Starfshópur kannar rekstrargrundvöll félagasamtaka
Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra hefur skipað starfshóp til að kanna rekstrargrundvöll félagasamtaka á sviði umhverfismála við breyttar efnahagsaðstæður og til að leggja fram tillögur um hvernig efla megi starfsemi og fjárhag félaganna til frambúðar.
Starfshópurinn á að skoða á hvern hátt félagasamtök á sviði umhverfismála eru í stakk búin til að gegna sífellt mikilvægara hlutverki. Þau veita stjórnvöldum og atvinnurekendum mikilvægt aðhald og sinna bæði fræðslu- og eftirlitshlutverki. Þá hefur þeim verið falin aukin ábyrgð samkvæmt lögum, m.a. við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, og samkvæmt stefnumótandi áætlunum stjórnvalda, m.a. stefnumörkun um sjálfbæra þróun og stefnumörkun í loftslagsmálum. Þá veita félögin umsagnir um þingmál og frumvörp frá ráðuneytum. Einnig skal starfshópurinn hafa hliðsjón af því að íslensk stjórnvöld hafa undirritað alþjóðlega samninga sem fjalla um nauðsyn þess að styrkja stöðu frjálsra félagasamtaka og mikilvægi þeirra í umfjöllun um sjálfbæra þróun, m.a. samning um Dagskrá 21 og Árósasamninginn.
Ljóst er að mörg félagasamtök á sviði umhverfismála hafa um langt skeið átt erfitt með að standa undir kostnaði við starfsemi sína og hefur þeim því reynst örðugt að gegna því mikilvæga hlutverki sem þeim er ætlað. Núverandi efnahagsástand gerir róðurinn enn erfiðari. Þess vegna telur umhverfisráðherra nauðsynlegt að gera úttekt á rekstrargrundvelli félagasamtakanna og leita leiða til að styrkja hann.
Starfshópinn skipa:
- Guðmundur Hörður Guðmundsson frá umhverfisráðuneytinu, formaður.
- Kristín Svavarsdóttir, formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags.
- Tryggvi Felixson, deildarstjóri umhverfis- og auðlindaskrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar.
Þeir sem vilja senda starfshópnum tillögur eða athugasemdir geta sent tölvupóst á gudmundur.hordur@umhverfisraduneyti.is.
Mynin var tekin frá samráðsfundi ráðherra með félagasamtökum fyrr í mánuðinum.Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Starfshópur kannar rekstrargrundvöll félagasamtaka“, Náttúran.is: 19. mars 2009 URL: http://nature.is/d/2009/03/19/starfshopur-kannar-rekstrargrundvoll-felagasamtaka/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.