Vetrarfar má svo marka
Í tilefni þess að vetur konungur gengur í garð í dag 1) og gormánuður 2) tók við af haustmánuði, er ekki úr vegi að rifja upp hvernig vetrarfar var lesið af náttúrufari hér áður fyrr. Í ritinu „Atli, eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn, helst um jarðar- og kvikfjárrækt aðferð og ágóða, með andsvari gamals bónda. Samanskrifað fyrir fátækis frumbýlinga, einkanlega þá sem reisa bú á eyðijörð“3) segir svo í kaflanum „Vetrarfar má svo marka“:
- Drífi snjór á fjöll og byggð í september vænta menn snjólítð verða muni til sólhvarfa.
- Leggist vetur að með frostum og fönnum um sólhvörf helst það fram á góu.
- Dragi grænar blikur upp á loft strax eftir sólhvörf, boðar vetrarríki.
- Stígi hrímþoka jafnan upp í loft á öndverðum vetri, boðar langvinna fannkomu.
- Hjaðni hrímþoka við jörð og fari ei upp í loftið aftur, boða snjóminni vetur.
- Standi oft þokuský á fjöllum um vetur og hylji fjallatinda, merkir vetrarríki.
- Sjáist fjallatindar klárir og skýlausir öndverðan vetur og fram um jól, boðar mildan vetur.
- Sýnist sólin oft rauð eftir sólhvörf á vetrum, boðar frostasaman og vindsvalan vetur. Það sama merkja dökkir og grænir hringar um sólina öndverðan vetur. Það sama merkir grænn eða gulleitur litur sólar og þó helst að vetur muni snivin og vindsvalur verða.
- Allt þetta er ei annað en náttúrulegar loftsins verkanir, sem hver hygginn maður má skilja.
1) Fyrsti vetrardagur. Að heiðnum sið voru haldnar veislur, svokölluð „vetrarnáttaboð“ á fyrsta vetrardag.
2) Gor þýða innyfli og vísa til sláturtíðar. Guðbrandur Þorláksson kallaði október „sláturmánuð“.
3) Ritið er eftir séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (1724-1794) og kom fyrst út árið 1777. Ritið er einnig að finna í „Riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal“ sem var fært til nútímamáls og gefið út ásamt þrem öðrum ritum af Bændasamtökum Íslands (nú Búnaðarsamtök Íslands) árið 1983. Bókin fæst hér á Náttúrumarkaði.
Myndin er af kápu bókarinnar Rit Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Vetrarfar má svo marka“, Náttúran.is: 24. október 2009 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/vetrarfar/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 6. október 2009