Líflegur fundur um útiræktun á erfðabreyttu byggi
Fullt var út úr dyrum á opnum fundi Umhverfisstofnunar þar sem rædd var umsókn fyrirtækisins ORF Líftækni hf. varðandi leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi. Flutt voru sex erindi og að þeim loknum fóru fram líflegar umræður.
Karl Karlsson sérfræðingur Umhverfisstofnunar rakti málsmeðferðina, lagarammann og önnur atriði í tengslum við umsóknarferlið. Er þetta í fyrsta skipti sem haldnir eru kynningarfundir í tengslum við slíkar umsóknir hjá Umhverfisstofnun en haldnir hafa verið tveir fundir vegna þessa máls. Fundarmenn voru þakklátir fyrir fundinn og almenn ánægja var með að fram færi nú umræða um þessi mál. Fram kom í máli fundarmanna að hingað til hefði umræða verið af skornum skammti og að þörf væri á ítarlegri fræðslu um málaflokkinn til almennings. Glærur frá erindi Karls og annarra framsögumanna er að finna hér að neðan.
Björn Lárus Örvar framkvæmdastjóri og stofnandi ORF líftækni kynnti umsókn fyrirtækisins fyrir útiræktun á erfðabreyttu byggi. Ræddi hann m.a. fyrirkomulag ræktunarinnar og vöruna sem stefnt er að framleiða í kjölfar tilraunanna sem leyfi er sótt fyrir. Einnig kynnti Björn ræktun hjá samkeppnisaðilum ORF erlendis.
Eva Benediktsdóttir, formaður Ráðgjafanefndar um erfðabreyttar lífverur ræddi meirihlutaálit nefndarinnar. Fór hún yfir þá þætti sem lagðir eru til grundvallar mati á slíkum umsóknum og hvert mat meirihlutans væri.
Gunnar Gunnarsson, félagsvísindamaður og starfsmaður Tún vottunarstofu, kynnti minnihlutálit sitt gegn veitingu leyfisins. Gunnar telur of marga óvissuþætti mæla gegn því að leyfa sleppingu í þessu tilviki sem og öðrum tilvikum er lúta að útiræktun. Lýsti hann yfir áhyggjum af því að hið erfðabreytta bygg myndi dreifast um íslenska náttúru.
Jón Á. Kalmansson heimspekingur kynnti minnihlutaálit sitt gegn veitingu leyfisins. Jón telur nauðsynlegt að tekin verði löng og ítarleg lýðræðisleg umræða um þennan málaflokk áður en leyfi á borð við þetta eru veitt. Hagmunaaðilar verði að vera þolinmóðir á meðan slík umræða fer fram. Jón telur að þetta mál eigi nokkuð í land að ná því stigi að teljast hafa gengið í gegnum þroskaða umræðu, sem ljúki með því að jafnvel sá málsaðili sem ekki er úrskurðað í hag verði sáttur því umræðan fór fram og kannaðar hafi verið allar hliðar málsins. Jón var ekki með glærur.
Trausti Baldursson sérfræðingur Náttúrufræðistofnunar Íslands kynnti umsögn stofnunarinnar vegna umsóknarinnar. Lesa má umsögnina í heild hér að neðan en í stuttu máli leggst Náttúrufræðistofnun Íslands ekki gegn umsókn ORF um útiræktun á erfðabreyttu byggi. Ræddi Trausti þar meðal annars áhrif á dýr og plöntur.
Líflegar umræður voru að loknum erindum þar sem margir tóku til máls og lýstu skoðunum sínum og beindu spurningum til framsögumanna. Sumir hafa af því áhyggjur að erfðabreytt bygg verði ræktað utandyra meðan aðrir telja af því litla hættu. Fram komu margvísleg sjónarmið og vísað í rannsóknir. Nokkrir fundarmenn töldu suma beita áróðurslegum brögðum í umræðunni en almennt hvöttu menn til þess að gera ekki lítið úr þeim sem væru á öndverðu meiði við eigin málstað. Ánægja var með fundinn og að umræða skuli fara fram. Eins og áður kom fram hefur Umhverfisstofnun ekki áður haldið slíka fundi í tengslum við þessar umsóknir en mun héðan í frá halda því áfram og bæta upplýsingamiðlun stofnunarinnar enn frekar.
Frestur til að skila inn athugasemdum er til 12. júní næstkomandi og skulu athugasemdir vera skriflegar til að tryggja að bregðast megi við þeim faglega. Athugasemdir skulu sendar til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.
Erindi:
Karl Karlsson - Umhverfisstofnun
Eva Benediktsdóttir - Meirihlutaálit
Gunnar Gunnarsson - Minnihlutaálit
Trausti Baldursson - Náttúrufræðistofnun Íslands
Málsgögn:
Útdráttur úr umsókn ORF Líftækni
Fylgiskjal vegna umsóknar: Ný tækni við byggkynbætur
Umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands
Umsögn Ráðgjafarnefndar um erfðabreyttar lífverur ásamt sérálitumBirt:
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Líflegur fundur um útiræktun á erfðabreyttu byggi“, Náttúran.is: 9. júní 2009 URL: http://nature.is/d/2009/06/09/liflegur-fundur-um-utiraektun-erfoabreyttu-byggi/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 10. júní 2009