Hávaða- og loftmengun á nýársnótt
Hávaða- og loftmengun fylgir gjarnan flugeldunum, skottertum og blysum. Búist er við stilltu veðri um þessi áramót og því líklegt að svifryksmengun í Reykjavík liggi í loftinu fram eftir nóttu.
„Loftmengunin fer eftir veðurskilyrðum á ný ársnótt,“ segir Anna Rósa Böðvarsdóttir hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og að búast megi við töluverðri mengun ef veðurspáin gengur eftir. Styrkur svifryks (PM10) hefur oft verið yfir mörkum á ný ársnótt. Svifryk hefur farið 19. sinnum yfir heilsuverndarmörk á árinu 2009. Heilsuverndarmörkin eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.
Þeir sem eru með viðkvæm öndunarfæri, astma eða lungnasjúkdóma þurfa að gæta sín um áramótin vegna loftmengunar. Farstöð loftmengunar í Reykjavík verður staðsett að þessu sinni á horni Stakkahlíðar og Miklubrautar og munu upplýsingar úr henni væntanlega gefa góða mynd af loftmengun í íbúðahverfi á ný ársnótt.
Búast má við að um það bil 550 tonn af flugeldum standi landsmönnum til boða á flugeldasölum að þessu sinni. 425 tonn af nýjum flugeldum voru flutt inn á árinu samkvæmt upplýsingum frá Ólafi G. Emilssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni á höfuðborgarsvæðinu. Gera má ráð fyrir að eldri birgðir vegi að minnsta kosti 125 tonn.
Feikilegt magn af rusli hlýst af flugeldum. Kristinn Ólafsson framkvæmdastjóri Landsbjargar segir að púður sé 10% af heildarþyngd flugelda, restin sé aðallega pappi. Þessum pappa og öðrum skotleifum þarf fólk að skila sjálft á endurvinnslustöðvar. Flugelda má ekki setja í tunnur við heimili fólks.
Birt:
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Hávaða- og loftmengun á nýársnótt“, Náttúran.is: 30. desember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/12/30/havaoa-og-loftmengun-nyarsnott/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.