Alþjóðlegu samráðsþingi um jarðveg, þjóðlíf og loftslagsbreytingar lauk í gær með hátíðardagskrá á Hótel Selfossi. Landgræðsla ríkisins stóð fyrir samráðsþinginu til að minnast 100 ára afmælis landgræðslustarfs hér á landi. Samráðsþingið var haldið í samstarfi við þrjár innlendar stofnanir og átján erlendar stofnanir og samtök á sviði jarðvegsverndar og þróunarmála.

Forseti Íslands herra Ólafur Ragnar Grímsson flutti hátíðarræðu. Hann byrjaði á að benda á að hann hefði í raun ekkert vit á jarðvegsvísindum og alfræðiritið um jarðvegsvísindi sem að Dr. Pachauri hafi gefið honum í fyrstu Íslandsheimsókninni hafi reyndar ekki enn verið lesin spjaldanna á milli en oft minnt hann á mikilvægi málefnsins og þannig verið táknræn ámynning um ábyrgðina sem við berum gagnvart jarðvegsmálum. Forsetinn hélt síðan áfram að skýra stöðu Íslands og hvernig reynsla okkar getur gagnast heiminum öllum. Sú staðreynd að á aðeins um 100 árum hafi tekist að eyða um 80% af skóglendinu hérlendis geti verið víti til varnaðar öðrum í framtíðinni. Sterkt bændasamfélag hafi síðan komið í veg fyrir að eitthvað væri gert í málinu í árhundruðir, þar til landgræðslan fór af stað. Herra Ólafur Ragnar vakti síðan athygli á mikilvægi vísindasamfélagsins til að finna lausnir og kynnti síðan tillögur að aðgerðum í níu liðum. Sá ræðuna í fullri lengd.

Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri rakti síðan sögu Landgræðslunnar á hnitmiðaðan hátt og lýsti ástandinu sem myndast hafði á landinu vegna skógareyðinga en landeyðing átti sér stað á tiltölulega stuttum tíma. Landgræðslan sem hét í byrjun Sandgræðslan var stofnuð þ. 22. nóvember árið 1907 og er því elsta landgræðslufélag í veröldinni. Jarðvegur á Íslandi var og er sérstaklega viðkvæmur fyrir óhóflegri beit en hún hefur verið meginorsök gróðureyðingar. Vatn og vindar tóku síðan við og voru fljótir að slíta burt síðustu stráin þegar skógurinn er horfinn. Starf Landgræðslunnar hefur frá byrjun verið að sporna við landeyðingu og finna leiðir til að græða upp land sem þegar er orðið eyðingunni að bráð.

Árangur Landgræðslu hér á landi er að uppgræðslan nær því rétt að vinna á móti því sem glatast ár hvert. Starfinu er aldrei lokið og er grundvöllur fyrir því að landið haldist í byggð því ef við vinnum ekki gegn uppblæstri og gróðureyðingu verður landið brátt ein eyðimörk. Jarðvegur er grundvöllur siðmenningarinnar og a.m.k. 30% af lífsviðurværi okkar kemur beint frá gróðrinum.

Fulltrúar innlendra og erlendra systurstofnana og samstarfsaðila fluttu afmæliskveðjur. Dr. Rajendra K. Pachauri flutti yfirgripsmikið erindi um áhrif loftslagsbreytinga á mannlíf á næstu árum. Hann er heimsþekktur vísindamaður á sviði loftslagsbreytinga og kom hingað fyrir atbeina forseta Íslands. Dr. Pachauri minnti meðal annars á að loftslagsbreytingar hafi nú þegar gríðarleg áhrif á gæði jarðvegs og þannig uppskeru, sem leiðir fyrst til fátæktar og hungursneyðar sem síðan leiðir oft til algerar jarðvegseyðingar. Hann benti á að nota þyrfti þær billjónir sem kolefnislosunarheimildir gefa af sér til að greiða íbúum þriðja heimsins til að binda jarðveg og kolefnisjafna með ræktun skóga. Það myndi um leið vinna gegn fátækt sem er einn meginorskavaldur landeyðingar.

Þingið þótti takast afar vel og ítarleg ályktun var samþykkt sem send verður til hlutaðeigandi aðila um allan heim. Andrés Arnalds, fagmálastjóri Landgræðslunnar, kynnir á næstu dögum niðurstöður þingsins á aðildarþingi alþjóðlega sáttmálans um varnir gegn eyðimerkurmyndum.

Árangur samráðsþings felst m.a. í tengslum sem myndast milli þátttakenda. Áherslur í mótvægisaðgerðum gegn landhnignun og myndun eyðimarka eru samhæfðar og fremstu fræðimenn á þessu sviði samræma viðhorf sín til eins mesta umhverfisvandamáls heimsins í dag, sem er jarðvegseyðingin. Henni fylgja vatnsskortur, fátækt og loftslagsbreytingar.

Myndin er tekin á samráðsþinginu þegar að Ole Yusuf frá Kený a afhendinti forsetanum veldissprota að gjöf. Forsetinn kvaðst taka hann með næst þegar að hann fer til Afríku.
Birt:
5. september 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Samráðsþingi lýkur - Samvinna lykilorðið“, Náttúran.is: 5. september 2007 URL: http://nature.is/d/2007/09/05/niurstur-samrsings/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 6. september 2007

Skilaboð: