Franskar eða djúpsteiktar kartöflur
Í bókum stendur gjarnan að Thomas Jefferson, forseti Bandaríkjanna, hafi uppgötvað frönsku kartöfluna. Réttara er að hann hafði mikinn áhuga á eldamennsku og mun hafa kynnst djúpsteikingu á kartöflum meðan hann dvaldi sem diplómat í París á stjórnarárum Lúðvíks XVI.
Uppruni steiktu strimlanna er ekki á hreinu en Belgía eða svæðið við belgísku landamærin kemur sterklega til greina. Það er sagt af kokki frakkakonungs að hann hafði verið önnum kafinn við að djúpsteikja kartöflur en kippti þeim upp hálfsteiktum þegar ljóst var að herrann kæmi ekki í mat á tilsettum tíma. Hann greip svo til þess ráðs, í ráðleysi sínu, að dýfa þeim aftur í heita fituna og fullsteikja þegar kóngur var tilbúinn að setjast til borðs. Réttilega skulu franskar kartöflur þannig vera tvísteiktar með smáhvíld á milli.
Þegar Frakkar móðguðu Ameríkana af því þeir vildu ekki styðja innrásina í Írak var bannað að kalla þennan vinsæla rétt french fries í mötuneytunum í Washington og farið að kalla þær liberty fries. Gárungunum fannst nýja nafnið illmeltanlegt pólístískt séð og héldu því fram að það væri þá helst að hafa ögn af ediki með kartöflunum fremur an amerísku tómatsósuna (eða majónsósu ef hún væri létt í sér og heimagerð).
Englendingar steiktu hvort tveggja, fisk og kartöflur, og seldu sem skyndibita, vafinn inn í dagblað frá gærdeginum. Fish and chips er nú aftur að fá verðskuldaðan sess á Bretlandseyjum þótt hann sé framborinn á annan hátt.
Úr Blálandsdrottningunni eftir Hildi Hákonardóttur.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Franskar eða djúpsteiktar kartöflur“, Náttúran.is: 17. janúar 2015 URL: http://nature.is/d/2009/09/12/franskar-eoa-djupsteiktar-kartoflur/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 12. september 2009
breytt: 17. janúar 2015