uppfinninga 20. aldarinnar. Tilkoma þeirra átti stóran þátt í stórauknum vinsældum bílsins og hafði
þannig bein áhrif á skipulagsmál og uppbyggingu samgöngumannvirkja í dreifbýli jafnt sem þéttbýli nútímasamfélagsins um allan heim. Ekkert annað hráefni getur keppt við gúmmíið - og loftið - hvað endingu, þægindi og öryggi snertir. Nytsemi þeirra, jafnt fyrir
einstaklingin sem samfélagið, er því óumdeild. Þessir ótvíræðu kostir gúmmídekkja tryggðu þeim miklar vinsældir og útbreiðslu allt frá upphafi. Í dag er talið að um það bil 2,1 milljónir
tonna af dekkjum séu notaðar í Evrópusambandinu á ári hverju. Til samanburðar má geta þess að í Svíþjóð nemur notkunin um það bil 60.000 tonnum á ári, og reikna má með að Íslendingar setji um 2.000 tonn af gúmmíi undir bílaflota sinn á hverju ári, eða ríflega það.
Gömul, slitin bíldekk eiga heima á gáma- og endurvinnslustöðvum, eða fyrirtækjum sem sérhæfa sig í endurvinnslu þeirra. Bensínstöðvar og dekkjaverkstæði taka sum hver við gömlum dekkjum af viðskiptavinum sínum og koma þeim á réttan stað.
Brennið aldrei gömul bíldekk - reykurinn af slíkum eldi er eitraður!
Sum notuð dekk eru sóluð og ganga þannig í endurnýjun lífdaga. Önnur eru nýtt á ýmsan hátt, s.s. í sementsverksmiðjum, sem hráefni í undirlag fyrir hlaupabrautir og í öðrum íþróttamannvirkjum. Dekk eru nýtt til framleiðslu á gúmmílistum og gúmmímottum - sem m.a. eru notaðar á íslenskum leikvöllum - og margt fleira.
Stöðugt er unnið að þróun á nýjum vörum, sem hægt er að vinna úr gömlum dekkjum.
Allt að 20% af heildarþyngd dekkjanna geta innihaldið heilsuspillandi og umhverfisskaðlega
úrgangsolíu, sem gerir um það bil einn lítra á hvert venjulegt fólksbíladekk. Miðað við eðlilegt slit á dekkjum má gera ráð fyrir að um 50 tonn af úrgangsolíu berist út í íslenska náttúru frá dekkjum íslenskra bíleigenda á ári hverju. Olían er ekki bundin í gúmmítætlunum sem losna frá dekkjunum, hún leitar út úr þeim og sest í vatn og jarðveg.
Í Evrópusambandslöndunum öllum er talið að um 30 - 40.000 tonn af úrgangsolíu komist í tæri við náttúruna með þessum hætti. Árlega nota evrópskir dekkjaframleiðendur ca.
250.000 tonn af úrgangsolíu í framleiðslu sína.
Þessu þarf að breyta.
Með því að velja svansmerkt dekk leggur þú þitt af mörkum til þess.
Zinkoxíð er annað efni sem notað er í bíldekk. Zinkoxíð er gjarnan mengað blýi og kadmíum, sem hætta er á að dreifist út í náttúruna með sama hætti og úrgangsolían. Einnig er talsvert notað af lífrænum leysiefnum við framleiðslu á dekkjum. Þeir, sem framleiða
Svansmerkt bíldekk, uppfylla strangar kröfur um lágmarks kadmíum og blýmengun, auk þess sem notkun lífrænna leysiefna er haldið í lágmarki.
Úr prentuðum bæklingi Umhverfisstofnunar um umhverfismerkið Svaninn á bíldekkjum.
Norræn umhverfismerking starfar á öllum norðurlöndunum. Umhverfisstofnun hefur umsjón
með Norrænni umhverfismerkingu á Íslandi í umboði íslenskra stjórnvalda. Umhverfisstofnun
hefur einnig umsjón með umhverfismerki Evrópu, Blóminu.
Sjá Svansmerkt fyrirtæki á Íslandi, fyrirtæki sem selja Svansmerktar vörur og lesefni um Svaninn hér á Grænum siðum.
Nánari upplýsingar um hvernig hægt er að fá Svansvottun veitir umboðsaðili Svansins hér á landi Umhverfisstofnun.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Bíldekk - Svanurinn“, Náttúran.is: 7. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2007/11/19/bildekk-svanurinn/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. nóvember 2007
breytt: 7. janúar 2008