BláberBláber eru best eins og þau koma af jörðinni ný tínd, út á skyr með rjóma. En eitt haustið var svo mikið af þeim og engin leið að torga öllu saman og frostið kom ekki og áfram voru meiri ber, svo eitthvað varð að gera. Ég hringdi í Huldu svilkonu, því ég mundi að hún hafði gefið mér fína bláberjasultuuppskrift fyrir nokkrum árum, en hún var svolítið hvöss og spurði hvort ég hefði ekki skrifað hana niður úr því hún tókst svona vel síðast, það ætti maður að gera. Þó sá hún aumur á mér og lét mig aftur hafa uppskriftina eða ég fann hana í húsbókinni því hér er hún:

Bláber komin í pottinn með sykrinumBláberjasulta
2,5 kg bláber 2,5 kg rabarbari 3–4 kg sykur Sjóðið sykur og rabarbara í korter, setjið berin í og sjóðið áfram í 5–10 mínútur. Setjið út í einn pakka sultuhleypi og sjóðið í 1–2 mínútur. Setjið á þurrar krukkur og lokið meðan sultan er ennþá heit með bréfi vættu í etamoni. En nú eru breyttir tímar í sultugerð.

Tveimur árum seinna, þegar ég ber þessa uppskrift undir svilkonuna sem er berjatínslukona og elskar útiveru á fjöllum, þá segir hún að hún sé löngu hætt við etamonið. – Ég tek meira að segja bara þvegnar krukkurnar úr búrinu og set beint á þær og er ekkert að sjóða þær og þurrka lengur. Mikið var ég fegin að heyra þetta. Hver kannast ekki við að brenna sig á puttunum við það óhönduglega starf að stemmpilla út eldheitt gler úr bakarofninum. – Ég sulta ekki svo mikið í einu núorðið, sagði svilkonan að auki, – frysti berin og tek Bláberjasultan komin í krukkurnarsvo úr frystinum það sem passar. Forvitnin drap köttinn var uppáhaldstilsvar dótturdætra minna um tíma og notað „út á hvað sem var“. Nú er farið að gera ýmsar tilraunir með kryddtegundir út í sultuna og ekkert síður íslenskar jurtir. Þetta er alvarlegt frávik frá þeirri dönsku kokkamenningu sem hér hefur verið ríkjandi í sultum og kökum alla síðustu öld. En beiska og bitra bragðið fer svo makalaust vel með því sæta og það má prófa sig áfram með aðeins hluta af sultunni, til að vera öruggur.

Úr bókinni Ætigarðurinn - handbók grasnytjungsins eftir Hildi Hákonardóttur. 

Ljósmyndir: Bláber, bláber komin í pottin og á neðstu myndinni komnar í krukkurnar. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
25. ágúst 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Bláber og bláberjasulta“, Náttúran.is: 25. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2007/11/09/alblber-og-blber/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 9. nóvember 2007
breytt: 29. ágúst 2014

Skilaboð: