Vinnu við að kortleggja og skilgreina vegi á hálendinu hefur miðað vel að undanförnu og hefur starfshópur umhverfisráðuneytisins, Landmælinga, Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar átt fundi með fulltrúum allra sveitarfélaga sem fara með skipulagsvald á hálendinu.

Að sögn Sesselju Bjarnadóttur, formanns starfshópsins, er markmið hópsins að skilgreina vegi á hálendinu. Hluti af því vandamáli sem stjórnvöld hafa glímt við varðandi akstur utan vega er lagaleg óvissa um hvaða vegi megi aka og hvaða vegir hafa verið myndaðir í óleyfi. Skilgreining vega á hálendinu á að eyða þessari óvissu. Sesselja segir samstarf við sveitarfélögin hafa verið árangursríkt. Nokkur sveitarfélög hafa nú þegar lokið sinni flokkun en önnur sveitarfélög vinna að því að ljúka því starfi. Stefnt er að því að tillögur allra sveitarfélaganna liggi fyrir í haust. Í kjölfarið verður kort af hálendinu lögfest í reglugerð og þar með ætti lagalegri óvissu um legu löglegra vega á hálendinu að vera lokið.

Í nýrri aðgerðaráætlun umhverfisráðuneytisins til að draga úr náttúruspjöllum af völdum utanvegaaksturs er meðal annars fjallað um skilgreiningu vega á hálendinu. Þar segir um aðgerðir til að skýra lög og reglur: ,,Skilgreina vegi innan miðhálendislínunnar í samvinnu við viðkomandi sveitarfélög og í framhaldinu setja reglugerð þar sem skilgreindir vegir innan miðhálendislínu koma fram í viðauka. Í reglugerð þarf að koma skýrt fram hvað felst í merkingu vega á kort og að rafrænir kortagrunnar og kortaútgáfa sé í samræmi við þá vegi sem koma fram í hinum opinbera vegagrunni. Koma þarf á þeirri skyldu að vegir samkvæmt kortagrunninum fari inn í aðalskipulag sveitarfélaganna.“

Birt:
9. júní 2010
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Vinnu við kortlagningu vega miðar vel“, Náttúran.is: 9. júní 2010 URL: http://nature.is/d/2010/06/09/vinnu-vid-kortlagningu-vega-midar-vel/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: