Árið það 17. hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík

Það var ekki bara hiti í viðskiptalífinu og mótmælendum á árinu 2008 því árshitinn var einnig vel yfir meðallagi á landinu og er þetta 13. árið í röð með hita yfir meðallagi í Reykjavík og það tíunda á Akureyri. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Þar kemur fram að árið var 17. hlýjasta ár frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík (1870), 14. hlýjasta árið í Stykkishólmi (mælingar frá 1845) og 22. hlýjasta á Akureyri (mælingar frá 1882).

Þá var úrkoma nærri meðallagi norðan- og austanlands, en yfir því um sunnan- og vestanvert landið. Mest var úrkoman að tiltölu við Breiðafjörð og víða á Vestfjörðum. Árið byrjaði með mikilli úrkomutíð en þurrviðrasamt var framan af sumri. Mikið rigndi síðan í september.

Snjór var ívið meiri en verið hefur frá aldamótum en náði þó rétt í meðaltal áratuganna þar á undan. Alhvítir dagar í Reykjavík voru 64 og er það 9 dögum meira en að meðaltali 1961 til 1990, en í tæpu meðallagi sé miðað við 1971 til 2000.

Í Reykjavík mældust 1463 sólskinsstundir og er það 195 stundum umfram meðallag. Mestu munaði um óvenjusólríkan júnímánuð. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1089 og er það 44 stundum umfram meðallag.

Sjá nánar á vef Veðurstofunnar.

Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
4. janúar 2009
Höfundur:
Viðskiptablaðið
Tilvitnun:
Viðskiptablaðið „Árshitinn vel yfir meðallagi árið 2008“, Náttúran.is: 4. janúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/01/04/arshitinn-vel-yfir-meoallagi-ario-2008/ [Skoðað:27. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: